26.01.1981
Sameinað þing: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Eins og hv. þm. tók fram mun hann hafa látið hæstv. fjmrh. vita um fsp. varðandi gosdrykkjamál og jöfnunargjald. Hæstv. ráðh. er veðurtepptur og vissi ég ekki um þessa fsp. fyrr en í byrjun þessa fundar. En það er sjálfsagt að svara fsp. hans um þetta efni. Hins vegar vissi ég ekki að hv. þm. mundi hefja hér almennar umræður um atvinnumál og atvinnuleysi í landinu.

Varðandi fsp. hans um þá heimild, sem samþykkt var fyrir jól um álagningu 2% jöfnunargjalds eða ígildis þess, þá hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um notkun þeirrar heimildar. Varðandi gosdrykkjaframleiðsluna hefur það mál verið til sérstakrar athugunar eftir að starfsfólk verksmiðjanna bar fram óskir um það mál nú fyrir helgi. Það, sem verið er að kanna, er í fyrsta lagi hvort um samdrátt í sölu er að ræða og ef svo er þá hversu mikinn og ekki síst af hvaða orsökum hann kann að vera. Ef um samdrátt er að ræða, sem sumir halda fram, en aðrir draga í efa, er ljóst að þar eru ýmsar samverkandi ástæður, en ekki eingöngu hækkun gosdrykkjagjaldsins. Það er þegar hafin athugun og könnun á þessu. Vitanlega hefur ríkisstj. fullan hug á að gera ráðstafanir til þess að ekki verði um atvinnuleysi að ræða í þessari starfsgrein.

Að öðru leyti skal ég ekki fara út í hinar almennu umræður hv. þm., en þó nefna tvennt. Hann minntist á verulegt atvinnuleysi á Suðurnesjum og skal ég ekki draga þau ummæli hans í efa. Hins vegar er mér ekki kunnugt um að nein erindi hafi borist frá Suðurnesjum um þetta efni til ríkisstj., hvorki frá sveitarstjórnum, verkalýðsfélögum né Alþingismönnum kjördæmisins.

Þá minntist hv. þm. á að í sælgætisverksmiðjunni Lindu á Akureyri hefði fjölda manns verið sagt upp og mun hafa byggt það á heimild sem hann telur að sjálfsögðu óyggjandi, en það er Morgunblaðið. En þetta er með öllu rangt því að engum manni hefur verið sagt upp í þessari verksmiðju.