20.12.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

1. mál, fjárlög 1981

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Á sama tíma og raungildi framkvæmdafjár til heilbrigðismála og fleiri mála, sem til almenningsheilla horfa, er rýrt og þar ofan á svikist um að framkvæma fyrir það fé sem Alþingi leggur til, sé ég ekki ástæðu til að auka meira og langt fram yfir verðbólgu það fjármagn sem veitt er til kaupa á dagblöðum fyrir stofnanir ríkisins. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands leggur hvergi Alþingi þær skyldur á herðar að halda uppi dagblöðum sem ekki borgar sig að gefa út vegna þess að fólkið sýnir þeim ekki þær vinsældir að þau geti lifað af eigin rammleik. Þá mega þau dagblöð lognast út af fyrir mér, og ég mótmæli algerlega þeirri fáránlegu fullyrðingu 4. þm. Reykv., að Íslendingar geti ekki komið skoðunum sínum á framfæri, því að öll blöð eru opin fyrir öllum skoðunum manna. Ég vísa til grg. Alberts Guðmundssonar. Jafnframt tel ég það vera ósið hinn mesta að ríkið kaupi dagblöð til þess að dreifa á allar skrifstofur í ríkiskerfinu þannig að hver og einn starfsmaður eigi að lesa dagblöðin í vinnutímanum. Hitt tel ég sjálfsagt og eðlilegt, að dagblöð séu keypt fyrir sjúkrastofnanir. En þó að menn vilji jafnvel styrkja dagblöð, þá er hitt fáránlegt, að ætlast til þess, að hver og einn starfsmaður hjá ríkinu lesi dagblöðin í vinnutímanum svo sem gert er með samþykkt þessa liðar í fjárlögum. Ég segi já.