19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

1. mál, fjárlög 1981

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir hefur beint til mín fsp. í tengslum við brtt. sem hún ásamt fleiri þm. flytur á þskj. 363 varðandi fjárveitingu til Laxeldisstöðvarinnar í Kollafirði til borunar eftir heitu vatni. Hv. þm. hefur lýst því, hvernig þessi fjárlagaliður er skýrður í aths. frv., og þarf þar engu við að bæta.

Út af fsp. hv. þm. vil ég taka fram, að forustumenn Laxeldisstöðvarinnar hafa kynnt áhuga sinn á þessu máli á fundum í rn., bæði fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi fjárlagaár og eins fyrir undirbúning að fjárlögum fyrir næsta ár. Fjármagn til þessara verkefna komst ekki inn á fjárlög fyrir árið 1980, en er í fjárlagafrv. því sem nú er til umr. á hv. Alþingi.

Ég lít svo á að tæplega sé unnt að taka af Laxeldisstöðinni í Kollafirði ráðstöfunarrétt yfir þessu fjármagni og setja inn í texta skilyrði um meðferð þess. Þessu fyrirtæki er samkv. fjárlagafrv. ætlað að fá þetta fjármagn til ráðstöfunar. Á hinn bóginn vil ég gjarnan taka fram út af fsp. hv. þm. Salome Þorkelsdóttur, að ég skil mætavel áhuga og þörf Kjalarneshrepps á að afla jarðvarma til upphitunar í því sveitarfélagi. Mun ég í því sambandi beita mér fyrir því, að viðræður verði á milli hreppsnefndar Kjalarneshrepps annars vegar og stjórnar Laxeldisstöðvarinnar í Kollafirði hins vegar með aðild landbrn. í þeim tilgangi að þarna verði í fyrsta lagi, eins og hv. þm. fór fram á, forráðamönnum sveitafélagsins gefinn kostur á aðfylgjast með framvindu þessara mála og í öðru lagi geti náðst samkomulag um framkvæmd þessa máls.

Ég tel að á þessu stigi sé ekki unnt að gefa frekari svör við fsp. hv. þm., en vænti þess, að svör mín séu fullnægjandi.