18.12.1980
Neðri deild: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

176. mál, vörugjald

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hinn 14. febr. s.l. skrifaði hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, grein í Dagblaðið þar sem hann talar um þjóðsöguna og nútímann m.a., og kemst þar svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Á öllum Norðurlöndum þekkja menn þjóðsöguna um bóndann sem vildi reisa sér kirkju, en kom því verki ekki fram, ýmist vegna féleysis eða smíðin var komin í eindaga. Kom þá til sögunnar smiður, sem í raun var tröll eða óvættur, og bauðst til að ljúka smíðinni. Að launum varð bóndi að lofa augum sínum, einkasyni eða sálu sinni. Leið var þó alltaf til þess að komast hjá því að greiða launin, en hún var að geta upp á nafni kirkjusmiðsins.

Sjálfsagt þykir mörgum sem hér sé um gamla þjóðsögu að ræða sem lítið eða ekkert gildi hafi í nútímalífi. Sannleikurinn er þó sá, að þjóðsagan um kirkjusmiðinn er alltaf sí og æ að gerast. Til þess að koma fram löngunarverkum sínum ráða menn sér kirkjusmiði og gjalda gjarnan með augum sínum fyrir. Kirkjusmíðin getur verið ýmiss konar framkvæmd, staða í þjóðfélaginu, réttarbætur eða hvað annað sem til framfara horfir. Margir ganga í stjórnmálaflokka til þess að koma slíkum málum fram, byggja sína kirkju. Sumir gera það með því hugarfari að nú hafi þeir ráðið sér sinn kirkjusmið, hann muni ljúka verkinu, og að launum láta þeir augu sín.

Þegar menn láta augu sín sjá þeir ekkert lengur. Það verður að leiða þá og þeir sjá aðeins með flokksaugunum. Þetta getur gengið svo langt hjá sumum að blindan verður alger og flokkshagsmunir eru teknir fram yfir þjóðarhagsmuni. Gunnari Thoroddsen tókst í stjórnarkreppunni að finna nafn kirkjusmiðsins og hélt því sjálfur augum sínum og sjón óskertri.“ — Innskot mitt er að ekki er minnst á sálina, og held ég svo áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Því tók hann þjóðarhag fram yfir kirkjusmiðinn flokkshag.

Hugrenningar um tengsl þessarar gömlu þjóðsögu við atburðarás nútímans eru auðvitað veruleg einföldun. Eigi að síður er samtengingin umhugsunarinnar virði. Hitt verða menn að sjálfsögðu að hafa skýrt fyrir hugskotssjónum sínum að stjórnmálaflokkarnir eru hornsteinar lýðræðisins. Án þeirra væri ekkert lýðræði. Stjórnmálaflokkarnir eru baráttutæki til þess að koma fram hugsjónum, til þess að berjast fyrir bættu þjóðskipulagi og hvers kyns framförum. Samstaða er því nauðsynleg til þess að gagn sé að tækinu. Ævinlega verða menn þó að gæta þess að setja ekki augu sín eða sál að veði. Þá getur farið svo, að blindur leiði blindan og hending ráði hvar för endar. Hér gildir, eins og raunar alltaf í lífinu, að þekkja nafn kirkjusmiðsins, ella getur illa farið. Líklega væri mönnum hollt að lesa þjóðsögurnar meira.“

Svo mörg voru þau orð. Ég held að engum blandist hugur um það, eftir þær ræður sem þessi hv. þm. hefur haldið hér í kvöld, að hann þekkir ekki kirkjusmiðinn og — svo maður tali um aðra þjóðsögu: hann mundi seint geta upp á nafninu Gilitrutt þótt ýmsir aðrir hafi verið í holti heyrandi nær.

Ég held að það sé einmitt þetta sem hér er að gerast, sem þessi hv. þm. var að vara við, að ýmsir stuðningsmenn þessarar ríkisstj. styðja hana nú til hvers óhæfuverksins á fætur öðru og vita þó að það leiðir til ófarnaðar sem er að gerast. Svo var t.d. að heyra á þessum þm. um það mál sem hér er til umr. og umfjöllunar, og við urðum vitni að því áðan, að í nafnakalli lét hann sig hafa það að sitja hjá til þess að frv. næði fram að ganga. Hjáseta hans hér áðan jafngilti því að segja já. En hann vildi hins vegar reyna að sætta samvisku sína, svo að hann svæfi betur í nótt, með því að segja ekki jáið sjálfur, láta flokksbræður sína gera það, en geta svo huggað sig við það á eftir, að ef einhver annar hefði gert það sama og hann hefði málið dáið. En sá, sem hefði getað gert það sama og hann, er víðs fjarri, og sá þm., sem hér er í staðinn fyrir hann, greip fram í fyrir hv. 1. þm. Vestf. áðan og sagði: Nú er nóg komið. — Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson brá sér vestur á Snæfellsnes í fyrra og menn vissu að það var vegna þess að hann var andvígur því sem á þinginu var að gerast þá. Við vitum líka að sá hv. þm., formaður Verkamannasambands Íslands, mundi aldrei láta hafa sig til að greiða atkv. með gjaldi á innlendar iðnaðarvörur sem mótmætt hefur verið með 400 undirskriftum og afhent formanni fjh.- og viðskn.

Það er athyglisvert í þessu sambandi, að þeir stjórnarsinnar, sem mest hafa talað um að þeir væru verkalýðssinnar, þeir stjórnarsinnar, sem m.a. hafa í sínum hóp formann Félags iðnverkafólks og í sínum hóp Jón Ingimarsson, þann gamalreynda verkalýðsforingja á Akureyri, sem ber einnig kvíðboga út af þeirri þróun sem hér hefur verið í sælgætis- og gosdrykkjaiðnaðinum, leggja með alefli að flokksbræðrum sínum í ríkisstj. og vilja hrinda þessum lögum. En þeir eiga erfitt um vik vegna þess að það er kominn köttur í ból bjarnar, vegna þess að sá stóri og sterki maður Guðmundur J. Guðmundsson hefur hopað fyrir varamanni sínum sem virðist ekki hafa miklar skoðanir eða trú á því, að honum beri nein skylda til að fylgja fram þeim óskum sem verkafólk hér í Reykjavík hefur komið á framfæri með mjög eftirminnilegum hætti.

Fyrr á þessu þingi var til umr. frv. til l. um sérstakt tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex, til staðfestingar á brbl. sama efnis sem út voru gefin hinn 5. sept. 1980 og undirskrifuð af Ragnari Arnalds, sem eitt sinn var formaður Alþb. Þessi brbl. hefjast svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Fjmrh. hefur tjáð mér, að vegna verulega aukins innflutnings á sælgæti og kexi hafi þegar orðið mikill samdráttur í innlendri framleiðslu þessara vara sem fyrirsjáanlega geti leitt til stöðvunar atvinnurekstrar í þessum iðngreinum. Beri því brýna nauðsyn til að setja lög um sérstakt tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex.“

Þetta var sú brýna nauðsyn sem þarna er talað um. Og eins og ég sagði máttu ráðh. ekki vera að því að bíða Alþingis. Þetta var gefið út hinn 5. sept. og í ríkisstj. voru á þeim tíma ekki uppi neinar hugmyndir um að þessum iðnaði mætti bjarga með öðrum hætti. Þegar hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir þessu máli hér á Alþingi sagði hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hinn aukni innflutningur á sælgæti olli því, að sala innlendra sælgætisframleiðenda.“ — hann hefur nú sennilega mismælt sig — „dróst stórlega saman.“ Ég les þetta aftur, með leyfi hæstv. forseta: „Hinn aukni innflutningur á sælgæti olli því, að sala innlendra sælgætisframleiðenda dróst stórlega saman. Talið er að samdráttur þessi hafi verið á bilinu 30–50% í marsmánuði s.l. miðað við sama tíma í fyrra. Samdráttur í sölu innlendrar sælgætisframleiðslu og samdráttur hjá innlendum kexframleiðendum hafði fljótlega í för með sér uppsagnir fjölda starfsmanna í þessum iðngreinum, einkum sælgætisiðnaði. Uppsagnir í þeim seinast nefnda voru um tíma taldar nema 74 starfsmönnum. Ljóst var samkv. framansögðu að algert afskiptaleysi af þessari þróun hefði sennilega leitt til enn frekari samdráttar í innlendri framleiðslu, stöðvunar atvinnurekstrar og atvinnuleysis starfsmanna, sem óhjákvæmilega hefði hlotið að fylgja í kjölfarið.“

Þetta voru orð hæstv. fjmrh. á þessum tíma. Þegar hæstv. iðnrh. mætti til þings og þetta mál var til umr. sagði hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það gerðist um síðustu áramót, að innflutningur á sælgæti og skyldum vörum var gefinn frjáls eftir að hafa verið heftur um langt skeið. Að vísu mun þetta formlega ekki hafa átt að taka gildi fyrr en 1. apríl, en ég tel mig hafa vissu fyrir því, að í reynd hafi það gerst strax um áramótin eða upp úr áramótum, að þessum varningi var hleypt inn tollfrjálsum. Það sýndi sig í kjölfarið að sala á innlendri framleiðslu dróst stórum saman og var það út af fyrir sig ekki undrunarefni. Umboðsmenn hinnar erlendu framleiðslu höfðu búið sig vel undir þessi tímamót og voru duglegir við að dreifa varningi sínum og verulegt nýjabrum að honum fyrir ýmsa. Salan á honum var allmikil og alveg sérstaklega safnaðist mikið upp í verslunum af þessu að auki. Þessi framleiðsla hefur því eflaust orðið fyrirferðarmeiri í hillum verslana en hin innlenda framleiðsla sem þarna mætti stóraukinni samkeppni.“

Hæstv. iðnrh. skipaði nefnd í þetta mál, svokallaðan starfshóp. Mér er nú ekki kunnugt um hver niðurstaða hans var. Ég hef raunar fyrir alllöngu lagt fram skriflega fsp. til hæstv. iðnrh. þar sem ég hef farið fram á að fá upplýsingar um sitthvað smálegt. Í einkaviðtali hefur hæstv. iðnrh. sagt mér að ég muni fá svar við þessum fsp. fyrir jól, og vænti ég þess, að við það verði staðið. Er það ekki rétt? Hæstv. iðnrh. vill ekki svara. Ég óska eftir því, að hann komi hér á eftir. (Iðnrh.: Var þetta spurning hjá hv. þm.?) Ja, það er venjulega svo, að ef maður spyr er það spurning. (Gripið fram í. — Forseti: Ekki samtal á fundinum.) Ég skil hæstv. iðnrh. svo, tel að það sé rétt skilið hjá mér, að ég muni fá svar við fsp. minni fyrir jól.

Enn fremur segir hæstv. iðnrh. hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar hér, en ég vænti þess, að það frv., sem hér er til umr., nái fram að ganga og menn átti sig á þeim forsendum, sem þar liggja að baki, og menn sýni hug til þess að nýta þær heimildir sem við höfum samkv. samningum um fríverslun til að gera iðngreinum okkar fært að bregðast við nýjum og skyndilegum aðstæðum eins og um var að ræða þegar sælgætisiðnaðurinn átti í hlut. Hins vegar fer að því að koma að við verðum komnir út úr þessum farvegi.“

Þarna kemur skýrt fram að báðir þessir hæstv. ráðherrar gera sér grein fyrir því, að sælgætisiðnaðurinn er í mikilli kreppu og gosdrykkjaiðnaðurinn. Ef maður les þessar ræður þeirra fyrr í vetur vandlega yfir getur maður í rauninni ekki skilið hvers vegna þeir bregðast svo við beiðni iðnverkafólksins sem raun ber vitni. Það er óleyst gáta. — Og svo enn þetta, sem áður er fram komið og hér hefur verið lögð áhersla á: Það er erfitt að sjá hvernig það samrýmist markmiði hæstv. fjmrh. um 42% verðbólgu á næsta ári, hún verði ekki meiri en það, ef svo heldur fram sem horfir, að ekki liði svo vika og varla mánuður að ekki séu lögð fram ný frumvörp um margvíslegar hækkanir á sitt hvað vegna þess að ríkissjóðshítin er óseðjandi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en eins og hv. 12. þm. Reykv. sagði áðan er til lítils að leggja staðreyndirnar á borðið ef menn eru blindir af því að vera með svört flokksgleraugun fyrir framan sig og þó menn rámi eitthvað í skilninginn fáist þeir ekki til að greiða atkv. í samræmi við sína samvisku.