19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

1. mál, fjárlög 1981

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það kom fram hjá 10. þm. Reykv. í dag, fyrr í þessum umr., að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri hefði skrifað merka grein, eins og hann komst að orði, um hvernig leysa ætti efnahagsvanda þjóðarinnar. Ég ætla ekki að gera þessa grein að neinu atriði í þeim fáu orðum sem ég ætla að segja hér, en trú mín er ekki meiri en það á umræddum seðlabankastjóra, að ef hann og hans vinnubrögð eiga að verða merkisteinn í efnahagskerfi þjóðarinnar bið ég hv. þm. að kynna sér rekstur sama manns á Landsvirkjun, en ég held að hann sé til skammar þeim sem að standa, sérstaklega þegar tekið er tillit til stöðu seðlabankastjóra í þjóðfélaginu, þar sem langtímaframkvæmdir eru unnar á skammtímalánum sem eru að koma raforkumálum þjóðarinnar í sjálfheldu. Þegar á að nota slíkar skyndilausnir við lausn á efnahagsvanda þjóðarinnar vil ég heldur þá stefnu sem ríkt hefur nú um nokkur ár hjá hvaða ríkisstj. sem verið hefur við völd.

En tilgangur minn með því að kveðja mér hljóðs er að þakka hv. fjvn. fyrir þær breytingar sem hún hefur gert á einum lið sem ég ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni flyt till. um. Þó að fjárveitingin hafi ekki aukist um þá upphæð sem við gerum till. um vil ég samt þakka bæði fjvn. og fjmrh. fyrir skilning á starfi Íþróttasambands Íslands. Framlag til þess er aukið í brtt. á þskj. 305 úr 197 millj., eins og stóð upphaflega, í 240 millj.

Þá vil ég einnig þakka fjvn. og hæstv. fjmrh. fyrir að hafa leiðrétt þau óhöpp, skulum við segja, sem komu fram í fyrstu till. hv. fjvn. og snerta Ólympíunefnd Íslands, en Ólympíunefnd Íslands hafði verið lækkuð úr 5.5 millj. í 4 millj. Hefur hún nú verið hækkuð aftur upp í fyrri upphæðina. Fyrir þetta vil ég þakka.

Herra forseti. Um leið vil ég draga til baka þá till. sem ég flutti ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og snertir Íþróttasamband Íslands.

Að sjálfsögðu höldum við hinum till. inni. Ég bið hv. þm., sem til mín heyra, um að standa nú drengilega að þeim till. sem við gerum og snerta framlag til dagblaðanna, annars vegar það framlag, sem er á fjárlögum og nemur 170 millj. kr., og hins vegar þá heimildargrein sem við leggjum til að verði felld niður og heimilar ríkisstj. að kaupa dagblöð fyrir upphæð sem nemur líklega um 130 millj. kr. á ári. Samtals eru þessar till. um upphæð sem nam 300 millj. kr. En á móti gerum við aðrar till. sem ég vil leyfa mér að mælast til að verði samþykktar og fái hér góðar undirtektir. Það er till. um framlag til Stórstúku Íslands og till. um 100 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til sjúkrahúsbyggingar á Ísafirði.

Ég gat um það þegar ég mælti fyrir síðarnefndu till., að ég hefði verið á ferðalagi um landið s.l. sumar og þar á meðal heimsótt Ísafjörð og kynnt mér bygginguna sem þar stendur, hálfkláruð, má segja, rétt rúmlega fokheld. Ég legg eindregið og mikla áherslu á að sú fjárveiting, sem við förum fram á til viðbótar til þeirrar byggingar, verði samþykkt. Sló mig hvað mest í þessu fagra umhverfi, sem Ísafjarðarbær er rammaður inn í, það lýti á hrífandi byggðarstæði að ólokin standa tengi mannvirki sem bæjarfélagið sjálft er að byggja upp á myndarlegan hátt í samráði við opinbera aðila. Ég tel afar slæmt ef bygging sjúkrahússins verður lengi í því ástandi sem hún nú er í þegar öðrum framkvæmdum þar í kring er lokið.

Ég tók líka fram að ég hefði ekki hingað til flutt margar till. við gerð fjárlaga, hvorki nú né áður, og síst af öllu nú þar sem ég geri fleiri till. um að fella útgjöld niður en ég geri till. um útlát. Ég hef ásamt meðflm. mínum að annarri till. ákveðið að vera enn þá léttari í kröfugerð en fram kemur á þskj. 303. Það er kannske óvenjulegt, en ég vil hér með sem flm. draga till. mína um viðbótarframlag til B-álmu Borgarspítalans til baka, það eru 40 millj., og leggja þeim mun meiri áherslu á framlag í sjúkrahúsbygginguna á Ísafirði. — Ef hæstv. forseti vildi vera svo vænn að taka það til greina. — Um leið bið ég hv. þm. um að taka eftir því, að við hv. þm. Matthías Bjarnason drögum þá till. til baka til að leggja aukinn þunga á óskir okkar um aukið framlag til sjúkrahúsbyggingarinnar á Ísafirði.

Ég hef ekki miklu við þetta að bæta. Ég held að aðrar till., sem við erum saman um að flytja, þurfi ekki frekari umræðu við. Ég vil þó að lokum fagna því, að hv. fjvn. hefur aukið framlag til Ungmennafélags Íslands samtímis því að gera till. um hækkun til Íþróttasambandsins og Ólympíunefndar. Ég tel þetta vera gott spor í rétta átt og skilning á þörfinni fyrir aukið framlag til uppeldismála. Ég vona að í framtíðinni vaxi sá skilningur.

Ég fagna því líka að hér er myndarlega aukið framlag til Íþróttakennaraskóla Ísland, sem ég vona að nægi til að koma því verkefni af stað, þó ég álíti að þjóðhagslega betra hefði verið að standa öðruvísi að. Ég geri ráð fyrir að þm. viti nokkurn veginn hvernig að var staðið um íþróttamannvirkin í Vestmannaeyjum, en þau voru keypt til landsins og sett saman hér heima. Sú framkvæmd öll var fullgerð á níu mánuðum og kostaði minna en það íþróttamannvirki sem búið var að teikna, en það íþróttamannvirki hefði verið mörgum sinnum minna og ófullkomnara. Ég vil geta þess, að þeim baráttumönnum, sem standa í broddi fylkingar um þessi hagsmunamál íþróttahreyfingarinnar, hefur engum, svo ég muni til, enst aldur í baráttu sinni til að sjá verkefnunum lokið. En það er að sjálfsögðu von mín að hinum ágæta skólastjóra Íþróttakennaraskólans, sem til viðbótar við sitt starf sem skólastjóri hefur gerst sá ötuli baráttumaður sem raun ber vitni fyrir uppbyggingu Íþróttakennaraskólans á staðnum, endist aldur til að sjá þennan draum sinn rætast. En við skulum ekki gleyma því, að Íþróttakennaraskólinn útskrifar æskulýðsleiðtoga og leiðtoga á uppeldissviðinu á hvaða stigi sem er, bæði í skólum landsins og úti í hinum frjálsu félögum. Fái sá hópur, sem þaðan útskrifast góða undirstöðumenntun kemur hann til með að hafa áhrif á hvern einasta Íslending, konu eða karl, á vissu aldursskeiði. Ég vona því að framlag til Íþróttakennaraskólans, sem ég tel vera myndarlega hækkað hér, verði enn meira á næsta ári, en undirstrika að þrátt fyrir þessi orð mín tel ég að meðan ekki er staðið að á sama hátt og staðið var að mannvirkjagerð í Vestmannaeyjum séum við á rangri braut í mannvirkjagerð og uppbyggingu á íþróttamannvirkjum.