18.12.1980
Neðri deild: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. minni hl. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Við tveir nm. í iðnn. þessarar hv. deildar höfum látið frá okkur fara sérálit í þessu máli. Í því áliti viljum við undirstrika þá skoðun okkar, að við séum andvígir verðjöfnunargjaldi af raforku eins og það hefur verið lagt á. Þetta mál hefur alloft verið rætt hér á hv. Alþingi, það er reyndar árlegur viðburður að það sé til umr. hér í lok árs, og þá skiptast menn í hópa með og á móti þessu gjaldi. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma þessarar hv. deildar í að rökstyðja skoðun mína.

Við teljum að skattheimta af raforku sé nú komin langt úr hófi fram. Það er greiddur 23.5% söluskattur af raforku og 19% verðjöfnunargjald, en slík skattlagning á raforkusölu þekkist hvergi annars staðar, a.m.k. ekki í þeim löndum sem ég hef aflað mér upplýsinga um. Það gefur auga leið að slíkt gjald kemur mjög illa við atvinnuvegi þjóðarinnar. Íslenskur iðnaður notar mikla raforku, mismunandi mikið, en hjá mörgum iðnfyrirtækjum, m.a. fyrirtækjum sem flytja vörur til útlanda, er raforkukostnaður mjög stór hluti af heildarútgjöldum fyrirtækjanna. Svo gífurleg skattlagning á raforku sem raun ber vitni um hlýtur að veikja samkeppnisaðstöðu þessara fyrirtækja gagnvart iðnaði annarra landa í útflutningi og reyndar líka þegar um er að ræða samkeppni á innanlandsmarkaði við innlendar iðnaðarvörur. Ég vil benda á að Samband ísl. rafveitna, en innan þess eru allar rafveitur landsins, bæði þær, sem dreifa orku, og líka þær, sem framleiða orku, hefur æ ofan í æ mótmælt þessu gjaldi og ekki fallist á þau rök sem fyrir því hafa verið flutt.

Þetta gjald hefur verið framlengt frá ári til árs og hefur farið hækkandi á undanförnum árum í þeirri skattöldu sem reið yfir með vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar sem tók við völdum síðla árs 1978. Þá var það einn liðurinn í þeirri miklu skattöldu að hækka þetta gjald úr 13% í 19%. Við fögnum því, að í þessu lagafrv., eins og það liggur fyrir, er ráðh. heimilað að lækka gjaldið með reglugerð úr 19% í 16% frá 1. júlí 1981. Við teljum það spor í rétta átt að lækka þetta gjald og það hverfi með öllu, og við leggjum áherslu á að sú heimild verði notuð. Í hvert skipti sem gjald þetta hefur verið framlengt hafa því fylgt yfirlýsingar um að nú eigi að taka fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins til gagngerðrar endurskoðunar og reyna að leysa úr þeim vanda á annan hátt en með svona skattlagningu. Við það hefur ekki verið staðið ár eftir ár. Að vísu hefur fjárhagur Rafmagnsveitna ríkisins batnað allmikið nú og reyndar Orkubús Vestfjarða einnig, en ástæðan fyrir því er sú, að nú geta þessi fyrirtæki sparað sér olíukeyrslu vegna þess að byggðalínur flytja rafmagn til þeirra. Er það að sjálfsögðu mun ódýrara en að keyra með dísilstöðvum í eins ríkum mæli og gert hefur verið. Þetta er þó ekki nema hluti af vandanum. Hinn hlutinn er miklar skuldir sem hvíla á þessum fyrirtækjum, t.d. Rafmagnsveitum ríkisins, þar sem framkvæmdir hafa verið fjármagnaðar í allt of ríkum mæli með erlendum lánum sem fyrirtækið sjálft hefur verið látið standa undir, en ekki gerð gangskör að því, eins og oft hefur verið haldið fram að gera þyrfti, að greiða úr lánum Rafmagnsveitna ríkisins og sá hluti þeirra, sem telst til félagslegra framkvæmda, þ.e. lagning raforkunnar um hinar dreifðu byggðir landsins, verði fjármagnaðar beint úr ríkissjóði, en ekki af fyrirtækinu, sem er að sjálfsögðu vonlaust að það geti staðið undir.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Við vildum með þessu séráliti undirstrika andstöðu okkar við gjaldið. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því, að vegna þess að ekki hefur verið unnið eins að því og skyldi og nauðsynlegt hefði verið að leysa fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins, þrátt fyrir margar yfirlýsingar þar um, yrði fjárhag RARIK eða Orkubús Vestfjarða stofnað í óvissu, enda aðeins nokkrir dagar þar til heimild til álagningar þessa gjalds rennur út. Við munum því ekki greiða atkv. gegn frv., en sitjum hjá og höfum gert grein fyrir okkar afstöðu í þessari greinargerð.