18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir að hafa afgreitt þetta frv. út úr nefnd á þeim annatímum sem nú eru. Ég vil þakka sérstaklega fyrir það, þar sem það er mitt álit, að það sé mjög brýnt að þetta frv. nái fram að ganga. Og ég el þá von í brjósti, má segja að ég þykist hafa um það vissu, að þessi hv. deild muni samþykkja frv. nú að lokinni umræðunni.

Ég ætla ekki að setja hér á neinar stólparæður í þessu máli. Ég talaði fyrir því við 1. umr. og þóttist hafa skýrt það nokkurn veginn, og það hefur ekki komið fram í máli þeirra manna, sem hafa lýst sig andstæða frv., neitt sem ég þykist ekki hafa svarað áður að öðru leyti en því sem nú skal greint.

Hv. 3. þm. Vestf. hafði þau orð um ákvæði 59. gr., að það væri hæpið að afnema þau nú að þessu sinni þar sem ekki lægju fyrir nægilega staðgóðar upplýsingar um það, að þau ákvæði væru skaðvænleg. Hv. 5. þm. Suðurl., Magnús H. Magnússon, taldi óeðlilegt að afnema ákvæði þessarar greinar vegna þess, hversu hóflega þeim hefði verið beitt við álagningu nú. Það er alveg merkilegt, að tveir menn, sem báðir leggja til sams konar meðhöndlun á einu frv., skuli geta gert það út frá gagnstæðum forsendum. Ég þarf ekki að svara fyrir það, en ég geri ráð fyrir, að þeir eigi dálítið erfitt með að skýra þetta hvor fyrir öðrum, og læt ég það alveg óátalið.

Hv. 3. þm. Vestf. sagði í sinni ræðu áðan, að ákvæði 59. gr. laganna hefðu ekki átt að koma flm. á óvart. Og það er hverju orði sannara, það kom okkur ekki á óvart. Ég skýrði það í minni framsöguræðu með frv., að málið væri ekki nýtt af nálinni, við hefðum strax, þegar frv. kom til umfjöllunar í þingflokki okkar, haft áhyggjur af þessu ákvæði. Og það er skjalfest, að á síðasta þingi, þegar lögin komu til endurskoðunar, lögðum við til að þetta ákvæði yrði afnumið. Við erum enn við sama heygarðshornið, og ég vil segja það, að það ber ekki þess vott, að þetta ákvæði komi okkur á óvart.

Hann hafði orð á því einnig, hv. 3. þm. Vestf., að beiting þessa ákvæðis hefði farið úrskeiðis að nokkru á síðasta sumri, og mér skildist að eitt af því sem þar hefði farið úrskeiðis, væri það, að viðkomendur fengu ekki að skýra framtöl sín. Það er nú svo. Eftir þeim upplýsingum, sem hér hafa verið skýrðar fyrir hv. dm., er það álit þeirra, sem stjórnað hafa þessum álögum á þessu sumri eða lagt skattana á, að það eigi að leggja skatta á þessar áætluðu tekjur hvort sem þeir sannanlega hefðu haft þær eða ekki, það skipti ekki máli. Og ég verð að segja það, að það fer að verða vandgert að semja lög fyrir þá, sem eiga að framkvæma þau, ef þessi lagagrein var ekki nægilega skýrt orðuð til þess að embættismennirnir misfæru ekki með hana og kenndu svo alþm. um að þeir hefðu lagt þetta með þessum hætti upp í hendur sér. Það má vel vera að þeir hafi ekki haft skilning á því, við hvað Alþingi átti eða þm. áttu með viðmiðunartekjum og þeim undantekningartilvikum sem tilgreind eru. Það færir mér heim sanninn um það, að nú er vissast að taka fyrir þetta og nema ákvæðin úr gildi.