28.10.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

337. mál, málefni Flugleiða

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil hefja ræðu mína með því að þakka hæstv. samgrh. fyrir ágæt svör við spurningum sem ég beindi til hans í umr. um þetta mál í síðustu viku, og ég veit af viðtölum við hann að hann hyggst taka hér til máls á eftir og svara frekari fsp., bæði þeim, sem hafa komið fram í dag, og svo hinum, sem hann hafði ekki tök á eða tíma til að svara í umr. sem fóru fram í síðustu viku.

Áður en lengra er haldið vil ég enn fremur, til þess að taka af allan vafa og koma í veg fyrir misskilning, segja það, að það er ekki rétt, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að einhverjir sjálfstæðismenn hefðu fyrr í umr. talað um að það ætti að bjarga fjárhagsstöðu fyrirtækisins með hlutabréfakaupum. Þetta veit ég manna gerst, því að ég er eini sjálfstæðismaðurinn sem hefur talað í þessum umr. (Gripið fram í.) Og það, sem ég hef sagt um þetta mál, tel ég að standi alveg fyrir sínu. Ég hef bent á það, að full ástæða sé til þess, áður en ríkið fer að kaupa hlutabréf og auka hlutafé sitt í þessu fyrirtæki, að leita til starfsmanna fyrirtækisins og hugsanlega annarra aðila sem hagsmuna eiga að gæta, að því loknu sé ástæða fyrir ríkisvaldið að kanna sinn hag í þessu m áli og kaupa jafnvel það hlutafé sem um hefur verið rætt, en það er mál sem þarf að skoða betur. En spurningin, sem hv. þm. Matthías Bjarnason varpaði hér fram um það, hvort hæstv. samgrh. og sjútvrh. ætlaði að beita sér fyrir sams konar fyrirgreiðstu í öðrum fyrirtækjum, er auðvitað jafngild, því að það eru fjölmörg fyrirtæki í landinu sem svo er ástatt um, að full ástæða er til þess að starfsfólk taki aukinn þátt í rekstrinum og beri meiri ábyrgð, t.d. með hlutabréfaeign. Sú spurning, sem þarna var varpað fram, er því jafngild, og það er óþarfi að gera minna úr henni en efni standa til.

Það er rétt, eins og hér hefur komið fram, að ég hef flutt ræðu áður í þessu máli. Ég taldi mig hafa tekið þar á málinu málefnalega og vikið að flestum þáttum þess, sem þá lágu ljósir fyrir, og hef reyndar gert það áður hér á hv. Alþ. Og mér þykir leitt ef hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson heldur að ég hafi aðeins fjallað um hann í þessum umr. (ÓRG: Það var það eina sem var í Mogganum.) Það er þá það eina sem hv. þm. kærir sig um að lesa í Morgunblaðinu og blöðum yfirleitt, held ég, það eru umr. um hann. Hann virðist elska það mest af öllu, og hann þarf ekkert að vera viðkvæmur fyrir því. En ég verð að segja það fyrir mína parta, að ég vil helst velja mér fallegra umræðuefni.

Það er alveg rétt, sem hefur komið hér fram, að umr. áttu sér stað 1978 og snemma árs 1979. Í þeim umr. kom fram, ekki aðeins hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, heldur hjá þeim öllum, sem þar tóku til máls, að blikur væru á lofti í Norður-Atlantshafsfluginu. Þar varð enginn fyrri til en annar að benda á þetta. Menn brugðust hins vegar misjafnlega við. Sumir töldu að kippa ætti svokölluðu grundvallarflugi úr höndum Flugleiða, aðrir töldu það ástæðulaust og ekki ætti að leggja árar í bát við fyrsta viðnám sem varð í þeirri hörðu samkeppni sem þar hefur geisað síðan. Spurningin var ekki um frjálsa samkeppni eða einokun. Spurningin var þá um hvort einkareksturinn ætti að standa í þessu vafstri eða hvort ríkið ætti að taka við. Þetta vil ég leggja sérstaka áherslu á, því að í þessum umr. er reynt að flækja umr. og drepa þeim á dreif með öðrum hætti.

Ég rakti það — og það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram — ég rakti það mjög ítarlega í minni fyrri fæðu — af því að ég tel það koma málinu við, að forustumenn Alþb. hefðu á sínum tíma verið og væru enn að hugsa um ríkisrekstur eða ríkisafskipti í þessari grein miklu fremur en frjálsa samkeppni. Ég lagði jafnframt áherslu á það, sem öllum má ljóst vera, að það er hæstv. ríkisstj. sem ber ábyrgð á þessu máli í dag, meginhluta þessa máls. Það er hún sem hefur lagt hér fram frv. í hv. Ed. Það er hæstv. samgrh. sem hefur lagt hér fram skýrslu að beiðni nokkurra þm. Og við skulum hafa það hugfast, að það var ákvörðun hæstv. ríkisstj. sem réð því, að stjórn Flugleiða endurmat afstöðu sína til Norður-Atlantshafsflugsins. Og ég ætla að segja það enn og aftur, að spurningin er nú um það, hvort styrkja beri hugsanlega af almannafé Norður-Atlantshafsflugið, áhættuflugið, það flug sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði á sínum tíma og hefur margoft sagt að hin frjálsa samkeppni ætti að slást um meðan ríkið ætti að yfirtaka hinn þáttinn, sem nú heitir grundvallarþáttur á máli hv. þm. Alþb. og reyndar í samþykkt ríkisstj.

Ég vek jafnframt athygli á því, og það skýrir e.t.v. afstöðu Alþb. meira en nokkuð annað í þessu máli, að frv. um aðstoð við Flugleiðir var lagt fram í Ed. Það frv. á að fara til hv. fjh.- og viðskn. þeirrar deildar. Og geti nú einhver upp á því, hver sé formaður þeirrar nefndar. Hann heitir Ólafur Ragnar Grímsson, hv. 11. þm. Reykv. Menn geta svo leitt getur að því, ég ætla ekki að svara þeirri spurningu, hvernig á því standi, að hæstv. fjmrh. kaus að leggja frv. þar fram, miðað við forsögu málsins. (ÓRG: Það eru miklu gáfaðri menn í Ed.) Það efa ég ekki að þeir haldi um sjálfa sig, sérstaklega einn ákveðinn þm. sem hér talar sífellt fram í, og hann má gjarnan halda það áfram. Ég held að skýringin finnist ef menn leita að hanni í hugarfylgsnum sínum.

Þá er kannske komið að kjarna þessa máls. Hv. þm. flutti hér sína ræðu. Og hvers urðum við vísari eftir ræðu hans? Jú, hann rifjaði upp nokkur atriði, valin atriði úr ræðu sinni frá 1978. Hann sleppti öðrum. Það gerði ekkert til, ég hafði rifjað sumt annað upp. Hann segist hafa varað þjóðina við. Hann segir að forráðamenn Flugleiða hafi svikið þjóðina og ríkisstj. og gefið sífellt rangar upplýsingar. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvað sagði hv. þm. um aðstoð við Flugleiðir? Hann sagði ekki neitt. Hann sagði ekki neitt um frv. hæstv. ríkisstj. — sem hann styður væntanlega, ef hann er ekki genginn af trúnni eins og sumir aðrir, — hann sagði ekkert um það, hvort hann styddi það frv., hvort það stjfrv. væri komið til með hans stuðningi eða ekki, hvort það hefði verið rætt í Alþb. eða ekki. Það fékkst ekki eitt einasta orð upp úr honum um þetta. Og þó er þessi hv. þm. búinn að tala samtals í þessu máli líklega um það bil þrjá klukkutíma samanlagt á þessu þingi og tel ég þá ekki fyrri ræður hans með, sem voru æðilangar sumar hverjar. (ÓRG: Það voru tveir tímar í gær í Ed. um frv., þar á að ræða það.) Hann er alveg óstöðvandi, maðurinn.

Ég held að þetta mál skýrist þegar menn gera sér grein fyrir því, að hæstv. fjmrh. velur félaga sinn í Alþb., vegna þess að sá er ákveðinn í því að tefja málið og bíða með það af einskærum áhuga sínum á því að koma þessu fyrirtæki á enn meiri vonarvöl en það er í dag. Sé það rangt, þá skora ég á hv. þm. að koma hér í ræðustólinn á eftir mér, ég mun vera síðastur á mælendaskránni, og segja þjóðinni það skýrt og skorinort hér og nú, segja þeim fjölda starfsmanna Flugleiða, sem bíður eftir svari, hvort hann styður efni þessa frv. Hvernig ætlar hann að standa að málum? Mun hann fylgja því eftir, sem hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. hafa sagst mundu gera, að láta ákveðna fjármuni fara til þess að styðja Norður-Atlantshafsflugið? Það hefur ekki komið nægilega skýrt fram hjá hv. þm., og ég veit að það eru fjölmargir sem bíða eftir skýru svari. Hann er sá maður sem er nú valdamestur í þessu máli. Hann er sá maður sem núna er formaður þeirrar n. sem fær þetta mál til meðferðar.

Þessi hv. þm. talar hér digurbarkalega um frjálsa samkeppni og um það, að hann sé stuðningsmaður frjálsrar samkeppni í þessu máli. Við skulum kanna þetta aðeins betur. Ég er hræddur um að hv. þm. viti það eins vel og ég, að hér sat vinstri stjórn árið 1973 þegar gengið var frá stofnun Flugleiða. Flugleiðir eru fyrirtæki sem sameinað var úr tveimur flugfélögum, Flugfélagi Íslands og Loftleiðum, og ég veit að hv. þm. er ljóst hvernig sú sameining fór fram og hver þau bréfaskipti voru, sem fóru á milli þáv. hæstv. ríkisstj. og stjórnar þessara tveggja flugfélaga, og hvert var efni þeirra bréfa, sem voru lesin upp á aðalfundi þeirra félaga árið 1973. Þetta rifja ég upp vegna þess, að þar kom skýrt fram sú afstaða flugmálayfirvalda á þeim tíma og reyndar ríkisstj. allrar, að þetta nýja sameinaða flugfélag ætti að hafa algeran forgang um áætlunarflug á milli landa, sem til væri komið vegna gagnkvæmni samninga um loftferðir við aðrar þjóðir. Ég studdi ekki þessa stjórn, ég var ekki spurður, en ég rifja það upp, að hv. þm. sat um tíma á þessu kjörtímabili á þingi. Hann sat hér sem varaþm. (Gripið fram í.) Jæja, ég biðst afsökunar á því, það er nú svo erfitt að fylgjast með ferðum hv. þm. í gegnum alla þá stjórnmálaflokka sem hann hefur setið í, en allavega studdi hann þessa ríkisstj. (Gripið fram í.) Ég þakka þetta hól. (Forseti: Ég bið menn að gæta hófs.) Það er allt í lagi með þessi frammíköll, þau gera bara skýrara það sem fram þarf að koma.

Nú kemur þessi maður hér í ræðustól og segist styðja frjálsa samkeppni. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt það þá, að hann styddi frjálsa samkeppni á þessu sviði, og ég hef ákveðinn grun um það, að þegar hann talar um frjálsa samkeppni á þessu sviði núna, þá sé það vegna þess að sú frjálsa samkeppni, sem hann talar um — og reyndar er verið að vinna að þessa dagana, eyðileggur sameiningargrundvöll þeirra tveggja flugfélaga sem á sínum tíma sameinuðust undir merkjum Flugleiða. Með breyttri stefnu í þessum málum brestur þessi grundvöllur, og auðvitað gerist það, að þeir, sem áður störfuðu undir merkjum Flugleiða og Flugfélags Íslands, vilja hverfa aftur til þess tíma þegar þeir störfuðu í sitt hvoru lagi. Og auðvitað gerist það líka, að þeir, sem störfuðu þá hjá Arnarflugi, vilja aftur starfa með svipuðu sniði og áður, þegar þeir sjá von í því að geta fengið leyfi til þess að fljúga á flugleiðum frá Reykjavík til annarra landa þar sem við höfum gert okkar loftferðasamninga. Ég trúi því — það má vera að það sé rangt hjá mér og ég vona að það sé rangt — en ég get hins vegar ekki að því gert, að ég trúi því, að stuðningur hv. þm. við frjálsa samkeppni á þessu eina sviði þjóðlífsins sé kominn til af þessum hvötum. Því miður er mín trú á hv. þm. ekki meiri en þetta. Þetta segi ég vegna þess að hv. þm. hefur æ ofan í æ, aftur og aftur lýst yfir — og ég á úrklippusafn um það, það er alveg rétt — að hann telji að grundvallarflugið eigi að vera sér, þar eigi að koma til afskipti hins opinbera, en síðan eigi einkaaðilarnir að slást um áhættuflugið. Og honum ferst þegar hann talar um að mönnum verði tvísaga hér í málflutningi, þegar hann heldur því fram núna, að hann styðji frjálsa samkeppni í Evrópufluginu, í grundvallarfluginu. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi, en það var kannske ekki von á því.

Ég rifja það líka upp, að það var ekki ég og það voru ekki aðrir þm. á Alþ. á þeim tíma sem komu í veg fyrir að rannsókn á málefnum Eimskipafélags Íslands og Flugleiða næði fram að ganga. Það var allt, allt annað sem gerðist í því máli. Hv. þm. nennti bara ekki að fylgja því máli eftir. Hann var búinn að fá það úr úr því máli sem hann þurfti. Hann var búinn að koma fram í sjónvarpinu, hann var búinn að láta bera á sér, og það er það sem þessi þm. fyrst og síðast vill. Ég óska honum til hamingju með það. Og það er alveg rétt, að hann á lof skilið fyrir það, að honum hefur tekist að koma sjálfum sér æði vel á framfæri. Hann á hól skilið fyrir það, fær 1. einkunn eða jafnvel ágætiseinkunn í þeim efnum. Forseti Sþ. á þeim tíma var nefnilega flokksbróðir hv. þm., þannig að allir, sem eru þingvanir, vita að þetta mál var ekki stöðvað með einhverju ofurvaldi vondra manna sem voru í andstöðu við hv. þm. Það var allt annað sem þar kom til.

Hv. þm. vék að því í sinni ræðu, að Flugleiðir hyggðust flytja út úr flugvallarbyggingu í Lúxemborg 14. nóv. Hann sló þessu fram, og þetta er vissulega fréttnæmt. Ég veit ekki hvort þetta er rétt eða rangt, ég hef ekki hugmynd um það. En hitt veit ég, að það verður ekkert Norður-Atlantshafsflug ef þetta mál verður látið bíða og dankast og látið tefjast, og því ræður hv. þm. Ég endurtek það sem ég hef sagt hér, og ég beini athyglinni að því enn og aftur, að hv. þm. sagði ekkert um afstöðu sína til þessa máls. En ég veit að það eru fjölmargir sem bíða eftir svari.

Hv. þm. kom enn fremur að því, að gróðinn af Evrópufluginu hefði verið óhóflegur. Það má vel vera að hægt sé að reikna gróða af Evrópufluginu, en það, sem hefur skeð í þessum málum, er að tapinu á Norður-Atlantshafsleiðinni hefur fyrst og fremst verið mætt með aukinni skuldasöfnun, og það er þess vegna sem fyrirtækið stendur jafnilla og raun ber vitni. Félagið hefur gengið á eignir sínar, og það eru fyrst og fremst eigendur þessa fyrirtækis sem hafa tapað. Og þá komum við að því grundvallaratriði í þessu máli, sem ég vona að allir hv. þm. þekki að „einokun Flugleiða“ kemur til af því, að það þarf flugrekstrarleyfi héðan. En hjá öllum þeim þjóðum, sem við höfum gert tvíhliða loftferðasamninga við, eru flugfélög sem hafa fullan rétt til þess að fljúga á þessari leið, þessari sömu leið, milli ýmissa borga í Evrópu og Reykjavíkur eða Keflavíkur. Þeim er það í lófa lagið án þess að spyrja kóng eða prest, þar með talið Alþingi Íslendinga. Þeir geta hafið þetta flug þegar þeim sýnist því að um þetta eru til samningar. Og þetta hefur gerst margoft. SAS, British Airways, Pan Am og fleiri aðilar hafa flogið til Íslands. Það þekkja menn sem eitthvað hafa fylgst með íslenskri flugsögu.

Og svo er talað um gróða. Við skulum líta á innanlandsflugið. Er mikill gróði af innanlandsfluginu? Ja, ég veit það ekki, en ég hygg að það sé ekki fjarri lagi, sem fram hefur komið, að gróðinn sé ekki afar mikill. Og skýringin er auðvitað sú, að innanlandsflugið er háð verðlagshöftum. Þar situr nefnd og ákveður verðið, og verðið er ekki ákveðið með tilliti til þess að þetta flug standi sig. Það er fyrst og fremst ákveðið með tilliti til áhrifa frá vísitölunni. Þetta verða menn að hafa í huga.

Og ég spyr: Hver var það sem hækkaði flugvallaskattinn? (ÓRG: Hver fann hann upp?) Það er alveg rétt, Ólafur, það gerðu ágætir menn í mínum flokki. En hver var það sem hækkaði hann? Það er spurning sem þú átt að svara.

Hv. þm. fjallaði síðan um skýrslu, sem Flugleiðir létu gera í september um efnahagsstöðu fyrirtækisins, og sagði að það hefði nú komið á daginn, að allt það, sem þar stóð, eða nánast allt væri lygi: Þessi skýrsla var unnin af endurskoðunarfyrirtæki hér í bænum og þar var reynt, ég held á heiðarlegan máta, að meta eignir og rekstrarstöðu fyrirtækisins miðað við mitt þetta ár. Það var auðvitað byggt á reikningum fyrirtækisins í lok síðasta árs, og þar var reynt að gera sér grein fyrir því, hver hin raunverulega staða væri. Ég vil segja frá því og það hefur reyndar komið fram, að eftirlitsmenn, sem hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. fengu til þess að fylgjast með þessum málum frá því í ágúst, fengu endurskoðanda, fyrrv. starfsmann þessarar sömu endurskoðunarskrifstofu, til þess að fara yfir það sem í skýrslunni stóð. Ég vil endurtaka það fyrir hv. þm. sem ég hef sagt áður um þetta mál, það sem kemur fram í skýrslu þessa manns, því að það hefur augljóslega farið fram hjá hv. þm. (ÚRG: Nei, nei, nei.) Ég ætla að leyfa honum og öðrum að heyra það aftur, með leyfi forseta:

„Eftirlitsmennirnir ættu ekki að áliti Rúnars B. Jóhannssonar að leggja eitthvert ofurkapp á að toga það endurmat niður, sem stjórnendur fyrirtækisins reyna að hífa upp. Hversu mikið sem reynt verður að toga endurmatið niður verður ekki hægt að ná verðmæti Flugleiða hf. miðað við 30. 6. 1980 niður fyrir núllið. Hér er átt við þá hefðbundnu skilgreiningu á hugtakinu verðmæti fyrirtækis, sem miðar við markaðsverð einstakra eigna á matsdegi.“

Þetta er yfirlýsing frá endurskoðanda, sem eftirlitsmenn — annar þeirra er Baldur óskarsson — fengu til þess að yfirfara skýrslu endurskoðenda Flugleiða. Það var ákvörðun ríkisstj. að bjóða fram aðstoð til þess að Norður-Atlantshafsflugið gæti haldið áfram. Eins og hér hefur margoft komið fram, var bakábyrgðin reiknuð með því að áætla tap ríkissjóðs og reyndar sveitarfélaga líka sem yrði ef fluginu yrði ekki haldið áfram. Þessa áhættu vildi ríkissjóður taka, ef marka má orð Ragnars Arnalds, hæstv. fjmrh., og Steingríms Hermannssonar, hæstv. samgrh. En hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður hv. fjh.- og viðskn. Ed., treystir sér ekki til þess að segja af eða á um þessi efni, hann þegir um allt það sem máli skiptir, en talar mikið um það sem minna skiptir.

Við höfum lýst því yfir, sjálfstæðismenn á Alþingi, að við séum tilbúnir til þess að styðja ríkisstj. í því, að hún leggi fram þetta áhættufjármagn til þess að flugið yfir Norður-Atlantshaf geti haldið áfram um eins árs skeið. Við vitum að það fé, sem þar verður lagt fram, kann að vera glatað, en við réttlætum þá ákvörðun okkar með því, að við þurfum þennan frest til þess að finna nýja flugmálastefnu sem getur gert verðmæti úr þeirri sérþekkingu og þeirri reynslu sem íslenskt flugfólk býr yfir. Þetta viljum við á okkur leggja, og við þorum að taka þessa ábyrgð á okkar herðar.

Margoft hefur verið minnst á það í þessum umr., að það er ekki samræmi á milli núv. afstöðu hæstv. ríkisstj. og þeirrar afstöðu sem kom fram hjá hæstv. samgrh. 24.–25. mars-fyrir sjö mánuðum — þegar hann hitti kollega sinn í Lúxemborg. Það verður ekki hægt að skilja samþykkta fundargerð þar öðruvísi en að hæstv. samgrh. hafi ætlað sér að endurgreiða Flugleiðum lendingargjöldin sem félagið var þegar búið að greiða fyrir árið 1979. Þessu tel ég að hafi enn ekki verið nægilega vel svarað í þessum umr. Ég vil því enn ítreka þessa spurningu.

Um ríkisábyrgðina er allt annað mál. Það hefur líka verið fjallað um hana hér í þingsölum, og það er alveg rétt sem hefur komið fram, að það er ekkert í lögum sem bindur hana við 60%. Það er í reglugerð, og þeirri reglugerð getur ríkisstj. breytt ef henni sýnist, og það hefur oft verið gengið miklu lengra til móts við fyrirtæki en því svarar sem nefnt hefur verið í umr. um þetta mál.

Það er eitt af aðatatriðum þessa máls, og ég vil enn og aftur víkja að því, að það var loforð ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar á sínum tíma, að Flugleiðir, hið nýja flugfélag, hefðu forgang til áætlunarflugs til og frá Íslandi, og ég vil fá haldgóð svör hér á þingi frá hæstv. samgrh. við einni spurningu þar að lútandi. Ég beindi þessari spurningu raunar til hæstv. utanrrh., en hann hefur ekki séð sér fært að svara henni hér á hv. Alþingi. Spurningin er á þessa leið: Er hér um að ræða viljandi stefnubreytingu í þessum efnum? Þessi stefnubreyting getur nefnilega gert það að verkum, að það sé út í bláinn að láta Flugleiðir hafa það áhættufjármagn sem um er að ræða. Það þýðir ekki að rétta þessu fyrirtæki nokkra milljarða af áhættufé til áframhaldandi flugs ef fótunum er kippt undan því með þessum hætti.

Nú spyrja menn auðvitað: Hvert er maðurinn að fara? Er hann þarna á móti frjálsri samkeppni? Ég var, eins og ég hef sagt áður, ekki spurður ráða þegar þetta loforð var gefið. Það var gefið af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, og sá hæstv. ráðh. situr nú í þessari ríkisstj. Hann var þá formaður Framsfl., og núv. formaður Framsfl. er hæstv. samgrh. Ég er á engan hátt að gagnrýna þetta, en tel þetta mál svo mikilsvert, að ég vil fá skýr svör: Þýðir þetta stefnubreytingu í þessum málum?

Hæstv. samgrh. sagði hér í umr. í síðustu viku að hann hefði verið þeirrar skoðunar á sínum tíma, þegar Arnarflug sótti um flugrekstrarleyfi, að Arnarflug hefði átt að fá slíkt leyfi, en umsóknin barst flugráði haustið 1976 og var tekin fyrir í jan. 1977. (Gripið fram í.) Ég rifja það upp, og það getur kannske verið einhver skýring, að það voru ekki sömu aðilar sem áttu Arnarflug 1976 og 1977 og þeir sem eiga Arnarflug í dag. Samband ísl. samvinnufélaga og Olíufélagið voru stærstu eigendur félagsins þá, og erfiðleikar félagsins urðu vegna vanskila við Samvinnubankann. Ég hirði ekki um að tala frekar um það, hver sé aðaleigandi í Iscargo, en þetta gefur auðvitað vissa vísbendingu um það, hver afstaða hæstv. ráðh. er í þessum málum. Það getur vel verið skýranlegt og skiljanlegt, að menn vilji gera flokksbræðrum sínum greiða, það er rétt. En sé um stefnubreytingu að ræða, þá verður Alþingi Íslendinga að fá að vita af því, svo mikilsvert er þetta mál.

Í svarræðu hæstv. samgrh. var vikið að eignaraðild Eimskipafélagsins að Flugfélagi Íslands, og þótt mér sé málið síður en svo skylt — gagnstætt því sem hér hefur verið haldið fram, þá held ég að það sé ástæða til að fram komi í þessum umr. hvernig á því stóð, að þessi eignaraðild varð til. Hún varð til á eftirstríðsárunum þegar Flugfélag Íslands lenti í rekstrarfjárörðugleikum. Ríkisstj. vildi ekki eða gat ekki hjálpað fyrirtækinu, en beindi hins vegar þeim tilmælum til Eimskipafélagsins, að það léti eitthvað af hendi rakna. Fyrst sem lán, en síðan var þessu láni breytt í hlutafé. Það er skýringin. Við getum líka spurt: Hvað á ríkið að vera að eiga í þessu fyrirtæki, Flugleiðum? Ég veit ekki betur en ríkið reki jafnframt skipafélag, og það skipafélag er rekið með 1300 millj. kr. halla á næsta ári ef marka má fjárlögin. Það er kannske dæmi um hvernig ríkisrekstur á að vera þegar hann er í lagi. Ég er hins vegar alveg sammála því sem kom fram hjá hæstv. samgrh., að það væri glapræði að selja hlutabréf Flugleiða í Cargolux því að það fyrirtæki getur verið lykillinn að frekari starfsvettvangi fyrir íslenska flugmenn og íslenskar áhafnir í framtíðinni.

Ég var með nokkrar fsp. í minni fyrri ræðu. Þ. á m. var fsp. til hæstv. utanrrh., sem ég veit að hæstv. samgrh. getur svarað í hans stað, á þá leið, hvort utanrrh., sem var á ferð í Washington fyrir skömmu, hafi þar átt viðtöl við þarlenda ráðamenn um flug fyrir varnarliðið. Við hverja? Hvað kom út úr þeim viðræðum? Fóru þær viðræður fram með samþykki, vitund og vilja Alþb.ráðherranna í ríkisstj.? Þetta eru spurningar sem ég veit að ýmsir vilja fá svar við. (GS: Hvernig var þessi síðasta?) Ja, ég vissi nú ekki að hv. þm. Garðar Sigurðsson væri kominn í ríkisstj., en hún var á þá leið, hvort Alþb.-ráðherrarnir hefðu haft hugmynd um, hvort þeir hefðu vitað af því að leitað var eftir frekari viðskiptum við varnarliðið fyrir Flugleiðir á ríkisstjórnargrundvelli. Reyndar var fyrri spurningin sú, hvort um það hefði verið að ræða í för hæstv. utanrrh. til Bandaríkjanna. Þar sem hæstv. fjmrh. sér sér ekki fært frekar en fyrri daginn að sitja þessar umr. í hv. Sþ., þá tel ég ekki rétt að koma fram með neinar spurningar beint til hans. (Gripið fram í: Hvernig væri að ná í hann?) Ég held að þeim spurningum sé hægt að koma til hans með öðrum hætti í Ed. og mun gera það að þeim leiðum. Það verður hins vegar eftir því tekið, að hæstv. ráðh. hvarf af fundi síðast þegar umr. voru í Sþ., og það er eftir því tekið, að hann, sem nýlega hefur lagt fram frv. á hv. Alþ. um þessi mál, telur sig hafa eitthvað þarfara að gera en sitja hér og hlýða á þessar umr. Má vera að það sé vegna þess, að nú sé málið í góðum höndum hjá hv. formanni fjh.- og viðskn. Ed. (Gripið fram í.) Málið er hjá ríkisstj. og þótt heimildalögin, sem liggja fyrir Ed. núna, verði samþ., þá kemur þetta mál til með að vera áfram hjá ríkisstj. Hún hefur slegið úr og í, en það er þó helst á ráðh. að skilja, að þeir standi með efni frv. og þeir vilji aðstoð við Flugleiðir. Hins vegar koma hér einstakir þm. í ræðustól og flytja langt mál, ýmsir stjórnarþm., flytja langt mál um hitt og þetta, sem varta kemur málinu við, en varast að taka nokkra afstöðu í þessu máli. Eftir því hefur einnig verið tekið. Og hv. stjórnarþm., sem hafa látið sig þetta mál varða og tekið þátt í umr. svo klukkutímum hefur skipt, eiga þess kost núna að koma hér og gera starfsmönnum Flugleiða, gera þjóðinni allri, gera hv. Alþ. grein fyrir því, hverjar eru í raun skoðanir þessara manna á þeirri aðstoð sem ríkisstj. hefur lagt til að veita.