13.10.1980
Neðri deild: 2. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

Kosning í fastanefndir skv. 15. gr. þingskapa

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er athyglisvert við þá nefndakosningu, sem hér hefur farið fram, að í þrjár nefndir hafa sitjandi ráðherrar verið kjörnir nefndarmenn og í eina mikilvæga nefnd hefur varamaður verið kjörinn, einnig sitjandi ráðherra.

Nú er það svo, að enginn bókstafur er í lögum, hvorki í stjórnarskrá né þingsköpum, sem beinlínis bannar að ráðh., sem eru kjörnir þingmenn, geti setið í þingnefndum. En fræðimaðurinn Ólafur Jóhannesson komst að þeirri niðurstöðu, þegar hann skrifaði sína þekktu bók, að þetta hefði ekki tíðkast hér á landi. Nú hefur sú breyting orðið á allra síðustu tímum, að þetta gerist í vaxandi mæli. Ég vil hins vegar benda á, að samkv. upphafi stjórnarskrárinnar, eða nákvæmlega tiltekið 2. gr., á að vera hér á landi aðskilið löggjafarvald og framkvæmdavald. Það er ómögulegt annað en mótmæla því, þegar sjálfir ráðh., sem eru að forseta Íslands undanskildum æðstu menn framkvæmdavaldsins, setjast í hópum í þær nefndir, sem eru virkasti málefnalegur starfsvettvangur í sjálfu löggjafarþinginu. Nú er ráðh. raðað í þingnefndir, þó hvert einasta mannsbarn viti að það er atgjörlega útilokað að þeir geti rækt störf sín þar. Þeir hafa miklu meira en nóg að gera við að fylgjast með málum sínum í deildum og sameinuðu þingi og hafa ráðherrastörfin að auki.

Það hefur verið óvenjulegt tímabil síðan í síðustu kosningum í desember. Látum það gott heita þó eitthvað bregði út af þegar þannig stendur á og stjórn er skipuð eftir að nefndir hafa verið kosnar. En á nýju þingi er þetta óafsakanlegt með öllu. Með því að gera þetta er núverandi ríkisstj. og Sjálfstfl., sem mun einn eiga hlut að máli, að gera störf Alþingis beinlínis háðuleg. Það er verið að hæðast að þinginu með því að setja menn yfirhlaðna af framkvæmdastörfum inn í hjarta sjálfs löggjafarvaldsins, þó að stjórnarskráin setji það grundvallaratriði, að hér eigi að vera aðskilið löggjafarvald og framkvæmdavald. Það, sem við þekkjum af hugmyndum í næstu löndum, sem oft eru ræddar hér, gengur frekar í hina áttina, að við ættum að taka upp kerfi Norðmanna og láta ráðh. ekki gegna þingstörfum, heldur losa þá undan þeim meðan þeir fara með framkvæmdavaldið í ráðuneytum.

Þetta er allt næsta furðulegt og ég vara alvarlega við þessari þróun. Þetta er of alvarlegt mál til að hafa það að leiksoppi, bara af því að það hentar mönnum við það að reikna saman flokka og brot klofinna flokka í eitt skipti. Ég mótmæli enn á ný eindregið því, að það skuli vera gert hvað eftir annað, — og þar með skuli Alþingi leggja blessun sína yfir það, — að ráðh. sitji í fjöldamörgum nefndum. Þær eru nú orðnar fjórar hér í Nd. Ég veit ekki hvað þær verða margar í hinni deildinni eða hvað hæstv. forsrh. getur bætt á sig mörgum nefndum ofan á önnur störf.

Þetta taldi ég rétt að kæmi fram, herra forseti, áður en nefndakosningu lýkur.