18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

131. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það liggur nánast við að mig langi að taka upp hanskann fyrir þá tvo hv. þm. Framsfl. sem hér hafa verið spurðir nokkurra spurninga af eðlilegum ástæðum. Ég er þeirrar skoðunar, að þessir tveir hv. þm. ásamt fleiri ábyrgum þm. í Framsfl. séu í nákvæmlega sömu sporum og nákvæmlega sömu stöðu og Alþfl. var skömmu áður en hann klauf sig út úr ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar. Það mun vera mála sannast, að hinir yngri menn í Framsfl., sem fylgjast með efnahagsmálum, sem hafa vit á efnahagsmálum og gera sér nokkuð raunsanna mynd af ástandinu eins og það blasir nú við okkur, hafi knúið fram kröfur í ríkisstj. um efnahagsaðgerðir, ekki bara einu sinni og ekki bara tvisvar, heldur kannske þrisvar, og nú reyni á það í þriðja sinn.

Það hvarflar að mér einnig, að rétt kunni að vera sú saga, að síðustu tillögur í þessum efnum hafi verið í grófum dráttum í þá veru að frysta bæði kaupgjald og verðlag, en þá hafi fulltrúar Alþb. komið með tillögur á móti og viljað stofna undanþáguráð sem fjallaði um þá þætti málanna sem ætti að veita undanþágur til. Það yrði þá líklega kaupgjaldsþátturinn sem undanþágurnar yrðu veittar til. Ég segi þetta einfaldlega vegna þess að ég er sannfærður um að ef kjarkur Framsfl. eykst eitthvað — það þarf ekki að vera umtalsvert — klýfur hann sig út úr núv. hæstv. ríkisstj. innan skamms tíma. Það er nefnilega hárrétt, sem hv. ræðumaður, sem á undan mér talaði, sagði, að ekki er hægt að stjórna efnahagsmálum með Alþb. Stjórnmálasaga á Íslandi hefur sýnt það og sannað svo rækilega að það er ekki nokkur leið að vefengja þessa staðreynd.

Ég held að þessir ágætu hv. þm. Framsóknar ættu nú að stíga á stokk og strengja þess heit að gera eitthvað til að hrinda í framkvæmd öllu því sem þeir hafa verið að tala um að gera þyrfti á efnahagsmálasviðinu. Sannleikurinn er sá, og það vita allir, að það er alveg hægt að fresta myntbreytingunni um áramót. Seðlabankastjóri hefur lýst því yfir að hægt sé af tæknilegum ástæðum að gera það. Það er ekkert því til fyrirstöðu. Þessir hv. þm. Framsfl. vita það báðir, að aurarnir í nýju myntinni verða að engu orðnir um áramótin 1981–1982. Þeir verða einskis virði. Það gæti farið svo að þeir yrðu notaðir, eins og fimmeyringarnir í „den tid“, sem skífur þegar þök eru sett á hús. Það er þess vegna algerlega út í hött að breyta gjaldmiðlinum um þessi áramót vitandi að hann verður mjög fljótlega jafnrýr og jafnvesæll og sú króna sem við búum við.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að þeir hv. þm., sem hafa verið að svara nánast til saka fyrir Framsfl. og kjarkleysi hans í núv. ríkisstj., hafi á endanum og þegar á reynir þann kjark sem þarf til að standa á skoðunum sínum, og þess vegna tel ég nánast ástæðulaust að vera að kreista út úr þeim svör. Það vita allir hvað þeir hugsa. Þessir tveir hv. þm. vita að ríkisstj. er á rangri braut, hún fer villur vegar og hún er að öllum líkindum ófær um að grípa til nokkurra efnahagsráðstafana af nokkru viti. Ég ætla að vona og treysta því, að þessir tveir hv. þm., sem við höfum nú beint orðum okkar til hér sérstaklega, segi okkur í örfáum orðum frá því, hve langan frest þeir ætla að gefa ríkisstj. til að marka einhverja stefnu í efnahagsmálunum, eða getur verið að þeir séu sannfærðir um að Alþb. muni enn einu sinni á næstu dögum og vikum koma í veg fyrir að það verði hægt að gera nokkurn skapaðan hlut á efnahagsmálasviðinu, og getur það verið að foringjar Alþb. séu þegar farnir að velta því fyrir sér, að þessi ríkisstj. lifi ekki lengur en til vors?