19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

1. mál, fjárlög 1981

Frsm 1, minni. hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Eins og þm. hafa hlýtt á hefur fjárlagafrv. tekið stórfelldum breytingum milli 2. og 3. umr. Það má eiginlega segja að við minnihlutamenn höfum tekið við tillöguflóði af hv. meirihlutamönnum í fjvn. til hækkunar á fjárlagafrv. milli 2. og 3. umr. Það eina, sem stendur óbreytt í frv., eru forsendur þess. Enn þá er miðað við að verðbreytingar milli ára verði einungis 42%, þótt nýjar spár sýni að þær geti orðið nálægt 70% ef ekki verður gripið í taumana í því verðbólguflóði sem nú dynur yfir.

Útgjöldin hækka samtals um 19 milljarða 282 millj. kr. og tekjuáætlun hækkar um 17 milljarða 840 millj. kr. frá frv. Rekstrarafgangur lækkar um mismuninn á þessum tveimur tölum og verður 5 milljarðar 680 millj. kr. Greiðsluafgangur lækkar ögn minna og verður 2715 millj. kr. og hann er einungis 0.5% af tekjuhlið fjárl. eins og þau verða væntanlega samþykkt.

Það er sýnilegt að hér er um verðbólgufjárlög að ræða. Hvergi er spyrnt við fótum og útgjöldin hækka frá núgildandi fjárlögum um 202 milljarða kr., sem er 59%. Tekjurnar hækka örlítið meira, um 59.3% eða 205 milljarða kr. frá núgildandi fjárl. Hér er um að ræða hækkanir sem eru langt umfram þær sem sjálft fjárlagafrv. miðar við að verði verðbreytingar milli ára. Hér sést hvert stefnir á báðum sviðum, bæði í útþenslu á eyðslu ríkissjóðs og á þeim skattaálögum sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur í frammi.

Mesta athygli vekur sú gífurlega hækkun skatta að raungildi sem stefnt er að með hækkun tekjuáætlunarinnar um 17.8 milljarða. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir hækkun tekju- og eignarskatta einstaklinga um 6400 millj. kr., en að skattar á félög séu óbreyttir. Í öðru lagi eru óbeinir skattar hækkaðir frá frv. umfram verðlagsbreytingar um 3–4 milljarða kr. nettó. Skattar hækka því frá árinu í ár að raungildi um tæpa 20 milljarða kr. ef tillögur meiri hl. fjvn. verða samþykktar — um hvorki meira né minna en 20 milljarða kr. að raungildi eða tvöfalt meira en stefnt var að í frv. sjálfu.

Hinn nýi skattreikningur, sem bætist við skattasúpuna í ár, er því svona í raungildistölum: Orkujöfnunargjald,

2 sem er lagt á allt árið í ár, 1.5% söluskattsauki, en var aðeins lagður á hluta ársins í fyrra, hækkar þar skattaálögur um 8 milljarða kr. innflutningsgjald á sælgæti er nýr skattur og þyngir skattana á þessu ári um 1200 millj. kr. Nýtt vörugjald á sælgæti og gosdrykki þyngri skatta á þessu ári frá því í fyrra um 3600 millj. kr. Hækkun tekju- og eignarskatta umfram verðlag þyngir skattana um 6400 millj. kr. Skattahækkun á bensíni umfram verðlagshækkun þyngir skatta um 4700 millj. kr. Ef frá þessu er dregin lækkun nýbyggingargjalds, 300 millj. kr., lækkun tolla af aðföngum iðnaðar um 1000 millj. og lækkun aðlögunargjalds um 3100 millj. fæst út úr dæminu skattaíþynging á árinu frá því í fyrra að raungildi um 19.5 milljarðar kr.

Sérstaka athygli vekur að kalt og ákveðið er stefnt að stórhækkun tekju- og eignarskatta að raungildi á næsta ári samkv. till. meiri hl. fjvn. eða 6.4 milljarða kr., eins og ég sagði áðan. En hér skal þó ekki látið staðar numið. Samkv. upplýsingum fulltrúa Þjóðhagsstofnunar, sem komu á fund fjvn., þýðir skattvísitala frv., sem er 145 stig, að tekjuskattur, eignarskattur og sjúkratryggingagjald yrðu 13 milljörðum kr. hærri en áætlun fjárlagafrv. — fara hvorki meira né minna en 13 milljörðum kr. fram yfir það sem frv. gerir ráð fyrir. Áætlun frv. um þessa skatta er byggð á forsendum þess um verðlaghækkanir á næsta ári. Skattar í núgildandi fjárlögum eru einfaldlega hækkaðir um 42%.

Við 3. umr. um fjárlagafrv. hefur meiri hl. fjvn. og ríkisstj. ákveðið tvennt: Í fyrsta lagi að hækka tekju- og eignarskatta umfram þessar verðbreytingar um áðurnefnda tölu, 6.4 milljarða kr., og að geyma sér hækkun um annað eins með því að ákveða skattvísitölu 145 þegar ljóst er samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar að launatekjur muni hækka milli ára um 50–51%. Við minnihlutamenn í fjvn. höfum því flutt, til þess að undirstrika hvað hér er á ferðinni, till. á þskj. 363 sem er varatill. við till. um stórfellda skattalækkun með beitingu skattvísitölunnar. Við höfum flutt varatill. um að skattvísitala skuli nema 154 stigum, en það þýðir að tekju- og eignarskattar mundu verða svipaðir og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.

Í samræmi við þessar nýju upplýsingar, sem nú liggja fyrir um stefnubreytingu þá eða áframhaldandi íþyngingu skatta sem ríkisstj. og meiri hl. fjvn. hefur gert ráð fyrir milli 2. og 3. umr. er aukaskattreikningur tveggja ríkisstjórna síðan 1978 á næsta ári orðinn 70 milljarðar kr. að raungildi í ríkissjóð og að auki hefur meiri hl. Alþingis, sem styður núv. ríkisstj., heimilað verulegar útsvarshækkanir, eins og menn muna. Sú hækkun getur þýtt um 10 milljarða kr. í íþyngingu á næsta ári. Þetta er sem sagt orðinn aukaskattreikningur upp á um 80 milljarða kr., og reiknast mér til að það sé um 1.7 millj. kr. á fimm manna fjölskyldu í landinu.

Í nál. 1. minni hl. fjvn. og í ræðu við 2. umr. gerði ég ítarlega grein fyrir því, hvernig endum er náð saman í fjárlagafrv. og útgjaldaþenslunni fundinn staður og mætt að hluta. Þetta er gert þannig í meginatriðum, að í fyrsta lagi er beitt stórfelldum skattahækkunum, eins og ég hef gert grein fyrir. En það er ekki nóg. Í öðru lagi er gripið til skerðingar á lögboðnum framlögum ríkissjóðs til sjóða, upptöku markaðra tekjustofna í ríkissjóð og niðurskurðar á ýmsum þáttum framkvæmda, t.d. í höfnum og skólum. Með þessum ráðum er náð í mikið á annan tug milljarða, sem jafnharðan er varið til hækkunar á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs, í eyðsluhít ríkissjóðs. En hér þykir hæstv. ríkisstj. ekki nóg að gert. Hún stefnir að stórauknum lántökum til opinberra framkvæmda á næsta ári samkv. fjárlagafrv. eins og það er núna við 3. umr. og samkv. þeim brotabrotum af lánsfjáráætlun sem þm. hafa fengið fyrir næsta ár. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir að taka erlend lán sem eru hvorki meira né minna en 47 milljörðum kr. hærri en gert var ráð fyrir í lánsfjáráætlun í ár eða 95% hærri, og hækkun á lántökum til A- og B-hluta stofnana ríkissjóðs er ráðgerð um 24 milljarðar eða 67% frá lánsfjáráætlun í ár. Þannig eru skattahækkanirnar og reikningskúnstirnar alls ekki nægar til að fullnægja eyðslu- og útþenslustefnu ríkisstj. Stefnt er í stórauknar lántökur að auki að raungildi og vandanum, sem af því leiðir, slegið á frest. Eftirkomendurnir eiga að borga þann víxil eins og aðra óreiðu og upplausn sem hæstv. ríkisstj. er ábyrg fyrir í efnahagsmálum þjóðarinnar.

En kannske er það, sem ekki sést í þeim brotabrotum af lánsfjáráætlun sem þm. hafa fengið í hendur við þessa fjárlagaafgreiðslu og gerir óhöndugt um vik að henda reiður á þessu dæmi í heild, — kannske er það, sem ekki fylgir, þó einna athyglisverðast. Ég hef í höndum áætlun frá húsnæðismálstjórn ríkisins um Byggingarsjóð ríkisins. Þar er komist að þeirri niðurstöðu, að það þurfi a.m.k. 3 milljörðum kr. meira fé á árinu 1981 en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. og í þeim tillögum sem liggur fyrir við 3. umr. að samþykktar verði. En athyglisverðast við þetta plagg er það, að niðurskurður ríkisframlaga til húsnæðiskerfisins er svo stórfelldur að það er gert ráð fyrir að taka lán hjá lífeyrissjóðum í landinu upp á 19 milljarða 630 millj. kr., en á þessu ári fær húsnæðismálastjórn einungis 7.3 milljarða hjá lífeyrissjóðunum. Það á að hækka þessa lánsfjárhæð um meira en 169% og verður þá kannske svo, að einhverjum finnst þröngt fyrir dyrum sem ætla að knýja á dyr lífeyrissjóðanna, öðrum en húsnæðismálastjórn, ef þetta gengur allt saman eftir. Hér er, held ég, um svo mikilvægt mál að ræða að ég held að ástæða sé fyrir þm. að kynna sér það gaumgæfilega, en því miður munu þeir sjálfsagt ekki hafa um það upplýsingar flestir hverjir því að upplýsingar bárust fjvn. fyrir örfáum dögum. Þetta er eitt dæmi um það sem vantar inn í lánsfjáráætlunina. Þar er allt sjóðadæmi atvinnuveganna utan við.

Ef menn blaða nánar í því brotabroti af lánsfjáráætlun, sem þm. hafa fengið við afgreiðslu þessara fjárlaga, koma fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar um stefnu hæstv. ríkisstj. Þriðja árið í röð er gert ráð fyrir að stöðnun eða samdráttur verði í íbúðabyggingum í landinu að magni til. Gert er ráð fyrir stórfelldum samdrætti í fjármunamyndun atvinnuveganna eða 15% að magni til, en þriðja árið í röð er gert ráð fyrir magnaukningu í heild í opinberum framkvæmdum sem í stórvaxandi mæli eru fjármagnaðar með lántökum, einkum erlendis, þrátt fyrir alla skattahækkunina. E.t.v. gerir hæstv. ríkisstj. sér að einhverju leyti grein fyrir því, hvernig hún hefur leikið atvinnuvegina, en ég vil greina hér frá einu litlu dæmi um hvernig horfir á þeim bæjum, þ.e. hjá atvinnuvegunum.

Mér er tjáð að innheimtuhlutfall skatta, sem oftast er milli 72 og 77%, sé allt frá því að vera undir 60% í ár. Ástæðan er talin fyrst og fremst sú, að atvinnufyrirtækin geti ekki borgað skatta, þau fái ekki lán og þau taki þessi dýru lán sem það er að greiða ekki skattana sína og borga dráttarvexti.

Ef vikið er að nokkrum dæmum um þensluna, sem er í útgjöldum ríkissjóðs og kemur fram bæði í fjárlagafrv. og ýmsu því sem hér hefur verið á drepið, má nefna að um 240 nýjar stöður eru í fjárlagafrv. og verða í fjárlögum, ef samþykktar verða. En það er kannske enn athyglisverðara, að svo virðist sem ýmsir útgjaldaliðir séu stórlega vanáætlaðir í þessum fjárlögum.

Tryggingastofnun ríkisins hefur t.d. ritað fjvn. og talið að vantaði tæpa 6 milljarða upp á að áætlanir um útgjöld lífeyristrygginga og sjúkratrygginga standist. Í því sambandi má geta þess, að á þessu ári hafa sjúkrahús, sem eru rekin á daggjaldakerfi, verið rekin með stórfelldum halla. Mér hefur ekki tekist að fá upplýsingar um hversu þessi halli er mikill, en hann gæti numið 3 - 4 milljörðum kr. Hér er ríkissjóður að fresta vandanum að greiða þennan halla. Að sjálfsögðu kemur hann á ríkissjóð á næsta ári og er kannske ein af skýringunum á því, að skár horfir um afkomu ríkissjóðs á þessu ári en stundum áður. Hér er sem sagt um að ræða vanáætlun að mati Tryggingastofnunar um tæpa 6 milljarða.

Útflutningsbætur eru í þessu frv, miðaðar við 10% útflutningsbætur af landbúnaðarafurðum, en hv. þm. vita að verulega hefur verið greitt umfram útflutningsbætur að undanförnu og er áformað að gera það í annarri mynd nú vegna ársins í ár. En það er talið að á útflutningsbætur í frv. skorti 4 milljarða til þess að unnt verði að sinna þörfinni á næsta ári. Þá er ég að tala um þörfina umfram 10%.

Síðast en ekki síst er einn stór liður í till. meiri hl. fjvn. Það eru niðurgreiðslurnar, sem á mun verulega skorta ef svo fer fram sem horfir með verðbólgu í þessu landi og eins og henni er spáð. Er talið að verið geti að skorti 6 milljarða kr. ef ríkisstj. fylgir stefnu sinni um að greiða ákveðið hlutfall af verði landbúnaðarvara niður. Ef spár Þjóðhagsstofnunar um verðbólgu rætast gæti verið um að ræða vanáætlun upp á slíka tölu, og þó ekki verði um svo svakalega verðbólgu að ræða, 70% frá ársbyrjun til ársloka, er hér um að ræða útgjaldalið sem er afar hæpinn í fjárlögum eins og nú horfir.

Við 3. umr. fjallar fjvn. oftast um B-hluta fyrirtæki, sem eru mörg hver feiknalega viðamikil og ein stærstu fyrirtæki í landinu. Þar er t.d. um að ræða Póst og síma, Ríkisútvarpið, Ríkisskip o.s.frv., o.s.frv. Athyglisverðast við þá umfjöllun, sem fram fór í fjvn. um B-hluta fyrirtæki að þessu sinni, er sú staðreynd, að þau hafa öll meira og minna verið rekin með miklum halla í ár og raunar í fyrra líka. Póstur og sími er rekinn með 1130 millj. kr. halla á þessu ári. Ríkisútvarpið var rekið með 1230 millj. kr. halla á árinu 1979 og 1980. 1 fjárhagsáætlunum þessara fyrirtækja fyrir næsta ár er að vísu gert ráð fyrir að Póstur og sími greiði þennan rekstrarhalla, þó á hæpnum forsendum sé vegna þess að það er gert ráð fyrir verulega miklu minni verðbólgu en fyrirsjáanleg er að margra mati og gjaldskrárbreytingar Pósts og síma miðast við það. En það, sem er athyglisvert við þetta, er að Ríkisútvarpið fær á afmælisári sínu ekki sömu meðferð hjá hv. meirihlutamönnum í fjvn. og ríkisstj. og Póstur og sími, því að í áætlun þess er ekki gert ráð fyrir að greiða eina einustu krónu af rekstrartapi 1979 og 1980.

Ég sé ekki mun á því að reka B-hluta fyrirtæki með tapi og ríkissjóð. Það hefur að sjálfsögðu nákvæmlega sömu áhrif fyrir hagkerfið, ýtir undir verðbólguna, að reka þessi stóru fyrirtæki með tapi, auk þess sem það gengur ekki til lengdar. Hér er um að ræða einn þáttinn af þeim feluleik sem núv. hæstv. ríkisstj. stundar í verðlagsmálum, að hún horfist ekki í augu við raunveruleikann, hún horfist ekki í augu við það, hvað hlutirnir kosta, og niðurstaðan verður sú, að þessu er stungið undir stól, það er nánast litið á þetta þannig að menn geti alveg gleymt að fyrirtæki séu rekin með taprekstri ár eftir ár, eins og Ríkisútvarpið.

Herra forseti. Þessi fjárlagaafgreiðsla er sama marki brennd og fjárlagagerðin fyrir yfirstandandi ár. Sama vinstri stefnan einkennir hana þótt gengið sé lengra nú á ýmsum sviðum. Ríkisútgjöld — eyðsluútgjöld ríkissjóðs — eru þanin út. Skattar verða hækkaðir um allt að 20–26 milljarða kr. að raungildi frá árinu í ár, sérstaklega tekju- og eignarskattar, ef stefna frv. nær fram að ganga. Aukaskattreikningur ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar og hæstv. núv. ríkisstj. til þjóðarinnar er því orðinn geigvænlegur, eins og ég sagði áðan. Sömu reikningskúnstirnar, sem stangast á við lög, eru notaðar til að ná endum saman í ríkisfjármálunum og notaðar voru í fyrra. Lán eru tekin í stórauknum mæli til ýmissa opinberra framkvæmda sem áður voru fjármagnaðar af skatttekjum. Þannig er skrifað upp á víxla sem fjalla í framtíðinni. Með þessu ráðleysi er þrengt að ráðstöfunarfé heimilanna og atvinnuveganna, miðstýring aukin og ríkisafskipti. Síðast en ekki síst leiðir slík vinstri stefna í ríkisfjármálum til óðaverðbólgu. Eins og fyrr lýsi ég því allri ábyrgð á þessari stefnu og fjárlagagerðinni í heild á hendur hæstv. ríkisstj. og stuðningsliðs hennar á Alþingi.