18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

131. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 156 er flutt frv. til l. um breyt. á lögum um verðgildi íslensks gjaldmiðils frá 1979. Frv. þetta hefur verið rætt í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, en n. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n., sem skipa auk mín hv. 1. þm. Vestf., hv. 3. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Reykv., leggur til að frv. verði samþykkt, en flytur við það brtt. sem er á þskj. því sem birtir nál., þ.e. þskj. 325.

Meiri hl. fjh.- og viðskn. er þeirrar skoðunar, að það sé ótímabært að láta ákvæði laga nr. 35/1979 um myntbreytingu koma til framkvæmda um næstu áramót. Það má deila um hvort slík myntbreyting sé réttlætanleg, svo mikið rask, kostnaður og margvísleg óþægindi sem henni fylgja. En það ætti ekki að vera um það nein deila að miðað við þær aðstæður, sem nú eru í íslensku þjóðfélagi, er með engu móti réttlætanlegt að láta gjaldmiðilsbreytinguna eiga sér stað.

Aðstæður í íslensku efnahagslífi eru svo geigvænlegar að það er um einsdæmi að ræða. Verðbólgan fer ört vaxandi. Það er slegið met á hverju ári og má búast við að á næsta ári fari verðbólgan yfir 70% að dómi Þjóðhagsstofnunar, en ýmsir aðrir, sem látið hafa til sín heyra, álíta að það muni nú gerast, að verðbólgan verði þó nokkuð miklu hærri en Þjóðhagsstofnun hefur talið munu verða. Þá hefur á undanförnum mánuðum, allt frá því að núv. hæstv. ríkisstj. tók við og á undan því, það gerst, að gildi íslensku krónunnar hefur fallið mjög. Því er spáð og það er talið nauðsynlegt af stuðningsblöðum ríkisstj., að á næstu vikum þurfi að fella gengi íslenskrar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðli um 20% og að það muni gerast um það leyti sem gjaldmiðilsbreytingin á sér stað.

Það er rétt, að gjaldmiðilsbreyting kemur mjög til álita sem þáttur í samræmdum alhliða aðgerðum í efnahagsmálum. Hafa allir þeir, sem látið hafa til sín heyra hér á hinu háa Alþingi, verið sammála um að þegar til gjaldmiðilsbreytingar er gripið megi það ekki gerast öðruvísi en um sé að ræða alhliða efnahagsráðstafanir til að skapa meiri festu í efnahagslífið og þá um leið auka trú á þeim gjaldmiðli sem við höfum. Það var ljóst um það leyti sem lögin voru samþ., að þáv. ríkisstj. hafði ekki möguleika á því að koma fram með neinar þær ráðstafanir í efnahagsmálum sem gera þarf og hefur þurft að gera og nauðsynlegar eru þegar til slíks er gripið. Samstöðuleysi þeirrar ríkisstj., sem kom í ljós á fyrstu mánuðum hennar, sýndi að það gæti ekki tekist að ná neinu slíku samkomulagi um nauðsynlegar ráðstafanir. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur hvað eftir annað rætt um og látið frá sér heyra að efnahagsaðgerðir séu í vændum og þær muni verða gerðar um það leyti sem gjaldmiðilsbreytingin á sér stað, en það hefur ekkert samkomulag náðst hjá hæstv. núv. ríkisstj. Hún hefur setið í 10 mánuði og hefur ekki borið á að samkomulag væri að takast um efnahagsaðgerðir. Það er tæplega að á þeim 12 dögum, sem eftir eru af þessu ári, náist samkomulag þess eðlis sem nauðsynlegt er ef réttlæta á slíka aðgerð sem gjaldmiðilsbreytingu. Gjaldmiðilsbreyting við slíkar aðstæður er því aðgerð sem ber að forðast, og því er lagt til í þessu frv. að fresta gjaldmiðilsbreytingunni.

Gert er ráð fyrir að frestunin verði um eins árs skeið. Það liggur ljóst fyrir, að enda þótt það sé erfiðleikum háð að fresta gjaldmiðilsbreytingunni er sýnu viturlegra að gera slíkt og vinna að því að koma fram með ráðstafanir í efnahagsmálum sem geta orðið til þess að breyta því efnahagsástandi sem við búum við og blasir við á næstu mánuðum og næsta ári. Það er því að dómi meiri hl. fjh.- og viðskn. rétt að fresta gjaldmiðilsbreytingunni. Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að sú frestun verði fram til miðs árs, þannig að í staðinn fyrir „1. jan. 1981“ í 1. gr. komi: 1. júlí 1981.

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjh.og viðskn. leggur meiri hl. n. til að frv. verði samþykkt með þeirri brtt. sem flutt er á þskj. 325.