28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

344. mál, lækkun gjalda á bifreiðum fyrir öryrkja

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Á tveimur þingum hef ég ásamt fleiri þm. flutt breytingartillögu við tollskrá að því er varðar niðurfellingu og lækkun gjalda af bifreiðum fyrir öryrkja. Ég hef orðið var við það, eins og raunar hefur komið fram í umr., að hv. alþm. hafa mjög mikinn áhuga á því og vilja hafa samstöðu um að lagfæra þennan þátt mála fyrir þá sem þurfa á slíkri niðurfellingu að halda.

Ég tel að mjög æskilegt sé að í þeirri endurskoðun, sem nú fer fram, eftir því sem hæstv. fjmrh. upplýsti, sé ekki aðeins haft samráð við eða leitað álits þeirra tryggingalækna, sem lögum samkvæmt fjalla um þessa niðurfellingu, heldur ekki síður leitað umsagnar eða haft samráð við samtök öryrkja í landinu, sem mjög hafa varist fyrir þessari réttarbót. Það er ljóst, að frá þeim hafa komið fram opinberlega ákveðnar tillögur í sambandi við meðferð þessa máls í heild. Ég vil gjarnan mega beina þeim tilmælum til hæstv. fjmrh., að sjónarmið þess fólks, sem stendur í forsvari fyrir þessi samtök, fái að koma fram í sambandi við þá endurskoðun sem í gangi er.

Ég vil líka leggja áherslu á að það er mjög mikilvægt að frá þessu sé gengið mjög skilmerkilega í tollskrá, vegna þess að þessi ákvæði, eins og svo mörg önnur, er hægt að túlka á margvíslegan hátt, miðað við ákvæði tollskrár eins og hún er í mörgum tilfellum. Þar minni ég á ekki hvað síst þau ákvæði er snerta niðurfellingu á tollum ýmissa tækja og hjálpartækja fyrir fatlað fólk.

Að lokum vil ég segja það, að ég vænti þess, að þessi endurskoðun komi sem fyrst fram í lagafrv. Og ég vænti þess, að afstaða hv. alþm. sé sú sem kom fram við síðustu afgreiðslu þessa máls, að ekki muni standa á Alþ. að greiða götu þeirra leiðréttinga sem á þessum málum þarf að gera.