28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

344. mál, lækkun gjalda á bifreiðum fyrir öryrkja

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans og undirtektir þeirra þm., sem hér hafa tekið til máls, við það að þetta mál þurfi skjótrar úrlausnar við.

Það kom fram í svari hæstv. fjmrh., að endurskoðun sé í gangi nú, en henni ekki lokið og frv. verði lagt fyrir Alþ. fljótlega í þessu máli. Í svari hæstv. ráðh. kom þó ekki fram fullkomið svar við fsp. minni er varðar b-liðinn, í hverju þær úrbætur væru fólgnar, enda gefur það auga leið þar sem þessari endurskoðun er ekki lokið. Fjmrh. kom þó inn á nokkur atriði í þessu máli sem munu koma til móts við þær skoðanir sem uppi voru á síðasta þingi í þessu máli, ef að lögum verður. Aðalatriðið er þó að breytingar verði gerðar til úrbóta í þessu máli og tillögur verði lagðar fljótlega fyrir þingið þannig að tími gefist til að afgreiða málið í góðan tíma áður en næsta úthlutun fer fram, sem verður í byrjun febrúar, þannig að úthlutun þurfi ekki að tefjast af þeim sökum að endurskoðunin gangi seint. Það hefur komið fyrir hér, þegar frv. í þessa veru hafa verið lögð fram, að það hefur tekið langan tíma eða a.m.k. nokkurn tíma að afgreiða þau á þingi. Ég vil því leggja þunga áherslu á að þessari endurskoðun verði hraðað og við fáum þetta frv. fljótlega í þingið þannig að úthlutun 1. febrúar tefjist ekki af þeim sökum.