26.01.1981
Sameinað þing: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það þarf í rauninni engum að koma á óvart og allra síst hæstv. ráðh., að þm. vilji nú á fyrstu dögum þingsins eftir jafnlangt jólaleyfi og raun ber vitni um taka til umræðu á Alþingi utan dagskrár þau mál sem hæst hefur borið á þeim tíma sem þingið hefur verið í jólaleyfi. Þess vegna er það fullkomlega eðlilegt og þakkarvert að hv. 1. landsk. þm. skuli hér gera að umtalsefni utan dagskrár það mál sem mjög hefur verið til umræðu á opinberum vettvangi nú síðustu daga, en það er sá samdráttur sem virðist vera í þeim greinum iðnaðar sem sérstakt vörugjald var lagt á nú fyrir jólin.

Það urðu miklar deilur hér á Alþingi um frv. til l. um vörugjald sem hér var afgreitt á síðustu dögum fyrir jólaleyfi. Efnisatriði þessara laga var að leggja 30% vörugjald á gosdrykki, en 7% á sælgæti, stóð reyndar til að það yrði 10%, en var breytt í meðförum þingsins, eins og þm. muna eftir. Um þetta mál urðu miklar deilur hér í þingi. Við þm. Sjálfstfl., sem erum í stjórnarandstöðu, greiddum atkvæði gegn þessu og fluttum harðorða gagnrýni á þessa ráðstöfun bæði í ræðum og nál.

Ég vil í stuttu máli rifja upp nokkur rök sem fram komu af okkar hálfu í þessum umræðum:

Við bentum á að það væri með ólíkindum að ríkisstj.

skyldi hafa á s.l. sumri talið sig þurfa að gera sérstakar ráðstafanir til að styrkja erfiða stöðu sælgætisiðnaðar, — ráðstafanir sem ég hygg að hafi verið réttmætar og nauðsynlegar þá þó að deila megi um þá aðferð sem notuð var, — en ekki voru liðnir nema nokkrir mánuðir frá því að þau brbl. voru sett, sem áttu sérstaklega að styðja þessa iðngrein, þegar lögð var á hana sérstakur skattur sem ljóst var frá upphafi að mundi verða mjög íþyngjandi.

Við bentum á hættu á samdrætti í þessum atvinnugreinum. Það var ekki gert út í bláinn, heldur vegna þess að þeir, sem gerst þekkja til í þessum atvinnugreinum, forsvarsmenn viðkomandi fyrirtækja, forsvarsmenn iðnrekenda í landinu og starfsfólk, sem í þessari atvinnugrein vinnur, komu sérstaklega hingað til alþm. til að vara þá við og gera þeim grein fyrir yfirvofandi hættu. Bæði atvinnurekendur og starfsmenn í iðnaði sameinuðust um að skora á alþm. að samþykkja ekki það lagafrv. sem þá lá fyrir. Forsvarsmenn Iðju, félags verksmiðjufólks, og forsvarsmenn Félags íslenskra iðnrekenda afhentu sameiginlega orðsendingu þar sem þess var farið á leit, að þessi lög yrðu ekki samþykkt.

Þeir bentu á, sem rétt var, að það mætti ekki íþyngja þessum atvinnugreinum og með því væri verið að stefna í hættu atvinnuöryggi um 600 manns sem vinna í þessum atvinnugreinum.

Allt þetta var tíundað hér í umr. fyrir jól. Við sjálfstæðismenn bentum líka á að þegar tekið væri tillit til þess annars vegar, hversu miklar tekjur þetta ætti að gefa, sem var talið um 3.4 milljarðar kr., og hins vegar hækkunar vísitölu, sem þýddi þá auknar launagreiðslur bæði atvinnulífsins og ríkisins í heild, væri vandséð hver raunverulega væri hagur að þessari lagasetningu er upp væri staðið, vegna þess að sú hækkun vísitölunnar, 0,26%, sem talið var að þetta gjald hefði í för með sér, þýddi auknar launagreiðslur um nálægt 3 milljörðum kr. Við bentum líka á að með þessari ráðstöfun væri verið að mismuna alvarlega íslenskum iðngreinum og ekki væri rétt og ekki eðlilegt að fara þannig að.

Nú er komið í ljós að þessi aðvörunarorð reyndust rétt. Ég held að engum blandist hugur um það, þó að hæstv. ríkisstj. sé það e.t.v. ekki ljóst ef marka má orð hæstv. forsrh. áðan, að þessi samdráttur stafar af þeim auknu sköttum sem hér hafa verið lagðir á. Það er orðin tíska í iðnrn. að ef einhver vandamál koma upp er kallað á starfshópa og nefndir. Okkur skilst að þær séu orðnar einar 43 talsins og ekki séð fyrir endann á því enn. Einhverjar fréttir eru uppi um það, að nú standi til að skipa sérstaka stjórn fyrir Orkustofnun án þess að fyrir því séu nokkrar heimildir í lögum, en það er annað mál sem rétt er kannske að ræða síðar. — En mér heyrðist ekki betur á orðum hæstv. forsrh. áðan en að nú ætti að hefja þann leik að nýju, hefja sérstaka athugun á því, af hvaða ástæðum þessi samdráttur væri og hvort hann væri til yfirleitt. Mér sýnist því að þetta muni nú lenda í einu nefndarfarganinu enn þá sem hefur einkennt allnokkuð störf hæstv. ríkisstj. og ekki síst þau mál sem snerta íslenskan iðnað.

Forsvarsmenn þessara fyrirtækja hafa látið hafa eftir sér ummæli í blöðum þar sem þeir vara mjög við og horfa uggandi augum til framtíðarinnar. Það liggur ljóst fyrir að verksmiðjan Vífilfell, Coca Cola —verksmiðjan, hefur þegar sagt upp 60 starfsmönnum og það á þeim tíma árs þegar hvað erfiðast er að fá vinnu. Við höfum lesið um áhyggjur þessa fólks í öllum blöðum landsins. Forstjóri Sanitas segir að þeir, sem því fyrirtæki stjórna, bíði átekta og sjái hvernig málin þróast, en vonast til að komast hjá uppsögnum eða öðrum viðlíka aðgerðum. Það er þó ljóst að til uppsagna mun koma ef svo fer fram sem horfir um áframhaldandi samdrátt í sölunni, segir forstjóri þessa fyrirtækis.

Og forstjóri þriðja fyrirtækisins, þ.e. Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson, segir að það hafi orðið gífurlegur samdráttur í sölu á þessari vöru. Hann segir að um 130 manns séu í vinnu hjá fyrirtækinu núna og væri ólíklegt að unnt yrði að komast hjá uppsögnum ef ekki birti til.

Af þessum ummælum svo og því alvarlega bréfi, sem Iðja, félag verksmiðjufólks, sendi hæstv. forsrh. á föstudaginn var, má ljóst vera að hér er slíkt mál á ferðinni að það verður ekki við það unað að ekkert verði gert til úrbóta.

Sá skattur, sem hér er um að ræða, er mjög í líkingu við þá stefnu sem Alþb. er fyrst og fremst í forsvari fyrir og virðist ráða ríkjum í þessari ríkisstj., þ.e. stöðug og eilíf skattheimta á næstum viku hverri og fyrst og fremst skattheimta sem beinist að atvinnulífi landsins. Hin dauða hönd skattastefnu núv. ríkisstj. er á góðri leið með að skerða alvarlega atvinnulíf okkar og jafnvel í sumum greinum svo að hrein auðn er fram undan.

Það er mikill misskilningur og mikil vanþekking á gangi atvinnulífsins, eins og fram kemur hjá Alþb. hvað eftir annað, að halda að atvinnufyrirtæki landsins séu endalaus uppspretta skattheimtu. Efnahagsstefna á að örva til athafna og við þurfum þess með í okkar landi nú. Við horfum fram á mjög alvarlegt ástand í atvinnumálum, —ástand sem ef til vill kemur ekki svo mjög fram í tölum um atvinnuleysi, heldur í því dulbúna atvinnuleysi sem felst í miklum brottflutningi fólks úr landinu. Við höfum um það tölur frá Hagstofunni að á síðustu fjórum árum, — þá er árið 1980 reyndar ekki meðtalið, ég hef ekki fengið tölur um það, - hafi flust á brott tæplega 10 þús. manns frá Íslandi, sem er geysileg blóðtaka því hér er um að ræða fólk á besta starfsaldri.

Þessi tala þýðir t.d. sama og að allir Keflvíkingar hefðu flust brott af landinu á þremur árum.

Brottflutningur fólks á þessum tíma er að sjálfsögðu ekki sök núv. hæstv. ríkisstj., en stefna hennar í atvinnumálum er hins vegar ekki líkleg til að snúa dæminu við. Þvert á móti, með þessari gífurlegu skattlagningu, sem dregur úr athafnaþrá manna og hvetur á engan hátt til nýrra athafna í atvinnulífi, er áfram gengið á þeirri sömu braut sem verið hefur, að stefnt sé í jafnmikið eða jafnvel meira dulbúið atvinnuleysi á næstu árum en verið hefur. Það er enn eitt atriði að lokum sem ég vil gera að umtalsefni í þessu sambandi. Það er hversu lítið er upp úr að leggja þeim hástemmdu og hátíðlegu yfirlýsingum sem koma frá Alþb. og ekki síst hæstv. ráðh. Alþb. um nauðsyn samstarfs, samvinnu og samráðs við samtök verkafólks og launafólks í landinu. Slíkar klisjur þekkjum við úr hátíðaræðum þeirra Alþb.-manna. En þetta mál og meðferð þess er dæmigert um hvernig þetta samstarf forkólfa Alþb. við samtök launafólks í landinu er í raun. Þegar félag verksmiðjufólks í Reykjavík, félag þess fólks sem er sennilega stærsti láglaunahópurinn í landinu, kemur hingað til alþm. með aðvörun um að leggja nú ekki þennan ofurþunga á þessa atvinnugrein, með eins konar ákall til alþm. um að stefna ekki atvinnu þess í hættu á þennan hátt, er því tekið með háðsyrðum hér í þingsölum. Eftir að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem því miður er ekki staddur hér í dag, hefur fjarvistarleyfi, tekur á móti bréfi hér niðri í anddyri frá Iðju, félagi verksmiðjufólks, fer hann með það upp í ræðustól í Ed., gerir þar grín að því fólki sem þetta bréf afhendir, segir að það hafi ekki verið sjálfrátt gerða sinna og það hafi verið platað af atvinnurekendum til að skrifa undir slíkt bréf. Það voru heldur kaldar kveðjur sem Alþb. á þennan hátt sendi þessum samtökum launafólks þegar það kom hér í sinni bónarför fyrir jólin. — Nú er það sem sagt komið í ljós að þetta fólk hafði rétt fyrir sér, aðvörunarorð þess voru á rökum reist, en eftir stendur dæmi, reyndar mjög gott dæmi, sem ég hygg að sé alls ekki einsdæmi, um fyrirlitningu núverandi ráðamanna Alþb. á samtökum launafólks og algert tillitsleysi við það fólk sem þar um ræðir.

Ég vil ljúka þessum orðum með því að skora á hæstv. ríkisstj. að setja ekki upp eina nefndina enn til að rannsaka þetta mál, ekki setja nú 44. nefndina upp í iðnaðarmálum á Ístandi á vegum iðnrn., heldur ganga í þetta mál með oddi og egg og reyna að leysa það þannig að til þess komi ekki að það fólk, sem nú hefur verið sagt upp þurfi að hætta vinnu, og jafnframt að þeir, sem uppsagnir vofa yfir þurfi ekki að fara út á kaldan klaka atvinnuleysisins. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að taka tillit til þessara óska sem bæði forsvarsmenn launafólks og forsvarsmenn iðnrekenda í þessu dæmi hafa flutt hæstv. ríkisstj.

Ég skora á hana að leysa þetta mál fljótt og vel.