18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

131. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil taka það sérstaklega fram, að hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, er í hópi manna í flokki sínum með skoðanir í efnahagsmálum sem eru ekki utan við efnahagslega hugsun, eins og annars flokks maður orðaði afstöðu skoðanabræðra sinna. Ég tel að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hafi talað af viti og ábyrgð um íslensk efnahagsmál. Þess vegna þótti mér ástæða til að beina til hans fsp. áðan.

Ég vil taka það fram, að hv. þm. virðist ekki alveg vera ljóst hvað það var sem hann sagði í sumar. Því miður hef ég ekki blaðaviðtalið frá því í júlímánuði í sumar við höndina, en ég hef viðtal sem blað átti við hv. þm. 2. des. 1980, þar sem þetta viðtal er rifjað upp. Samkv. blaðafrásögn 2. des. lét hv. þm. í júlímánuði í sumar svo um mælt, að myntbreytingin um áramótin kæmi mjög heppilega inn í fyrirhugaðar efnahagsaðgerðir ríkisstj. sem mundu byrja að skila árangri einmitt þegar gjaldmiðilsbreytingin yrði að veruleika. Hv. þm. sagði í sumar, að þegar gjaldmiðilsbreytingin tæki gildi yrðu ráðstafanirnar, sem hann var að bíða eftir í júlímánuði og hélt á þeim tíma að mundu koma kannske um næstu helgi, byrjaðar að skila árangri og þess vegna kæmi myntbreyting mjög heppilega inn í þessar aðgerðir. Það vita allir menn á þessu landi, að þessar aðgerðir eru ekki farnar að skila árangri enn af þeirri einföldu ástæðu að það hefur enginn séð neitt til þeirra enn þá. En í viðtalinu við Alþýðublaðið þriðjudaginn 2. des. sagði hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, með leyfi forseta:

„Ég er í grundvallaratriðum sömu skoðunar og s.l. sumar þegar ég sagði að efnahagsráðstafanir væru forsenda þeirrar gjaldmiðilsbreytingar, sem á að fara fram í jan.“ — að efnahagsráðstafanirnar væru forsenda breytingarinnar, það væri forsenda breytingarinnar að ráðstafanirnar væru farnar að skila árangri. Og síðan hélt hv. þm. áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Verði ekki gripið til efnahagsaðgerða fyrir gildistíma gjaldmiðilsbreytingarinnar, þá finnst mér réttlætanlegt að fresta breytingunni.“

Þetta sagði hv. þm. 2. des. s.l. Réttlætanlegt telur hann að fresta aðgerðum verði ekki gripið til efnahagsráðstafana fyrir gildistíma gjaldmiðilsbreytingarinnar. Að vísu hefur hann þarna hopað um hálft skref síðan um sumarið, því að í júlímánuði sagði hv. þm. að aðgerðirnar, sem hann vænti þá að til mundi verða gripið innan fárra daga, yrðu að vera farnar að skila árangri þegar gjaldmiðilsbreytingin yrði gerð. 2. des. sagði hv. þm. að það væri forsenda fyrir gjaldmiðilsbreytingunni að til efnahagsaðgerða yrði gripið fyrir gildistíma breytingarinnar. Nú virðist hv. þm. enn hafa hopað og þá ekki um hátft skref.

Herra forseti. Ég vil ekki nota þetta tækifæri til að fara hörðum orðum um hv. þm. Guðmund G. Þórarinsson af þeirri einföldu ástæðu að ég er sannfærður um að það, sem hann sagði í júlímánuði, er það sem hann raunverulega meinar og það sem hv. þm. meinar meinar hann vel og þær skoðanir margar, sem hann hefur á þessum málum, eru mjög líkar skoðunum okkar Alþfl.-manna, enda held ég að hann hafi oft fengið bágt fyrir í sínum flokki af þeim sökum. En þrátt fyrir allt sýnir þetta það sem hefur verið erfiðleikinn í núv. ríkisstjórnarsamstarfi og á kannske eftir að reynast banabiti Framsfl.

Allt frá árinu 1978, þegar framsóknarmenn stórtöpuðu fylgi til Alþb., eftir að hafa verið í andstöðu við Alþb. um fjögurra ára skeið í stjórnmálum, hefur framsóknarmenn skort pólitískt sjálfstæði gagnvart Alþb. Þeim brá svo við ótíðindin 1978, þegar þeir stórtöpuðu, að allt frá þeim kosningum hefur Framsfl. aldrei vogað sér að efna til ágreinings við Alþb. af ótta við að atburðirnir 1978 kunni að endurtaka sig. Þess vegna hikaði Framsfl. ávallt í samstarfinu við Alþfl. og Alþb. í ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar þegar á átti að herða og átti að fá Alþb. til að samþykkja viturlegar ráðstafanir, og þess vegna hefur Framsfl. ávallt hikað og hopað undanfarna 10 mánuði í hvert einasta skipti sem lítið hefur út fyrir að hann þyrfti að standa fastur fyrir gagnvart Alþb. í núv. ríkisstj. Hefur þar engu breytt jafnvel þótt á s.l. 10 mánuðum hafi það verið stefna Framsfl., sem hann lagði fram fyrir kjósendur í kosningunum 1979 og fékk fylgi við sem átökin hafa staðið um. Framsfl. fékk slíkan skell í kosningunum 1978 að hann þorir ekki einu sinni að standa á eigin stefnu, eigin tillögum gagnvart Alþb. Niðurstaðan er sú, að flokkurinn, sem lagði fram í kosningunum 1979 á margan hátt skynsamlegar tillögur um ráðstafanir í efnahagsmálum, um að reyna að feta sig út

úr verðbólguvitleysunni í áföngum, stendur nú frammi fyrir því, að verðbólga í landinu er um 55% og fer ört vaxandi. Framsfl. stendur frammi fyrir því núna, vegna þess að hann hefur ekki, herra forseti, þorað, ekki haft kjark til að standa á sínu, að verðbólgan eftir 10 mánaða tilraunir hans til að halda sínu gagnvart Alþb. hefur farið vaxandi frá viku til viku og frá mánuði til mánaðar. Framsfl. stendur nú frammi fyrir því að þurfa að horfast í augu við árið 1981 og spá um 70% verðbólgu á því ári. Framsfl. stendur frammi fyrir því, að á þessu 10 mánaða tímabili hefur svo til tekist um viðnám hans gegn verðbólgunni að jafnvel þótt niðurtalning Framsfl. væri samþykkt að öllu leyti frá og með 1. jan. 1981 og frá og með þeim degi gengju í gildi þau úrræði sem Framsfl. ætlaði sér að beita frá og með 1. febr. 1980, þá mundu þau úrræði ekki skila neinum árangri á árinu 1981 öðru en því, að í októbermánuði á því ári mundum við standa hvað verðbólguþróun varðar í sömu sporum og við stóðum í s.l. októbermánuði með 50–55% verðbólgu. Svo ört hefur verðbólguhraðinn vaxið á þessum 10 mánuðum, að niðurtalningaraðferðir Framsfl., sem voru skynsamlegar miðaðar við 45–46% verðbólgustig, mundu ekki, þó að Framsfl. fengi þær allar samþykktar, sem aldrei kemur til greina vegna afstöðu Alþb., skila okkur lengra á leið en svo, að þessi úrræði mundu rétt geta megnað að hamla gegn þeirri verðbólguhröðun sem við blasir á árinu 1981. Í októbermánuði á því ári stæðum við því í sömu verðbólgusporunum og við stóðum í októbermánuði árið 1980.

Þarna hefur Framsfl. glatað sjálfstæði sínu gagnvart Alþb., hinu pólitíska sjálfstæði, og hefur það staðið óhaggað frá kosningunum 1978 og leitt til þess, að Framsfl. hefur ávallt brostið kjark, þegar á átti að herða, til að standa fastur fyrir á aðgerðum sem flokkurinn taldi skynsamlegar og voru skynsamlegar. Þetta kjarkleysi flokksins hefur leitt til þess, að verðbólgan á Íslandi er ekki lengur 40–50%, eins og hún var 1978 þegar við reyndum sameiginlega að hafa hemil á verðbólguþróuninni í landinu, heldur er verðbólgan orðin eða stefnir í um eða yfir 70%.

Þau úrræði, sem hægt er að beita í 40–50% verðbólgu, eiga ekki lengur við þegar verðbólgan er komin á áttunda tuginn. Þá er það vissulega áhyggjuefni og spurning hvort bókstaflega sé hægt með sæmilega skynsamlegum aðgerðum, sem ekki reyna um of á þolgæði fólks eða binda því of þunga bagga, að takast á við verðbólgu af því lagi sem fengið hefur að rísa upp í landinu á undanförnum tveimur árum af tveimur ástæðum:

Í fyrsta lagi er Alþb. utan við alla efnahagslega hugsun og fæst aldrei til að leggja sitt lóð á nokkra vogarskál þar sem reynt er að koma skynsamlegum efnahagsaðgerðum fram. Reynsla s.l. 10 ára færir okkur heim sanninn um að það er ekki hægt að stjórna þessu landi meðan áhrif Alþb. eru þau sem þau hafa verið þessi 10 ár, án tillits til þess hvort Alþb. er innan eða utan ríkisstj. Þetta er önnur ástæðan fyrir því að verðbólgan hefur vaxið úr 40–50% upp í yfir 70%.

Hin ástæðan og þungbærari ástæðan er sú, að Framsfl. hefur ekki skort vit til þess að aðhyllast skynsamleg úrræði. Hann hefur ekki skort hugmyndir um skynsamleg efnahagsúrræði, en hann hefur skort kjark, jafnvel kjark til að þora að standa á eigin stefnu og eigin úrræðum. Það er hörmulegt til þess að vita, að það skuli liggja fyrir jafnvel gerðum og greindum mönnum og hv. 12. þm. Reykv., Guðmundi G. Þórarinssyni, og hv. 3. þm. Austurl., Halldóri Ásgrímssyni, að þurfa að vera í þeirri aðstöðu í íslenskri pólitík að hafa bæði skynsamleg úrræði og viturleg, en þurfa vegna kjarkleysis í eigin flokki stöðugt að leika hlutverk þess sem hopar á hæli undan kommúnistum og fylgifiski þeirra, óðaverðbólgu.