19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

Kosning tveggja endurskoðenda reikninga Útvegsbanka Íslands

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég átta mig á því að ég hef kannske kvatt mér hljóðs á slæmu augnabliki þar sem kosningu hefur ekki verið lýst, og ég bið afsökunar á því. En ég kem hér í ræðustólinn til að gera hér smáathugasemd á þessu stigi dagskrárinnar.

Við höfum nú kosið í öll bankaráð þjóðbankanna, í Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands, Útvegsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands. Við höfum einnig kosið endurskoðendur í allar þessar ríkisstofnanir nema Seðlabanka Íslands. Ég vil vekja athygli hv. alþm. á þeirri staðreynd, að Alþingi Íslendinga kýs ekki endurskoðendur fyrir Seðlabanka Íslands. Ég tel það óeðlilegt og mun flytja brtt. við þau lög, sem um Seðlabankann gilda, strax eftir áramót og vonast eftir stuðningi í því máli.