26.01.1981
Sameinað þing: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Við lokaatkvæðagreiðslu um hækkun vörugjalds á sælgæti og gosdrykki í hv. Nd. Alþingis var viðhaft nafnakall. Við þessa atkvgr. gerði ég grein fyrir atkv. mínu og sagði m.a. að með samþykkt þessa frv. væri verið að mismuna íslenskum iðngreinum á fráleitan hátt. Ég lauk orðum mínum með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Með samþykkt þessa frv. má búast við því, að reykvískt iðnverkafólk fái í jólagjöf frá þeim, sem að samþykkt frv. standa, atvinnuleysi yfir sig m.a., og vegna þess að ég er á móti því og á móti þessari mismunun, sem ég hef getið um, segi ég nei.“

Ástæða þess, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, eru fregnir af hinu alvarlega atvinnuástandi sem nú er orðið að ömurlegum veruleika á nokkrum landsvæðum og meðal fjölmennra starfshópa láglaunafólks hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla ekki að ræða það hugsanlega ástand sem kann að skapast ef ekki nást samningar milli sjómanna og útgerðarmanna og sem hefur í för með sér stöðvun nær alls fiskveiðiflotans og nær samstundis í frystihúsum okkar og öðrum fiskiðnaði, heldur vona ég, eins og allir velviljaðir menn hljóta að gera, að fiskverð verði ákveðið í dag og samningar náist milli sjómanna og útgerðarmanna á næstu dögum. Ég ætla ekki heldur að ræða þann alvarlega samdrátt sem þegar er orðinn staðreynd hjá okkar helstu stóriðjufyrirtækjum vegna orkuskorts. Ég dreg ekki úr því sérstaka ástandi sem skapast hefur á hálendinu vegna sérstæðra og langvinnra kulda og lekra uppistöðulóna, en fullyrði samt að meginástæðu þessa orkuskorts megi hiklaust rekja til fyrirhyggjuleysis og vanhæfni þeirra sem farið hafa með stjórn þessara mála á síðustu árum. En því miður liggja fyrir staðreyndir um atvinnuástand sem ekki stafar af hugsanlegri stöðvun fiskveiðiflotans né orkuskorti þótt hluta þess megi að sjálfsögðu rekja til tíðarfarsins, t.d. atvinnuleysi byggingariðnaðarmanna norðanlands og hér á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar hafa borist fréttir með fjölmiðlum frá Akureyri þar sem fullyrt er að atvinnuleysi hafi haldið innreið sína ef miðað er við þann fjölda umsækjenda sem sækir um þau fáu störf sem losna og auglýst eru. Þar eru nú skráðir atvinnulausir töluvert á annað hundrað manna og að öllum líkindum munu bætast við nokkrir tugir á næstunni vegna uppsagna í sælgætisgerðinni Lindu, en eftir forstjóranum þar eru höfð þessi orð:

„Samdrátturinn fyrstu þrjár vikurnar á þessu ári er liðlega 27% og það er alveg ljóst að samdrátturinn verður mun meiri í næsta mánuði. Ástæður þessa liggja alveg á borðinu, en það er hin gífurlega hækkun á vörugjaldi á súkkulaði. Það hækkaði úr 40 gömlum krónum í 370 gamlar krónur á hvert kíló eða um 825%,“ sagði Eyþór forstjóri Lindu.

„Það fer því ekkert á milli mála hvert stefnir í þessum málum, svo að maður hugsi nú ekki þá hugsun til enda, hvernig ástandið verður þegar innflutningur á sælgæti verður aftur alveg frjáls í febrúar á næsta ári. Þetta slæma ástand gengur í gegnum alla iðngreinina og hið sama er að gerast í gosdrykkjaframleiðslunni,“ sagði þessi sami forstjóri.

Hann sagði enn fremur og að lokum í þessu blaðaviðtali: „Það er því augljóslega heldur lítill tilgangur í að halda svona rekstri áfram verði engin breyting á. Þá má enn fremur geta þess, að þetta slæma ástand virðist ekki einskorðast við þessa iðngrein hér á Akureyri. Atvinnuástand hefur ekki verið verra um mjög langt árabil. Mikill fjöldi manna í flestum starfsgreinum gengur nú atvinnulaus hér,“ sagði Eyþór að lokum.

Í Þjóðviljanum, höfuðmálgagni ríkisstj., má fyrir nokkrum dögum lesa fréttir frá miklu atvinnuleysi á Djúpavogi, og það er frá fleiri stöðum víðs vegar um land sem slíkar fréttir berast. En á Suðurnesjum er um enn alvarlegra atvinnuástand að ræða og virðist sem ákvæðið í kafla um utanríkismál í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. um að undirbúið verði öflugt átak til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum falli undir sama skilyrði og næsta málsgrein á undan í sama sáttmála, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Áætlanir um flugstöð á Keflavíkurflugvelli verði endurskoðaðar og ekki ráðist í framkvæmdir við hana nema með samkomulagi allrar ríkisstj.

Má vel ætla, þegar staðreyndir atvinnulífsins á Suðurnesjum eru hafðar í huga, að ekki hafi náðst samkomulag innan ríkisstj. um nauðsynlegustu úrbætur á sviði atvinnuuppbyggingar þar. Auk þess hefur því landsvæði öllu ásamt höfuðborgarsvæðinu verið mismunað stórlega á síðustu árum í sambandi við fyrirgreiðslufé til slíkrar uppbyggingar. Það er nefnilega ekki nóg að bankar, lánasjóðir og stjórnsýsla eigi heimilisfang á þessu svæði þegar ráðamenn og stjórnendur þessara stofnana og sjóða koma annars staðar frá með þá skoðum og trú að leiðarljósi að allir hafi það svo gott á þessu svæði að vel megi skera af og flytja til og frá. Mismununin er nefnilega ekki aðeins fólgin í úreltum og ólýðræðislegum ákvæðum laga um rétt fólks á þessu landsvæði til áhrifa á skipan Alþingis, heldur einnig um rétt til fjármuna, til atvinnulegrar uppbyggingar úr sjóðum sem þetta sama fólk hefur ekki síst átt þátt í að byggja upp. — Ein alvarlegasta staðreynd atvinnuleysisins á Suðurnesjum og reyndar hérna líka er stóraukinn brottflutningur ungs fólks af landinu. Sérstaklega flyst héðan hið sérmenntaða og reynslumikla fiskiðnaðarfólk sem á nú ekki annarra kosta völ en að flýja á náðir aðalkeppinauta okkar á fisksölusviðinu til að teita sér lífsviðurværis.

Fyrir mér sem þm. Reykv. blasir sú staðreynd við, að stórum hóp láglaunafólks hér í Reykjavík hefur verið sagt upp vinnu í gosdrykkjaiðnaðinum. Því er spáð, að þetta sé byrjun slíkrar öfugþróunar í þessum iðnaði og að sælgætisiðnaðurinn muni fylgja á eftir. Það, sem verra er þó, er að meginástæðan er talin vera þau lög Alþingis um sérstakt vörugjald sem samþykkt voru skömmu fyrir jólahlé. Þessi lög voru samþykkt gegn vilja stjórnarandstöðunnar og gegn vilja sumra stuðningsmanna hæstv. ríkisstj. líka. Þeir létu samt hafa sig í að styðja málið beint og óbeint, þvert á móti aðvörunum og mótmælum hundraða starfsmanna úr þessum hópi iðnverkamanna og mótmælum stjórnarfélags iðnverkafólks, Iðju, í Reykjavík.

Alþingi, bæði fjh.- og viðskn. og formönnum þingflokka, bárust mótmæli, sem voru undirrituð af formanni félagsins, og fylgdu með undirskriftir hátt á fimmta hundrað félagsmanna úr þessari iðngrein sem mótmæltu setningu laga um vörugjald. Með þessum undirskriftum fylgdu varnaðarorð til Alþingis um að atvinnuöryggi fólks væri stefnt í tvísýnu með samþykkt laganna. Stjórn Iðju hélt fund sama dag og tók eindregið undir mótmæli þessa fólks. Stjórnin mótmælti því, að frv. yrði samþykkt sem lög á Alþingi, og benti einnig á afleiðingar þess, ef það yrði samþykkt. Því miður heyrðist það hér á Alþingi og reyndar líka í einu málgagni ríkisstj. a.m.k., að þetta fólk hefði ekki haft sjálfstæði né sjálfstæðar skoðanir til þess að eiga frumkvæði að slíkri mótmælagerð, heldur hefðu þau átt uppruna sinn í röðum atvinnurekenda, en það var einmitt þetta sem stjórn Iðju vildi sérstaklega mótmæla, og það var tekið fram af stjórn Iðju, að það hefðu verið trúnaðarmenn félagsins á vinnustöðunum ásamt samstarfsfólki þeirra sem beittu sér fyrir þessum mótmælum. Umræður um málið og tilmæli þeirra til Alþingis hafa ekki tryggt þetta fólk í þeirri trú, að sú ríkisstj., sem nú situr, sé eitthvað verkalýðsvinsamlegri en þær sem kallaðar hafa verið verkalýðsfjandsamlegar vegna efnislega sömu efnahagsaðgerða og núv. hæstv. ríkisstj. er að framkvæma, en til efnahagsframkvæmda ríkisstj. tel ég m.a. samþykkt þessa vörugjalds.

Ummæli ýmissa forustumanna um áramótin hafa örugglega ekki verið uppbyggjandi fyrir þetta atvinnulausa láglaunafólk. Forseti Alþýðusambandsins sagði, að ríkisstj. væri að vinna sér tíma, og hæstv. félmrh., að skipt væri á sléttu við launþega. Ég veit að atvinnulausir iðnverkamenn taka undir það með mér, að það eru slæm hnífakaup sem iðnverkafólk hefur átt, ef það hefur átt einhverja aðild að slíkum skiptum, að þurfa að hneigja sig fyrir riftun kjarasamninga með brbl. ríkisstj. og taka á sig stórfellda kaupmáttarrýrnun og atvinnuleysi, en fá í staðinn skammtímaaðgerðir í efnahagsmálum.

Framleiðendur þessarar vöru hafa sótt um hækkaða álagningu á vöru sína til að standa undir auknum rekstrarkostnaði, bjarga fyrirtækjum sínum með því og halda uppi jafnvel enn takmarkaðri rekstri en nú er. Að mínu mati mun slík álagning ekki auka aftur magnsölu framleiðslunnar og mun ekki bjarga atvinnu þeirra sem þegar hefur verið sagt upp atvinnu. En staðreyndin er sú, að verð þessarar vöru er komið úr sambandi við rýrnandi kaupmáttargetu almennings. Eina skynsamlega leiðin, sem hægt er að fara, er að ríkið gefi eftir verulegan hluta af skattlagningu sinni svo að verði létt á atvinnufyrirtækjum og þá fyrst og fremst þeim sem nú búa við hið nýálagða vörugjald. Þetta mun auka sölu framleiðslunnar og bjarga atvinnu þess fólks sem sagt hefur verið upp störfum.

Á fundi í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs fyrir nokkrum dögum fengum við spá á borðið frá félmrn, og þar var látin í ljós sú trú, að atvinna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs mundi ekki verða lakari en hún var á s.l. ári, en á s.l. ári má segja að atvinnuástand um allt land hafi verið mjög gott. Strax þegar þetta var lesið á fundi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs voru skoðanir rn. dregnar mjög í efa af þeim mönnum sem þekkja til atvinnumála hér á Íslandi. Það voru gamalreyndir verkalýðsforustumenn sem bentu m.a. á að það væri auðvitað ekki hægt að spá um fyrsta ársfjórðung þegar ósamið væri við þann stóra hóp launþega sem sjómenn eru, ekkert fiskverð lægi fyrir og óvíst um framhaldsstarfsemi fiskiðnaðarins á næstu mánuðum. Þá geta slíkar spár ekki haft neina örugga vissu á að byggja þegar horft er til veðurfars á þessum árstíma.

Ég hafði ætlað mér að þessum orðum mínum loknum að beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. og koma til hans skriflegri aths. í gær, tilkynningu um að ég mundi gera þetta. Hann var væntanlegur heim í gærkvöld, en kom ekki heim í nótt, hafði tafist norður í landi, svo það verði ekki misskilið, og hefur fjarvistarleyfi af þeim sökum hér í dag. Hæstv. forsrh. er svo vinsamlegur að ætla að svara því sem verður máske í fyrirspurnarformi frá mér. En áður en ég kem að því ætla ég að leyfa mér — með leyfi forseta — að vitna í grg. hv. þm. Guðmundar Þórarinssonar við afgreiðslu frv. um vörugjald í hv. Nd. skömmu áður en þingið fór í jólaleyfi. Hann sagði þá í grg. sinni, með leyfi forseta:

„Ég er á móti þessu gjaldi, sem fjallað er um í þessu frv. Ég tel að hér sé um fráleita skattheimtu að ræða sem mismunar iðngreinum.

Fyrir stuttu stóðu þm. að því eða ríkisstj. að leggja 30% gjald á innflutt sælgæti til að vernda störf þess fólks, sem við þær iðngreinar vinnur, þegar lokun fyrirtækjanna jafnvel blasti við. Nú, stuttu seinna, er lagt fram frv. hér í þingi til skattlagningar þessara vara í tekjuöflunarskyni fyrir ríkissjóð. Með þessari skattlagningu gosdrykkja er líklegt að skattlagning ríkissjóðs sé um 50% af verksmiðjuverði og fyrirtækjum gert að innheimta svo háa hlutdeild fyrir ríkissjóð. Þessi skattheimta, sem þetta frv. fjallar um, mun valda hækkun framfærsluvísitölu og hækkun launagreiðsla í landinu, líklega um upphæð sem nemur 3.3 milljörðum kr, á næsta ári.

Nú liggur fyrir þinginu frv. um jöfnunargjald. Í trausti þess, að hækkun um 2% á jöfnunar- og aðlögunargjaldi nái fram að ganga og þá verði þetta gjald, sem hér er fjallað um í þessu frv., á gosdrykkjum og sælgæti fellt niður greiði ég ekki atkv. gegn frv.“

Þetta var sá fyrirvari sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson gerði þegar hann greiddi atkvæði við afgreiðslu þessa máls fyrir jólahlé.

Mín fyrsta fsp., sem ég ætlaði að varpa fram til hæstv. fjmrh., er um hvort hæstv. ríkisstj. sé búin að koma sér niður á álagningu þessa 2% aukagjalds sem heimilt er að leggja á samkv. ákvæðum til bráðabirgða í þeim lögum um jöfnunargjald sem við samþykktum hér á hæstv. Alþingi 19. des. s.l. Ef möguleiki er á því að koma á móti vanda þessa iðnaðar er það að sjálfsögðu gott, þó ég telji hitt vera best og einu framkvæmanlegu leiðina til að ráða bót á atvinnuleysi fólksins: að fella þetta sérstaka vörugjald alveg niður.

Ég vil svo að lokum benda á það, að nú aðeins fyrir nokkrum dögum, í síðustu viku, fór verksmiðjufólk, sem hlut á að máli, á fund hæstv. forsrh. og reyndar fjmrh. einnig, náði að vísu ekki til þeirra sjálfra, en kom til þeirra bréfi og fékk vinsamlegar kveðjur að sjálfsögðu til baka. Í þessu bréfi bentu þessir aðilar á og vitnuðu til fyrri mótmæla sinna og aðvörunarorða. Og þeir sögðu svo í þessu bréfi sínu, sem hefur birst í fjölmiðlum, með leyfi forseta:

„Nú er hins vegar komið í ljós að samdráttur í sölu er mjög verulegur og því augljóst að gosdrykkjaiðnaðurinn getur ekki annast innheimtu á þessum auknu sköttum á landsmenn. Það er því einlæg ósk okkar starfsmanna“ — og síðan eru verksmiðjurnar taldar upp — „að þér, ágæti ráðh., beitið yður fyrir því, að umrætt 30% vörugjald eða sérstakt tímabundið vörugjald verði fellt niður eða dreift á fleiri atvinnugreinar.“

Og niðurlag bréfs þeirra er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Það er trú okkar, að með því móti einu sé hægt að vinna gegn samdrætti í okkar atvinnugrein og þar með tryggja atvinnuöryggi okkar og komið verði í veg fyrir að á annað hundrað manns búi við það óöryggi sem atvinnuleysi veldur.“

Ég hef skýrt frá fsp. minni um hvort þetta hefði verið rætt í ríkisstj. Ég þykist vita að ríkisstj. hafi rætt í sínum hóp það alvarlega mál þegar upp kemur atvinnuleysi í jafnstórri iðngrein og meðal jafnmikils fjölda og hér er um að ræða. Ég efa það ekki. En sú spurning hlýtur að koma upp hjá okkur ekki síður en hjá þessu fólki, hvort það sé hugsanlegt að hæstv. ríkisstj. vilji nú fella þetta gjald niður aftur, eða þá til vara, hvort það sé komið áleiðis eitthvað með aðgerðir til að ráða bót á vandanum með álagningu hins nýja jöfnunargjalds sem heimild er fyrir í lögum.