28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

344. mál, lækkun gjalda á bifreiðum fyrir öryrkja

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð — og ber nú vel í veiði að þessi þarfa fsp. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur er borin fram í sömu andránni og hæstv. félmrh. hefur svarað fsp. varðandi fyrirhugaðar breytingar á tryggingalöggjöfinni.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ákaflega brýnt að auðvelda öryrkjum og með nokkurri hliðsjón af fötlun að komast yfir farartæki. Þá er náttúrlega mest um vert að gerfatlaða fólkinu, sem alls ekki kemst leiðar sinnar öðru vísi en í sérstaklega útbúnum og góðum bílum, verði auðveldað að komast yfir slík farartæki. Þar næst á eftir er nauðsynlegt að öðru fötluðu fólki, sem slíkra farartækja þarfnast, sé gert kleift að endurnýja þá bíla á meðan enn þá er nokkurt endursöluverð á þeim bíl sem hlutaðeigandi á.

Það er efalaust að fimm ára biðtíminn er allt of langur. Þetta er orðin endurnýjun á allt að því óviðráðanlegu vandamáli að komast yfir notaðan bíl að nýju. Þetta fólk þarf að vera í góðum bílum. Þetta er fólk sem getur ekki gert við bílana sína sjálft. Margt af því er þess háttar að það getur ekki einu sinni skipt um dekk undir bílnum af eigin rammleik, hvað þá gert við bílinn eða haldið honum við að nokkru leyti eða bjargað sér ef bíll bilar fjarri mannabyggðum við slæmar aðstæður að nóttu til.

Ég hygg að það væri ákaflega mikill styrkur fyrir þetta fólk ef eftirgjafartíminn yrði styttur ofan í fjögur ár eða ákveðinn ekinn kílómetrafjölda, við skulum segja 80–100 þús. km. ekna á bíl, þó að hann hafi verið skemmri tíma en fjögur ár í eigu hlutaðeigandi.

Komum við þá að því sem lýtur að tryggingalöggjöfinni í sambandi við þörf þessa fólks fyrir bíla.

Það er orðið ofviða fólki, sem lifir á örorkulífeyri plús tekjutryggingu, að reka bíl, rekstrarkostnaðurinn er orðinn svo mikill með hækkuðum bensínkostnaði. Ráðstöfunin, sem gerð var á síðasta þingi, getur aðeins talist — ja, við skulum segja: hógvær viðleitni til að viðurkenna vandamálið. En sú ráðstöfun nægir hvergi nærri. Við verðum að sjá til þess, að a.m.k. gjörfatlað fólkinu, sem hvergi kemst leiðar sinnar nema í vélknúnu farartæki, verði séð fyrir hjálp til að reka þessa bíla. En það er ég alveg viss um af orðum þeirra góðu manna, sem hér hafa tekið til máls um fsp. frú Jóhönnu, að ekki mun standa á þeim í vetur að gera einhverja þá lagabreytingu til hjálpar þessu fólki sem stoð megi verða í. Og þá skulum við ekki gleyma því, að það er fleira fatlað fólk en það, sem hefur þó efni á því að eiga bíl með eftirgjöf, sem þarf að komast leiðar sinnar húsa á milti. Það fólk, sem e.t.v. er verst á vegi statt fjárhagslega, verður að kaupa leigubíla eða kosta öðru til. En þetta lýtur að væntanlegum breytingum á tryggingalöggjöfinni síðar í vetur.