19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

178. mál, frestun á fundum Alþingis

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Að öllu venjulegu ætti það ekki að koma þingheimi á óvart að slík þáltill. skuli borin fram, og ef allt væri með eðlilegum hætti væri sjálfsagt auðsótt mál að fá samþykki þm. við slíkri þáltill. Það hafa að vísu stundum undir slíkum kringumstæðum verið uppi aths. eða fsp. um með hvaða hætti ríkisstj. hygðist beita valdi sínu til útgáfu brbl., og hafi verið ástæða til þess áður, þá er því fremur ástæða til þess nú.

En í raun og veru svipar ástandinu og viðhorfinu í ár ákaflega mikið til þess ástands sem var fyrir einu ári, þegar nýlega voru um garð gengnar alþingiskosningar og stjórnarmyndunartilraunir voru í gangi. 1 sannleika sagt má segja að stjórnarmyndunartilraun hafi verið í gangi allar götur frá því kosningar fóru fram í des. á síðasta ári. Að vísu var það svo, að ríkisstjórn var mynduð að nafninu til í byrjun febrúarmánaðar á þessu ári og hét því að vinna gegn verðbólgu og gera ákveðnar efnahagsráðstafanir. Stjórnarandstöðunni þá þótti þunnt roðið í málefnasamningi ríkisstj. að þessu leyti, og á daginn hefur komið að úr því litla,. sem auga mátti á festa varðandi efnahagsráðstafanir, hefur ekkert orðið í framkvæmd. Á ég þar ekki síst við svokallaða niðurtalningu, sem ekki má minnast á frekar en snöru í hengds manns húsi nú orðið. Og allir vitum við þm. um yfirlýsingar ráðherra úr öllum flokkum — þótt aldrei þessu vant hafi ráðherrar Alþb. haft hljóðast um sig um væntanlegar efnahagsaðgerðir. Hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað, frá því að ríkisstj. var mynduð, með ákveðnu millibili sagt að nú væri efnahagsaðgerða að vænta, að þeim væri unnið af miklum dugnaði og krafti, efnahagsmálanefnd hefði verið skipuð, efnahagsmálanefnd hefði skilað áliti, ráðherranefnd hefði verið skipuð og héldi fund með efnahagsmálanefnd. Þetta hefur gengið svo til í rúma 10 mánuði, en þingheimur hefur ekki séð snefil af þessum væntanlegu efnahagsaðgerðum. Lýst hefur verið eftir þeim fyrir Alþýðusambandsþing, lýst hefur verið eftir þeim áður en þinghlé yrði gert vegna jólanna.

Ég held að ég komist ekki hjá því að nefna eitt einstakt dæmi sem lýsir vel hvernig gangur mála hefur einnig verið á öðrum sviðum. Það á ég við vaxtastefnu ríkisstj. og framkvæmd á svokölluðum Ólafslögum eða 33. gr. þeirra, sem fjallar um ákvæði til bráðabirgða og fellur inn í lög um Seðlabanka Íslands. Ríkisstj. og Seðlabankinn gáfu út fréttatilkynningu við ákvörðun vaxta miðað við l. mars, rétt eftir að ríkisstj. hafði tekið við. Þar var kveðið svo á, að vextir yrðu óbreyttir að sinni, vegna þess að umræður ættu sér stað milli Seðlabanka og ríkisstj. um framkvæmd Ólafslaga að þessu leyti, og gefið í skyn að til mála kæmi að framlengja aðlögunartíma þann, sem ákveðinn hafði verið samkv. Ólafslögum, til ársloka 1980 til að fá samræmi milli vaxta og verðtryggingar annars vegar og verðbólgustigs hins vegar.

Síðan á það sér stað miðað við Í. júní, að ríkisstj. fellst á tillögu Seðlabankans um vaxtahækkun milli 2.5 prósentustiga og 4 prósentustiga, í samræmi við 33. gr. Ólafslaga, og fellst þannig á að það sé skylda samkv. þeim lögum að koma þessari samræmingu á. En jafnframt er tekið fram að frekari viðræður eigi sér stað milli Seðlabanka og ríkisstj. um framkvæmd 33. gr.

Innskot verð ég að gera. Með þessari vaxtahækkun braut ríkisstj. að vísu í bága við málefnasamning sinn, það sem segir að vextir verði óbreyttir þar til verðbólga fari að hjaðna. En hún treystist ekki á því stigi til að breyta verðtryggingar- og vaxtaákvæði Ólafslaga.

Síðan líður og bíður fram undir 1. sept. s.l. Þá tilkynnir Seðlabankinn og ríkisstj. að vextir verði óbreyttir vegna þess að viðræður eigi sér enn stað milli ríkisstj. og Seðlabanka um að lengja aðlögunartíma Ólafslaga milli vaxta og verðtryggingar annars vegar og verðbólgustigsins hins vegar.

Næst skeður það, að í stefnuræðu forsrh. er fram tekið að ríkisstj. hyggist framlengja aðlögunartíma Ólafslaga að þessu leyti. 1. des. kemur og ekkert gerist. Ríkisstj. og ráðherrar eru inntir eftir því hvað eftir annað í umræðum hér á þingi, hvað ríkisstj. hyggist fyrir að þessu leyti.

Engin svör fást fyrr en hæstv. fjmrh. lýsir því yfir, að ríkisstj. þurfi ekkert að hugsa um Ólafslög og 33. gr. og þurfi ekkert að framlengja aðlögunartímann vegna þess að það sé búið að fullnægja ákvæðum Ólafslaga að þessu leyti þar sem stofnað hafi verið til verðtryggðra innlánsreikninga, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að ríkisstj. ætlaði sér að framlengja aðlögunartímann — ekki ein var sú yfirlýsing og ekki tvær, þær voru fleiri en tölum verði á komið — en loksins var þetta þjóðráð fundið, sem allir eru sammála um að brýtur algerlega í bága við lögin sjálf og fyrri venjur um framkvæmd þessara laga, þ. á m. skilning ríkisstj., sbr. vaxtaákvörðun hennar fyrir 1. júní s.l.

Nú liggur það fyrir, að um annað tveggja er að ræða fyrir þessi áramót: Að Seðlabankinn verður að fara eftir landsins lögum og færa vexti og verðtryggingu í samræmi við verðbólgustig- sem kunnugir menn segja að þýði um það bil 10 prósentustiga hækkun á vöxtum — eða ríkisstj. verður að gefa út brbl. til þess að koma í veg fyrir það. Ég tek þetta sem dæmi um það, að hér er um brbl.-útgáfu að ræða sem mér finnst algerlega óeðlileg með tilvísun til þess tíma sem ríkisstj. hefur haft til að færa þessi mál í það horf sem stefna hennar segir til um og hún sjálf vill. Skýringin á því, að ekkert hefur verið gert, felst auðvitað í ósamkomulagi, úrræðaleysi ríkisstj. hvað þennan þátt efnahagsmálanna snertir, sem kemur fram í aðgerðaleysi hennar í nær heilt ár í efnahagsráðstöfunum almennt. Þess vegna vil ég lýsa því yfir fyrir hönd þm. Sjálfstfl. að fáist ekki skýr og skilmerkileg svör þess efnis, að ríkisstj. muni ekki beita valdi sínu til útgáfu brbl. meðan á þingfrestun stendur til staðfestingar og framkvæmdar alhliða efnahagsráðstafana, þá munu þm. Sjálfstfl. greiða atkv. á móti þessari þáltill. Hins vegar vil ég láta það koma alveg skýrt fram, að þm. Sjálfstfl. eru reiðubúnir til þess að vera í kallfæri og mæta til fundar Alþingis, hvenær sem til slíkra funda er kvatt, og taka afstöðu til þeirra lagafrv. og löggjafar sem ríkisstj. telur nauðsynlegt að sett verði í baráttunni gegn verðbólgunni varðandi almennar efnahagsráðstafanir.

Ég nefndi í upphafi máls míns að nú svipaði aðstæðum öllum til þess sem var fyrir einu ár. Þá var á það ráð brugðið, að forsetar frestuðu fundum Alþingis innan þeirra marka sem talið er heimilt innan sérstakrar ályktunar Alþingis, þ.e. um það bil um tvær vinnuvikur. Þá leið má fara. Sú leið er eðlilegri meðan þingheimur er í óvissu um aðgerðir sem ríkisstj. lýsir yfir að séu á næsta leyti, en þm. sannast að segja hafa litla trú á að séu í fæðingu þrátt fyrir allt. En miðað við yfirlýsingar ríkisstj. er ástæða til að taka vara við því að senda þingið heim og gefa út lög án atbeina þingsins í krafti þess valds og heimildar sem ríkisstj. hefur til útgáfu brbl. Slíkt á að vera undantekningartilvik, en ekki að nýtast í þeim tilgangi að fara á bak við þingið. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að hér komi fram skýrt og skilmerkilega afstaða þm. Sjálfstfl. til þessarar þáltill.