20.12.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

1. mál, fjárlög 1981

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fram undir þetta hefur það verið sameiginleg skoðun Alþb. og Alþfl. að skattbyrði í tekjuskatti væri ákaflega óréttlátt skipt milli fyrirtækja annars vegar og fólksins í landinu hins vegar. Fyrir nokkrum árum lagði núv. hæstv. fjmrh. þannig fram upplýsingar á Alþingi um skattgjöld 100 stærstu fyrirtækja landsmanna, m.a. til þess að sanna þetta mál. Við álagninguna núna í fyrsta skipti sem Alþb. á fjmrh. gerðist það hins vegar að fjölmörg þeirra fyrirtækja á skrá hæstv. fjmrh., sem nokkur skattgjöld borguðu þegar hann lagði þá skrá fram, borga nú engan tekjuskatt. Eitt af þessum fyrirtækjum er sérstakt uppáhaldsfyrirtæki Alþb., Íslenskir aðalverktakar. Að fenginni þessar reynslu leggur nú Alþb. og ríkisstj. til að á sama tíma og afgreidd er nú 100 millj. kr. hækkun á tekjuskatti félaga við fjárlagaafgreiðslu frá frumvarpsgerðinni í fyrstu eigi að hækka tekjuskatt á einstaklingum um 4000 millj. kr. frá fyrstu gerð fjárlagafrv. til síðustu afgreiðslu nú. Þetta er stefna Alþb. í skattamálum í dag. Með þessari till. er reynt að vinna gegn fyrirsjáanlegri kjaraskerðingu næsta ár sem nú á nokkrum vikum er þegar orðin 3% frá þeim kjörum sem um var samið. Að lækka tekjuskatt á einstaklingum er í dag við þessar aðstæður eina varanlega aðgerðin sem fær er til þess að koma í veg fyrir afkomu og lífskjarahrun við 70% verðbólgu. Ég segi já.