28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

348. mál, dvalarkostnaður aldraðra

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til eða mig tilknúinn á þessari stundu að hefja almennar umr. um þessi mál, þótt vissulega væri sumt af því, sem hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni þess virði að eytt væri tíma til að ræða þau ítarlega hér á Alþingi. En ég vil leyfa mér að þakka honum fyrir þessar upplýsingar, sem hann gaf þinginu. Þær verða að sjálfsögðu skoðaðar af þeim aðilum, sem áhuga hafa á, og reyndar öðrum líka.

Ég vil taka undir það með honum, að að sjálfsögðu verður ekki lausn fundin á þessum málum með því að henda gamla kerfinu og taka upp hið nýja. Ég er fyllilega sammála honum í því. En hins vegar held ég að við eigum að flýta okkur hægt í þeim efnum. Það hefur lengi verið mín skoðun, og reyndar hef ég bent opinberum aðilum á það ár eftir ár, að þeir, sem skipa svokallaða daggjaldanefnd, séu algerlega sveltir við sín þýðingarmiklu störf. Þar hefði vissulega þurft að bæta við til starfa sérfróðum mönnum, þótt ég sé hins vegar lítið fyrir að fara slíka fjölgunarleið almennt. En ég held að ef þeir, sem þar vinna, hefðu getað gefið sjálfum sér meiri tíma til að stunda þessi störf og fengið þá aðstoð sem þeir þurfa, þá hefði það getað sparað skattborgurunum stórar upphæðir með því að fara ýmsar sparnaðarleiðir.

Ég vil ekki taka undir eitt sem hæstv. ráðh. sagði, að stýringarmöguleikar væru of litlir hjá ríkisstj. eða heilbrigðisyfirvöldum með því kerfi sem við búum við með daggjaldanefnd. Mér hefur sýnst það oftar en einu sinni að í gegnum þetta kerfi hafi legið við að sjúkrastofnanir væru sveltar í hel, þær yrðu að loka vegna þess að það væri verið að bíða eftir einhverjum ákveðnum degi á árinu eða í mánuðinum til að láta reikninga ríkissjóðs standa vel. Það er með þessu óbeint verið að svelta þá sem búa á þessum heimilum. Mér finnst því að það þurfi ekki að stefna í neitt kerfi sem eykur stýringarmöguleika í þessu skyni. Hitt er annað mál, eins og ég sagði áðan, að það virðist kannske nokkur þversögn í þessu. Daggjaldanefnd sem slík þarf að hafa meira í höndum en hún hefur til að geta látið fara frá sér skynsamlegar tillögur, en þær eiga þá ekki að vera á eftir í höndum misviturra manna sem í ríkisstj. sitja. Ég tek það fram, að ég á ekki frekar við núv. ríkisstj. en margar aðrar sem á undan hafa setið í þessu landi, en það á ekki að vera í þeirra höndum. Það á að skera niður þar sem þarf, en ekki svelta.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu. En ég tek undir það, sem óbeint kom fram hjá hæstv. ráðh. að við erum allvel búnir á flestum sviðum í okkar sjúkrahúsmálum, en við búum við, eins og bæði núv. heilbrrh. og fyrirrennarar hans hafa viðurkennt og allir sem vinna þekkja, neyðarástand í þeim málum sem varðar gamla fólkið, sem þarf á sérstakri umönnun, eftirliti og hjúkrun að halda. Það er ekki aðalkeppikeflið að leita þar eftir spítalastofnunum. Við erum að leita eftir því að koma upp heimilum fyrir þetta fólk þar sem það getur búið með aðstoð og hjúkrun þegar á þarf að halda þangað til þess dagur er allur.