18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala mikið um þetta mál, en það vakti athygli mína, sem hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, sagði áðan, að ýmsum stéttum manna væri gert að greiða skatta af 650 þús. kr. á mánuði á árinu 1979 að meðaltali. Er þetta rétt með farið? Þar í hópi voru t.d. lögfræðingar, læknar og ýmsir aðrir. Nú vitum við það um unga lögfræðinga, sem eru að hefja sína starfsemi, að þeir fá tekjur sínar mjög seint inn, og það er meira að segja alls ekki víst að þeir hafi bolmagn fyrsta árið til þess að lifa af eigin vinnu vegna þess að tekjurnar koma inn miklu síðar. Þessi áætlun er því augljóslega allt of há fyrir þessa stétt manna. En það er ekki þetta sem vakti athygli mína, heldur hitt, að viðmiðunartekjur þessara stétta, sem hv. þm. taldi eðlilegar, eru að meðaltali 100 þús. kr. hærri en mánaðarlaun þingmanna á árinu 1979. Á árinu 1979 voru þingmannslaunin 6 603 286 kr. eða að meðaltali 550 273 kr. á mánuði. Ef það er rétt, að viðmiðunartekjur vissra stétta séu 650 þús. kr. þá finnst mér fulllangt gengið, — ef ekki er látið duga að áætla ungum mönnum, sem eru að hefja starfsemi, svo sem eins og laun alþm. fyrsta starfsár þeirra. Mér finnst þetta sannfæra mig miklu fremur en mörg orð um það, hve fáránleg þessi framkvæmd hefur verið og út í hött. Betri röksemd fyrir óréttmæti þessarar lagagreinar er ekki til. Hér er augljóslega bæði um mjög gallaða lagasetningu og gallaða framkvæmd að ræða.

Varðandi það sem hv. þm. Magnús H. Magnússon sagði, nýkjörinn varaformaður Alþfl., vakti það athygli mína að honum kom það fyrst í hug, að þeir menn, sem helst væru að reyna að skjóta sér undan eðlilegum skattgreiðslum, væru útgerðarmenn. Þykir mér það satt að segja nokkuð undarlegt, einkum ef til þess er lítið, að á síðustu misserum hefur þeirra hlutur margra farið mjög versnandi, þ.e. þeirra sem eiga ný skip og verða að una þeim nýju lánskjörum sem þar er um að ræða, en fiskverð hefur stórlega dregist aftur úr og tilkostnaður hækkað. Ég veit að þessi hv. þm. þekkir það jafnvel og ég, að ýmsir útgerðarmenn verða núna að ganga á eigur sínar til að geta haldið skipum sínum og til að geta haldið rekstrinum gangandi. Við vitum báðir fullvel að vanskilin hlaðast upp hjá Fiskveiðasjóði, Byggðasjóði og öðrum sjóðum, og hæstv. sjútvrh. er einmitt þessa dagana, þessa mánuðina og hefur síðan í vor verið að vinna að því að gera sérstakar ráðstafanir til að fleyta útgerðarmönnum yfir þessi vandræði.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talar um það, að tilgangur þessara laga sé að skilja á milli atvinnufyrirtækis og eigin fjármuna — og hvað? (SighB: Og einkabúskapar.) Og einkabúskapar. Þá á hv. þm. við það, eins og dæmið kemur út m.a. hjá mörgum útgerðarmönnum þar sem ég er kunnugastur fyrir norðan — en það var hafísár, sem verið var að skattleggja, — þá kemur það þannig út, að þessir menn hafa tekið úr sínum einkabúskap álitlegt fé og lagt í sinn rekstur, og svo á að skattleggja þessa menn núna.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði fyrr í dag, að harðasta gagnrýnin á skattalagaframkvæmdina, eins og hún var, kom frá sjálfstæðismönnum. Ólafur Björnsson hefur skrifað um það merkar greinar sem ég hef hér vitnað til. En það er mikill misskilningur að halda að það sé einhver bót, ef menn hafa orðið fyrir ranglæti, að láta einhverja aðra verða fyrir kannske enn þá meira ranglæti. Það er alls ekki þannig. Gagnrýnin á skattalöggjöfina — eins og hún var á sínum tíma og galla hennar — var eðlileg vegna þess að hún var ekki sniðin við það þjóðfélag sem við búum í.

Ég veit það jafnvel og hv. þm. Magnús H. Magnússon, að bæjarstjórar hafa margvísleg fríðindi víðs vegar um land sem ekki hafa komið til skatts. Ég veit um menn sem hafa farið úr landi á vegum opinberra aðila þrásinnis. Þessir aðilar hafa kannske ekki komið til baka sama daginn og þeirri ráðstefnu lauk, sem þeir hafa sótt, eða farið út sama daginn og ráðstefnan hófst. Samt sem áður þori ég að fullyrða, að enginn þessara manna, hvorki ráðherra, sveitarstjórar né aðrir embættismenn, hafi þurft að greiða tekjuskatt af þeim ferðakostnaði, sem þeir hafa þannig notað að hluta í einkaneyslu. Þeir hafa tekið hluta af sínu sumarleyfi til þess að vera lengur erlendis, og hið opinbera hefur borgað fyrir þá brúsann. Þeir hafa ekki þurft að borga tekjuskatt af þessu þó þeir hafi kannske notað þessa ferð í leiðinni til þess að slá sér upp með fjölskyldu sinni. Á hinn bóginn er það þannig hjá einkaaðilum, að ef skattstjórar komast að raun um það, að menn, sem fara til útlanda á vegum einkaaðila, nota ferðina til þess að fara í leiðinni til sólarlanda eða eitthvað annað, spara sér flugferð yfir hafið, þá verða þeir að greiða tekjuskatt að hluta af þessu hagræði.

Ég get tekið annað dæmi. Ráðherrar eru með í dagpeninga núna sennilega um 100 þús. kr. á dag ef þeir eru erlendis. Þeim er ekki gert af hinu opinbera að skila skattstofu nákvæmri skýrslu um það og greinargerð, hvernig þeir hafa varið þessu fé. Þeir fá það ekki upp gefið til skatts.

Ég get enn nefnt dæmi. Ráðherrar hafa búið við margvísleg fríðindi í sambandi við bifreiðakaup og ég hef fyrir því fulla vissu, að þessi fríðindi hafa aldrei verið talin fram til skatts. Við getum þannig tengi haldið áfram að tala um það, að í skattalegu tilliti hafa menn búið við afskaplega ólík skilyrði. Sumir menn hafa fengið töluvert út úr því að vinna hjá hinu opinbera, margvíslegt hagræði og fyrirgreiðslu. Ég veit meira að segja dæmi þess, að menn í háum stöðum hafa blandað saman þannig sínum einkabúskap og opinberum rekstri, að þegar þeir hafa farið úr landi hafa þeir ekki fengið sinn farmiða sendan beint í gegnum sína ríkisstofnun, heldur hefur þeim tekist að ná út 50% afslætti fyrir eiginkonu sína í skjóti þess, að þeir hafi farið út á vegum opinberra aðila. Þannig hefur þetta blandast saman. Það þarf ekki að tala um það, þegar tekjuskatturinn er orðinn 65%, þá reyna menn auðvitað hvað þeir geta til að komast hjá því að greiða skatta.

Af því að hv. þm. tók hér sérstaklega lögfræðinga sem dæmi, þá veit ég dæmi þess, að hið opinbera hefur talið nauðsynlegt að senda ýmsa dómara og stjórnarráðsmenn á lögfræðiþing í Finnlandi. Þeir fengu allan sinn dvalarkostnað og ferðalög greitt af hinu opinbera. Lögfræðingur, sem var með sjálfstæðan rekstur, fór á þetta sama lögfræðimót og taldi sinn útlagða kostnað fram sem kostnað og fékk hann að fullu strikaðan út af viðkomandi skattstofu. Hann varð m.ö.o. að greiða fullan tekjuskatt af námskostnaði — við verðum að líta þannig á það — til þess að fylgjast með í sínu fagi á lögfræðingamóti sem hið opinbera sá fulla ástæðu til að senda menn á á ríkisins kostnað. Það er ekki eins og allir sitji við sama borð, þótt svo eigi að heita stundum, að ríkið krefjist þess að fá fullnægjandi skilagreinar fyrir útlögðum kostnaði. Ég veit að í sumum tilvikum og sumar stofnanir eru mjög strangar í þessum efnum, en það er nú svo um ýmsa aðra, að þeir sleppa miklu betur.

Þetta er almennt um skattsvik að því gefna tilefni, að hv. þm. Magnús H. Magnússon var sérstaklega að tala um það, að útgerðarmenn hefðu stoppið vel í sambandi við tekjuskattinn, en minntist ekki á margvíslegan annan rekstur sem ég fullyrði að ekki hefur síður sloppið við að greiða tekjuskatt. Skal ég nefna strax sem dæmi Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri eða SÍS. Ef við berum saman þá miklu eignasöfnun, sem þar hefur átt sér stað, og tekjuskattsgreiðslurnar, þá sjáum við að þar er lítið samræmi á milli og engin tekjuáætlun á þvílíkum fyrirtækjum um það, hvernig þeim beri að greiða tekjuskatt.

Auðvitað er hugsunin á bak við tekjuskattinn sú, — og ég man að þegar hæstv. núv. forsrh. var fjmrh. í viðreisnarstjórninni, þá hrósaði hann sér mjög mikið af því að hafa gerst forgöngumaður þess í sambandi við útsvarið, að hætt yrði að leggja á eftir efnum og ástæðum, — hugsunin á bak við tekjuskattinn er sú, að menn eigi að greiða ríkinu hluta af sínu aflafé, af þeim fjármunum sem þeir hafa fengið í aðra hönd umfram kostnað við að afla þessara fjármuna, annaðhvort sem launagreiðslur eða þá í sjálfstæðum rekstri. Það er grundvallarforsendan fyrir álagningu tekjuskattsins, að um einhverja tekjuöflun hafi verið að ræða, áþreifanlega tekjuöflun. En ef hægt er að sýna fram á að viðkomandi aðili hefur ekki staðið undir sjálfum sér á viðkomandi ári, hefur orðið að ganga á sínar eignir, þá er að sjálfsögðu enginn grundvöllur fyrir tekjuskattsálagningunni. Og ég ítreka það enn, eins og ég hef raunar gert áður, að það er næsta hryggilegt að þessi vitleysa — sem þetta lagaákvæði er sem við erum hér að tala um — skuli hafa orðið niðurstaðan af mjög glöggum skrifum Ólafs Björnssonar prófessors um þessi efni, að ný og miklu stærri vitleysa sé búin til, miklu meira ranglæti sé viðhaft í þjóðfélaginu en áður vegna þess að löggjafinn brást rangt við þeim upplýsingum sem fyrir lágu, þeirri reynstu sem var af tekjuskattinum.

Um þetta má tala miklu lengra mál. Ég skal sleppa því að þessu sinni, en aðeins ítreka það sem ég hef áður sagt, að tekjuskatturinn er í eðli sínu í þjóðfélaginu eins og það er orðið núna, — sá hái stighækkandi tekjuskattur er fyrst og fremst launþegaskattur. Hann bitnar fyrst og fremst á þeim stéttum manna sem Sighvatur Björgvinsson, hv. 3. þm. Vestf., þykist vera sérstakur fulltrúi fyrir og hv. þm. Magnús H. Magnússon þykist einnig vera sérstakur fulltrúi fyrir. Þeir kalla raunar flokk sinn Alþýðuflokk og minnast þess með sælubrosi á vör þegar þeim tókst að næla í Alþýðuhúsið og ýmsar aðrar eignir án þess að greiða af því tekjuskatt, við aðskilnað verkalýðshreyfingar og Alþfl. á sínum tíma. Og ég held að bara með því að fara aðeins aftur í tímann og minnast þessara sæludaga, þegar þeir veltu sér upp úr nafnaskiptunum og húseignunum, þá ættu þeir að skilja það í sambandi við þetta mál og ýmisleg önnur, að tekjuskatturinn er fyrst og fremst launþegaskattur, og í öðru lagi, að ekki er hægt að leggja tekjuskatt á annað en tekjur, ef maður vill framfylgja þeim skatti eins og hann er hugsaður. Að öðrum kosti er hér um eignaupptöku að ræða. Og eignarskattur, sem er 65% er það mikið fyrir minn smekk a.m.k., að ég efast um að það standist lög, ef úrskurður í skattalögum fengist þegar í stað, en drægist ekki á langinn.

Mér þykir slæmt, herra forseti, að hæstv. landbrh. skuli ekki vera við. Hann gæti frætt okkur um síðasta þáttinn í þessu máli, sem er sá skemmtilegasti. Hann lagði 200% fóðurbætisskatt á á s.l. sumri. Samkv. þeim skattalögum, sem nú gilda, með 65% álagningu og svo þeirri áætlun sem bændum er gert að greiða, getur þetta endað með því, að bændur verði að greiða ofan á þessi 200% 65% tekjuskatt. Er þá ríkissjóður farinn að taka allnokkuð í sinn hlut. Ætli skattheimtan fari þá ekki að nálgast 400% af fóðurbætiskílóinu ef rétt er reiknað?