20.12.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

1. mál, fjárlög 1981

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda á að við hv. 1. þm. Vestf. flytjum tillögur um að fella niður styrki til dagblaðanna. Þær eru tvær og samtals er þar um að ræða 300 millj. kr. lækkun á útgjaldaliðum fjárlaga. Ég vil líka leyfa mér að undirstrika að till. okkar hv. 1. þm. Vestf. um aukið framlag til framkvæmda við B álmu Borgarspítalans hefur verið dregin til baka í von um að hv. alþm. sjái sér þá frekar fært að samþykkja þessa brtt. til hækkunar á framlagi til framkvæmda við sjúkrahúsið á Ísafirði. Með þessu viljum við koma til móts við till. hv. fjvn. í erfiðum störfum hennar. Þá vil ég vona að þm. samþykki þær niðurfellingartillögur, sem við erum með og ég undirstrikaði í upphafi máls míns, og sjái sér fært að verða við þessari tiltölulega litlu hækkunarbeiðni um framlag til sjúkrahúsbyggingarinnar á Ísafirði.