28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

349. mál, fuglaveiðar útlendinga hér á landi

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að gera langa grein fyrir þessum fsp.

Mér er kunnugt um það persónulega og veit af óyggjandi upplýsingum frá öðrum að undanfarin ár hafa íslenskir aðilar gert sér það að atvinnubótavinnu að hausti til að fara með erlendum ferðamönnum til fuglaveiða á landi hér — mönnum sem hafa komið hingað gagngert til landsins til að stunda fuglaveiðar. Ég tel að það sé ljóst að samkv. íslenskum lögum sé þeim hleypt í þau hlunnindi hér á landi sem ætluð er íslenskum þegnum. Því spyr ég: Hver heimilar erlendum ferðamönnum fuglaveiðar hér á landi?

Í öðru lagi veit ég sönnur á því, að þessi útlendingar, sem hingað koma til að stunda fuglaveiðar að haustinu, hafa m.a. haft með sér haglabyssur með hlaupvíddinni nr. 10 þótt kveðið sé á um það í íslenskum lögum, að ekki megi nota stærri haglabyssur til fuglaveiða á landi hér en kalíber 12. Mér er einnig ljóst að þeir hafa haft með sér sjálfhlæðar byssur, en samkv. nýjum lögum frá Alþingi er innflutningur á slíkum skotvopnum bannaður á landi hér. Þeim, sem áttu slík veiðivopn fyrir, er heimilt samkv. reglugerð að nota út úr þeim og ætlað til þess 10 ára tímabil.

Þá er 2. liður þessarar spurningar: Hver veitir útlendingum heimild til að flytja inn í landið byssur sem bannað er að nota samkv. íslenskum lögum við fuglaveiðar?

Og svo loks í þriðja lagi: Hver er það sem veitir þessum erlendu aðilum byssuleyfi hér á landi? Er framfylgt ákvæðum íslenskra laga um veitingu byssuleyfa? Uppáskrifa umsóknina tveir valinkunnir íslenskir þegnar? Er gengið úr skugga um það með ljósum vottorðum að þessir menn séu ekki á sakaskrá í heimalandi sínu eða til þess líklegir að valda tjóni á lífi manna eða eignum með þessum verkfærum? Ef slíks er ekki gætt við veitingu byssuleyfa til þessara aðila, á ábyrgð hvers er það þá hversu með er farið?

Lengri þarf grg. mín fyrir þessum fsp. ekki að vera, en ég vænti ljósra svara, þó að ég viti að vísu að núv. dómsmrh. hefur ekki um þessi mál vélað.