18.12.1980
Neðri deild: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

176. mál, vörugjald

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hefur haft frv. til athugunar og hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Eins og fram kemur á nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 334 mælir meiri hl., en hann skipa auk mín hv. 1. þm Vestf., 3. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Reykv., með því að frv. verði fellt.

Þetta frv. er enn einn liðurinn í álagningar- og skattaherferð núv. ríkisstj. í framhaldi af slíkum aðferðum í tíð hæstv. ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Það sætir þó mestri furðu í sambandi við þetta frv. að á s.l. sumri voru gerðar sérstakar ráðstafanir til að bæta stöðu sælgætisiðnaðarins í landinu og var það gert með brbl. Það var ekki talið rétt að bíða samkomudags Alþingis, heldur talið nauðsynlegt að gera slíkt með brbl í sumar. Þetta frv. er hins vegar flutt til að leggja álögur á þessa sömu iðngrein, auk þess sem öl- og gosdrykkjaiðnaður er hafður með. Álögur á þessar iðngreinar valda því, að þær verða mun verr staddar eftir þessar aðgerðir þrátt fyrir það sem gert var s.l. sumar.

Það hafði verið gert ráð fyrir að fella niður aðlögunargjald sem er í gildi til næstu áramóta. Nú hefur hins vegar frv. um jöfnunargjald, sem gert var ráð fyrir að framlengja, verið breytt og ríkisstj. veitt heimild til að hækka það gjald um 2%, enda renni tekjurnar af því óskiptar til iðnþróunar. Þannig er fallin forsendan sem höfð er uppi varðandi þetta frv. Sé hugsunin að fá frv. samþykkt er því einvörðungu verið að afla ríkissjóði tekna. Það er gert ráð fyrir að sú tekjuöflun muni nema árið 1981 2.4 milljörðum, sem sennilega verður að meta of háa miðað við að slík gjöld koma til með að draga verulega úr sölu á þessum varningi.

En það, sem er þó athyglisverðara í sambandi við þetta frv., er að það mun valda vísitöluhækkun sem nemur 0.26%. Samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar leiðir sú hækkun til aukinna launagreiðslna í landinu sem nemur 3 milljörðum kr. sem síðan vefja upp á sig í samræmi við þá verðbólgustefnu sem hefur verið og er og sýnist ætla að verða hjá núv. hæstv. ríkisstj.

Það liggur ljóst fyrir, að þó að þessu frv. væri ætlað í upphafi að bæta ríkissjóði tekjutapið, sem hann verður fyrir með tilliti til uppstillingar fjárlagafrv., hefur frv., sem nú er komið frá hv. Ed., þegar aflað ríkisstj. heimildar til að bæta sér að verulegu leyti þann tekjumissi sem þá hafði verið gert ráð fyrir.

Það liggur ljóst fyrir, að verði þetta frv. að lögum þýðir það mikinn samdrátt í sælgætisiðnaðinum og talið af þeim, sem gerst þekkja, að það stefni atvinnuöryggi 600 manna í óvissu. Þessir aðilar hafa látið til sín heyra og komið með mótmæli til fjh.- og viðskn. beggja deilda og gert formönnum nefndanna grein fyrir hverjar afleiðingar samþykkt þessa frv. geta orðið. Á það sýnist ekki vera hlustað af hálfu stjórnarflokkanna og þeir, sem ráða ferðinni í sambandi við skattpíningu þá sem ég vék að hér áðan, stýra og sýnast munu stýra þessu frv. áfram ef fer sem horfir.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um frv. umfram það sem ég hef nú sagt. Meiri hl. n. er andvígur þessu frv. og telur eins og fram kemur í nál., að hér sé á ferðinni táknrænt dæmi sem staðfesti það stjórnleysi og þá upplausn, sem ríkir í þessu landi, og hér sé ekki hugsað um atvinnuvegi þjóðarinnar, heldur allt gert til að setja fótinn fyrir þá eins og þar hefur verið bent á.