19.12.1980
Neðri deild: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

160. mál, minnsta mynteining við álagningu opinberra gjalda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. virðist koma nokkuð af fjöllum. Hann áttar sig ekki á því, að hér er verið að tala um að opinber gjöld skuli ekki reiknuð í aurum, til þess að breyta ekki tölvu ríkisins um of. En ef við ættum að fella niður tvö núll til viðbótar yrðum við væntanlega að gera það með sérstökum lögum um það mál. Ég sé því að hv. þm. kemur hér nokkuð af fjöllum og kann það að eiga sínar skýringar. En ég held að ég geti ekki gefið honum neitt annað svar en það, að fráleitt væri með öllu að hugleiðingar hans um að sleppa tveimur núllum í viðbót gætu átt heima í þessum lögum. Hins vegar er honum auðvitað velkomið — eins og öllum öðrum þm. — að flytja mál af þessu tagi hér í þingi. Ég tek það sem svo, að Sjálfstfl. hafi tekið það upp á sína stefnuskrá, jafnhliða því sem hann sækir sem fastast að fresta gjaldmiðilsbreytingunni, að tvö núll verði tekin til viðbótar. Þessi stefnuyfirlýsing Sjálfstfl. er að vísu nokkuð seint fram komin, óvenjulega seint.