18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér að felld skuli niður þau ákvæði núverandi skattalaga sem heimila skattyfirvöldum að ákveða þeim, sem vinna við eigin atvinnurekstur, tekjur eftir tilteknum reglum hvað sem raunverulegum tekjum þeirra líður. Ég hef alla tíð verið andvígur þessum ákvæðum skattalaganna, síðan þau komu fyrst á dagskrá við undirbúning núgildandi laga. Þessi atriði hafa verið til umræðu innan ríkisstj. og til athugunar í nefndum á hennar vegum. Innan ríkisstj. hefur komið í ljós sterkur vilji fyrir breytingum á þessum ákvæðum skattalaganna til samræmis við þær skoðanir sem ég hef lýst til þessa máls. Nokkur atriði eru þó enn í athugun hvað þetta mál snertir. Ég tel því mjög heppilegt að vísa þessu máli til ríkisstj. og segi já.