27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

115. mál, Blönduvirkjun

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. iðnrh. svör hans. Ég hefði að vísu gjarnan viljað að þau væru nokkru ákveðnari en þau voru, en hann sagði þó eitthvað á þann veg, að ákvörðun yrði tekin í vetur því að nauðsynlegt væri að afla á yfirstandandi Alþingi þeirra heimilda sem þyrfti til næstu stórvirkjunar.

Hann tók ekki af skarið um að Blanda yrði næsta stórvirkjun. Ég held að ekki geti hjá því farið að hún verði það, ég held að það liggi svo beint við. Undirbúningur er þar lengst kominn og hún liggur langbest við sem sú virkjun sem ekki þarf einu sinni að taka ákvörðun um stóriðju í sambandi við, og um það eru meiri deilur en virkjanirnar.

Ég vil gjarnan undirstrika að ég er síður en svo andvígur því að ráðist verði í Fljótsdalsvirkjun samhliða Blönduvirkjun eða í beinu framhaldi af henni eða að einhverju leyti samhliða, það mætti hefjast handa við Fljótsdalsvirkjun áður en framkvæmdum við Blöndu yrði að fullu lokið. Þar verður að vísu að rísa stóriðja. Ég sagði „verður“ þó að ég vilji gjarnan segja að það væri æskilegt að þar risi stóriðja, en sumir eru því andvígir og mundu þess vegna telja það heldur miður. En auðvitað verður að ráðast í báðar þessar virkjanir og síðan einnig í Sultartangavirkjun í framhaldi af þessum tveimur stórvirkjunum. Það held ég að sé alveg ljóst.

En með hliðsjón af þessari skýlausu yfirlýsingu, að ákvörðun verði tekin nægilega tímanlega til að Alþingi geti nú veitt nauðsynlegar heimildir, hverf ég frá þeirri fyrirætlan, sem ég gat um áðan, að Alþingi sjálft taki af skarið strax. Það er að vísu illt að ákvörðun frestist um kannske tvo mánuði eða svo, því að auðvitað ætti að vinna nú af fullum krafti að þessu máli. Við það mun ég hins vegar una þegar ljóst er að heimildir fyrir stórvirkjun verða veittar á Alþingi því sem nú situr, a.m.k. einni stórvirkjun, sem auðvitað yrði þá Blanda, en helst tveimur þannig að engum blandaðist hugur um að við ætlum að feta braut stórvirkjana og þar með auðvitað að einhverju leyti líka að ráðast í orkufrekan iðnað, en þó auðvitað fyrst og fremst að styrkja alls konar smáiðnað. Er víst ekki vanþörf á að styrkja nú íslenska atvinnuvegi því að að þeim hefur sannarlega verið vegið og er vegið nú meir en nokkru sinni áður í sögu lýðveldisins.

Fljótlega mun sjást að fólk er að gera sér grein fyrir því, að það er alröng stefna að fresta framkvæmdum eins og virkjunarframkvæmdum og iðnaði í sambandi við þær. Það eru fjöldauppsagnir í uppsiglingu og þegar hafnar. Það er verið að bjóða heim atvinnuleysi á Íslandi, besta og ríkasta landi heimsins. Kjör fólks á Íslandi eru lakari en í nágrannalöndunum, en ættu að vera miklu, miklu betri. Öll skilyrði eru til þess ef ekki væri fylgt vinstri volæðisstefnu meira og minna í heilan áratug í staðinn fyrir að hraða uppbyggingu í þessu landi og gefa öllum borgurum færi á að lifa góðu lífi og ekki lakara en annars staðar.

Það er eins og keppt sé að því nú að kyrkja alla atvinnuvegi. Það er komið á lénsskipulag í landbúnaði, það er sorfið að iðnaðinum á öllum sviðum og það er verið að rugla allan fjárhag útvegsins, hverfa á ný til uppbóta- og haftakerfis. Verslunin er í kyrkingi. Það var gerð aðför að samgöngumálunum. Flugleiðir átti að drepa. Það er eins og vísvitandi sé að því unnið að lama framtak borgaranna, einkum ef það skyldi nú vera einkaframtak eða félagsframtak borgaranna, þá á auðvitað að lama það eftir kokkabókum vinstri manna og sósíalista og þeir fara ekkert dult með það. En það er líka verið að skera niður framkvæmdir ríkissjóðs og sameign borgaranna allra, eins og virkjunarframkvæmdirnar. Við þetta verður auðvitað ekki unað. Við verðum kannske að gera það einhvern svolítinn tíma í viðbót, á meðan versta stjórn sem setið hefur á Íslandi er enn við völd, en það verður vonandi ekki mjög lengi.

En ég endurtek þó þakkir mínar fyrir það og bið hv. þm. alla að leggja það vel á minnið sem hæstv. ráðh. sagði, að ákvarðanirnar verði teknar nægilega tímanlega til að allra heimilda verði aflað áður en þing fer heim. Það er rétt að menn leggi sér það á minnið vegna þess að ég treysti sannarlega hvorki þessum hæstv. ráðh. né öðrum ráðh. í hæstv. ríkisstj. — að kannske einum eða tveim undanskildum — til að standa við loforð sín nema eftir sé gengið.