26.01.1981
Sameinað þing: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta leiðinlega villu sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni. Hann sagði að það væri ákvæði í stjórnarsamningnum um að það mætti ekki leggja í neinar meiri háttar framkvæmdir á Keflavíkurvelli nema allir aðilar að stjórnarsamstarfinu væru sammála. Það er ekkert slíkt ákvæði í stjórnarsamningnum, hvorki í kaflanum um utanríkismál né annars staðar í stjórnarsamningnum, ekki eitt einasta ákvæði um það. Það er í kaflanum um utanríkismál o.fl. ekki eitt einasta ákvæði um varnarliðsframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Þar er aðeins ákvæði um byggingu flugstöðvar og þar er það eitt ákveðið, að áætlanir að henni skuli endurskoðaðar og að framkvæmdir við hana skuli ekki hafnar nema öll ríkisstj. sé sammála. Þetta er eina ákvæðið sem segir að ríkisstj. eigi að vera sammála (KSG: Eru allar aðrar framkvæmdir heimilaðar?) Sem rétt yfirvöld taka. — Reyndar kom sami misskilningur fram, að mér heyrðist, hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni, en ég vona að hann sé leiðréttur.

Þetta er aukaatriði í sambandi við það mál sem hér er verið að ræða, en eigi að síður rétt að taka þetta fram alveg skýrt. Og það er líka rétt að taka annað fram. Ég sé að hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur bókina svo að hann getur fylgst með og athugað hvort ég fer ekki með rétt mál. (PS: Þetta er alveg rétt.) Það er annað. Þessi kafli hefur fyrirsögnina: Um utanríkismál o.fl. (PS: Það er hins vegar ekki rétt.) Ég held að engum lifandi manni hafi dottið í hug að telja Suðurnes utan íslenska ríkisins. Það er þess vegna alveg ljóst, að með þessu orðalagi, „og fleira“, er átt við þá setningu sem stendur þarna í kaflanum, að það skuli sérstakt átak gert í atvinnumálum Suðurnesja. Vissulega er ég sammála um að það skuli gert. Ég hygg að það sé reyndar eitthvað verið að vinna að áætlun í þeim efnum, eftir því sem ég best veit, af Þjóðhagsstofnun. En ég vil sem sagt afsala mér alveg því að bera ábyrgð á uppbyggingu á Suðurnesjum. Það heyrir ekki undir utanrrh. þó að þessari setningu sé þarna skotið inn í þann kafla og það megi sjálfsagt segja að það sé skothend setning á þeim stað.