19.12.1980
Neðri deild: 42. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

160. mál, minnsta mynteining við álagningu opinberra gjalda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um minnstu mynteiningu við álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Eins og kunnugt er, þá er innheimta og álagning opinberra gjalda á vegum fjmrn. Þetta frv. á rætur að rekja til þess, að á árinu 1973 tók ríkisbókhaldið í notkun tölvukerfi vegna bókhaldsúrvinnslu ríkisins. Í kerfi þessu er ekki gert ráð fyrir aurum í fjárhæðum. Við gjaldmiðilsbreytinguna um næstu áramót hundraðfaldast verðgildi gjaldmiðilseiningarinnar og aurar verða teknir upp að nýju. Að því er bókhaldskerfi ríkisins varðar felur þessi breyting í sér fjölgun sæta um eitt í mörgum tilvikum við bókun fjárhæða, þ.e. komman fyrir framan aura kemur inn í fjárhæðina.

Í fljótu bragði kynnu menn að halda að þetta væri tiltölulega auðleyst vandamál, en svo er ekki. Er því talið óhjákvæmilegt, til að forðast gífurlega vinnu sem hlyti að leiða af endurskipulagningu vélanna, að ákveða með lögum að innheimta, álagning og greiðslur hvers konar opinberra gjalda skuli fara fram í heilum krónum frá og með 1. jan. n.k.

Herra forseti. Ég held, að að öðru leyti skýri mál þetta sig sjálft, og legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.