19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

178. mál, frestun á fundum Alþingis

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. sagði áðan að hann hefði endurtekið ummæli forsrh. um það að gera þyrfti ráðstafanir í efnahagsmálunum vegna gjaldmiðilsbreytingarinnar. Hann sagði enn fremur að hann hefði ekki viljað nefna dagsetningar í því sambandi, hvenær ráðstafanirnar yrðu gerðar. Hæstv. viðskrh. sagði enn fremur að hann hefði sagt að þessi mál yrðu rædd á Alþingi. Hann sagði þetta þrennt þegar hann var að rifja upp hvað hann hefði sagt í umræðunum 4. nóv. s.l. og ég hafði vitnað til. Allt þetta, sem hæstv. viðskrh. segir núna, er satt og rétt. En það er bara ekki það sem ég var að tala um. Það er þögn um það. Það er þögn um hvort það sé ekki réttur skilningur að ekki verði gerðar ráðstafanir í efnahagsmálum í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna nema í samráði við Alþingi. Og það þýðir ekki að borið sé fram frv. til staðfestingar á brbl., heldur að brbl. verði ekki sett.

Hæstv. viðskrh. kaus að segja ekkert um þetta efni. Þess vegna verð ég að líta svo á, að með þögninni samþykki hann þá skoðun sem ég hef hér lýst, að hann hafi lofað því, að það yrðu ekki gerðar efnahagsráðstafanir í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna nema á Alþingi.