26.01.1981
Sameinað þing: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það virðist koma hæstv. forsrh. á óvart að óbreyttir þm. hafi nokkrar áhyggjur af atvinnuástandi því sem er að skapast í landinu. Það ætti sannarlega ekki að koma hæstv. ráðh. á óvart því að svo oft hefur verið að því vikið hér í almennum umr. um efnahagsmál og stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum hvað hún sé hættuleg að því er varðar atvinnumálin og atvinnuöryggið í landinu.

Ég kvaddi mér hljóðs hér vegna þess að það var minnst sérstaklega á einn ákveðinn stað í mínu kjördæmi, Akureyri, og farið nokkrum orðum um atvinnumálin þar. Ég fagna því, ef reynist rétt sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að engu fólki hafi verið sagt upp í sælgætisiðnaðinum á Akureyri. Ég vona að það fari ekki með þær upplýsingar eins og sumt annað, sem því miður hefur ekki reynst rétt þegar á hefur reynt, sem fram hefur komið í máli hans hér á hinu háa Alþingi. En það eru miklu fleiri atriði í atvinnumálum á Akureyri, sem þarf að hafa áhyggjur af en þær 17 uppsagnir sem hér hefur komið fram að eru engar uppsagnir.

Á Akureyri eru núna 120 manns á atvinnuleysisskrá. Mjög mikið af þessu fólki vinnur í byggingariðnaði. Ég hef haft samband við forráðamenn bæjarmála á Akureyri um þetta mál. Byggingarfulltrúinn á Akureyri tjáir mér að það sé mjög verulegur samdráttur í lóðaumsóknum á Akureyri og á seinni hluta ársins í ár hafi fólkið greinilega hægt á sér að byggja, byggingartíminn hafi lengst og nú sé svo komið að umsóknum lóða hafi fækkað,eins og hann orðaði það, mjög verulega. Hann sagðist ekki hafa endanlegar tölur um það miðað við fyrri ár.

Á þessu sjáum við að þarna eru að verða samdráttaráhrif sem ég held að megi rekja að mjög verulegu leyti til almennrar stefnu stjórnvalda í sambandi við húsnæðislán og lánakjör til húsbyggjenda.

Það er eitt sem væri kannske rétt að vekja athygli á í sambandi við þetta mál. Ríkisstj. býr þannig að Byggingarsjóði ríkisins á þessu ári að það verður ekki annað séð en það vanti 10–12 milljarða kr. fjáröflun til byggingarsjóðsins til að hann geti sinnt útlánaflokkum sínum eins og húsnæðismálastjórn telur að þurfi. Gert er ráð fyrir að tekin séu svo gífurlega mikil lán hjá lífeyrissjóðunum til að ná þarna endum saman að ég held að enginn maður trúi að það geti brúað bilið, en þau lán, sem stefnt er að að verði tekin hjá lífeyrissjóðunum á þessu ári, eru 19.6 milljarðar í samanburði við 7.3 milljarða sem fengust úr lífeyrissjóðunum í fyrra.

Þó að ástandið sé orðið slæmt í þessum málum á sviði byggingariðnaðarins á ýmsum stöðum og greinileg merki séu um samdrátt á það eftir að verða verra og meira ef ekki verður betur að þessum málum hugað en hæstv. ríkisstj. hefur fyrirhugað eftir þeim gögnum sem liggja fyrir afgreiðslu fjárlaga og þeim drögum að lánsfjárlögum sem Alþingi hafa borist.

En það eru fleiri áhyggjuefni í atvinnumálunum á Akureyri. Undanfarin ár hefur útflutningsiðnaðurinn verið rekinn með nokkrum halla og sum árin verulegum og sumar greinar útflutningsiðnaðarins eru á síðustu árum reknar með halla sem nemur a.m.k. 3–5% af heildartekjum. Þá er ég að tala um nettóafgang. Hann er í rauninni halli sem þessu nemur. Á Akureyri vinna hjá sambandsverksmiðjunum 850 manns, og í lagmetisiðnaði 120–200 manns, eftir því á hvaða árstíma er lítið. Það eru því rúmlega 1000 manns á Akureyri sem eiga sitt undir útflutningsafkomu útflutningsiðnaðarins.

Í engu byggðarlagi á Íslandi er um svo mikla hagsmuni í sambandi við þessa atvinnugrein að tefla. Til viðbótar þessu, að útflutningsiðnaðurinn hefur verið rekinn með verulegum halla undanfarin ár, stefnir hæstv. ríkisstj. að því nú, að því er hún segir, að stöðva gengissig, halda genginu stöðugu samtímis því sem yfir atvinnuvegina dynja stórfelldar kostnaðarhækkanir.

Ég hef átt viðtöl við forráðamenn útflutningsiðnaðarins á Akureyri, lagmetisiðnaðar, ullar- og skinnaiðnaðar og fleiri iðngreina, en aðallega þessara tveggja, sem hafa langflest starfsfólk í þjónustu sinni. Þeir segja að það sé afar mikið áhyggjuefni, svo að ég hafi alveg orðrétt eftir þeim, sú hugmynd, sem þeim finnst að ríkisstj. stefni að í gengismálum, að halda genginu stöðugu ofan í það sem gert var á s.l. ári, en þá er talið að gengisaðhald hafi verið svo mikið að 8–9% hafi skort á að atvinnuvegirnir næðu endum saman á því ári.

Þeir segja að hér sé um afar mikið áhyggjuefni að ræða og geti mjög fljótlega komið að því, að þeir þurfi að grípa til uppsagna fólks. — Við vitum að það hefur mikið verið í fjölmiðlum um að ein sambandsverksmiðjanna á Akureyri, skóverksmiðja, muni hætta um mitt árið, en þá mundi þetta bætast við þann vanda.

Mikill skipasmíðaiðnaður er á Akureyri. Fyrir nokkrum dögum breytti stjórn Framkvæmdastofnunar stefnu sinni í útlánum til nýsmíða skipa, lækkaði þá upphæð, sem hún lánar út á hvert fiskiskip, um 5%. Þetta segja forustumenn skipasmíðaiðnaðarins mér að geti orðið banabiti skipasmíðaiðnaðarins í landinu, þegar eigið framlag er hækkað úr 15% í 20%. Nú getur það verið matsatriði hversu hratt á að fara í skipabyggingar þegar fiskiskipastóllinn er orðinn eins stór og hann er, en ég held að allir, sem þekkja til samsetningar fiskiskipaflotans og vita hvað vertíðarbátarnir eru orðnir gamlir og úreltir yfirleitt, geti orðið sammála um að það sé eitthvað það vitlausasta, sem hægt sé að gera, að skrúfa fyrir innlendar skipasmíðar og hugsa sér svo að leysa vandann, sem af því hlýst, með því að flytja inn 20–30 báta eða jafnvel fleiri, eins og gert hefur verið stundum, á undanförnum árum í gusum, — báta sem allir verða síðan úreltir í einu.

Það eru ekki bara þessar 17 uppsagnir, hæstv. ráðh., í Lindu, sem kannske eru ekki orðnar að veruleika, sem eru áhyggjuefni þeirra sem vilja eitthvað hugsa um atvinnulíf á Akureyri eða á Íslandi yfirleitt. Það er ekki bara það — nánast með háðsmerki — sem ríkisstj. gerði í sambandi við sælgætisiðnaðinn í landinu, sem er mönnum áhyggjuefni. Það er um miklu víðtækara mál að ræða.

Ég tala nú ekki um það að fresta virkjunarframkvæmdum og slökkva á öllum stóriðjufyrirtækjum í landinu. Ég skal ekki fara út í þá sálma og ekki heldur út í það, hvernig horfir með fiskverð og með útgerð á komandi vetri. Atriðin, sem ég taldi hér upp, eru nægjanleg til að sýna fram á að það er því miður mjög uggvænlegt ástand og er að skapast mjög uggvænlegt ástand á miklu fleiri sviðum en hér hefur komið fram áður.