27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

115. mál, Blönduvirkjun

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að bæta fáeinum orðum við eftir þá umr. sem hér hefur orðið.

Hv. fyrirspyrjandi gat þess í inngangi sínum að um væri að ræða frestun á framkvæmdum í sambandi við orkumál. Ef ég hef skilið hann rétt hefur hann átt við að þannig hafi æxlast á undanförnum árum. Ég vil rifja upp fyrir hv. þm. að það hefur verið aukið mjög verulega fjármagn til orkuframkvæmda í landinu, um hvorki meira né minna en nær 50% milli áranna 1979 og 1980, og samkv. fyrirliggjandi drögum að lánsfjáráætlun, sem fyrir þinginu liggja, er gert ráð fyrir að halda uppi a.m.k. sama framkvæmdamagni í sambandi við orkumálin og á s.l. ári. Betur hefur því ekki verið gert í þeim efnum áður, enda brýn ástæða til. Vissulega hef ég verið með tillögur um að fá meira fjármagn inn á þetta svið en menn hafa talið fært að verða við, en það er eins og gengur að ákveðin takmörk eru í sambandi við möguleika til fjármögnunar og framkvæmda.

Í sambandi við virkjunarframkvæmdir hefur ekki verið horfið frá stefnumiðinu um að taka Hrauneyjafossvirkjunina í gagnið á þeim tíma sem gert var ráð fyrir þegar ríkisstj. tók ákvörðun um þá virkjun í árslok 1976, ef ég man rétt, þannig að það verður fremur reynt að hraða gangsetningu hennar næsta haust frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir. Athuganir fóru fram á þessari framkvæmdaáætlun haustið 1978 og þær leiddu ekki til breytinga varðandi gangsetningu virkjunarinnar.

Hitt er svo annað mál, að það hafa fyrr á árum verið uppi tillögur og knúið á um það, m.a. af Austfirðingum og ég hygg úr fleiri áttum, að fá fram ákvarðanir og framkvæmdir í virkjunarmálum úti um landið, utan eldvirkra svæða, eins og nú hefur verið tekið upp í stjórnarsamning.

Hér var vikið að þeim virkjunarkosti öðrum sem helst hefur verið til umræðu í sambandi við næstu stórvirkjun fyrir landskerfið. Það féllu orð um að sú virkjun væri út úr myndinni vegna þess að núv. ríkisstj. vildi ekkert aðhafast í sambandi við orkufrekan iðnað eða framkvæmdir á því sviði. Það er ástæða til að nefna að þessi virkjun á Austurlandi, sem þar hefur verið í undirbúningi á undanförnum árum og alveg sérstaklega hert á undirbúningsrannsóknum í sambandi við hana á liðnu ári þar sem varið var nær milljarði gamalla króna til rannsókna á þeim virkjunarkosti, hún er í hópi okkar hagstæðustu virkjana, óháð því hvort um orkufrekan iðnað er að ræða eða ekki.

En einnig er til athugunar, eins og þingheimi er kunnugt og alþm. hafa léð liðsinni, að undirbúa og herða á athugunum varðandi orkunýtingu í landinu. Hv. þm. stóðu að því að samþykkja 200 millj.,kr. fjárveitingu til athugunar á orkufrekum iðnaði, sem er mun hærri fjárveiting, tífalt hærri fjárveiting en áður hefur sést til iðnrn. í þessu skyni, og ég er þakklátur fyrir þær undirtektir. Það verður reynt að sjá til þess að nýta það fjármagn sem best og fá til viðbótar, eftir því sem föng eru til, að athuga slíka kosti. Og ég er ekki þeirrar skoðunar, eins og fram hefur komið í þinggögnum frá stjórnarandstöðunni, að það geti fyrst orðið „þegar Íslendingum vex fiskur um hrygg“ að þeir standi fyrir slíkum fyrirtækjum sem húsbændur. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé verkefni okkar á næstu árum að reisa og reka slík fyrirtæki sem íslensk fyrirtæki og það sé fyllilega á okkar færi að gera það og tengja það virkjunum okkar á þessum áratug og framvegis með skynsamlegum hætti og fella það að þjóðarbúskap okkar þannig að við ráðstöfum okkar fjármagni og fjármagni, sem við getum fengið að láni, með sem skynsamlegustum hætti til að tryggja lífskjör í landinu. Og það þarf vissulega í sambandi við ákvarðanir um orkuöflun fyrir landskerfið á næstunni að hyggja að því að ekki skapist svipað vandræðaástand og nú ríkir í sambandi við raforkuöflun vegna þess árferðis sem ríkt hefur og hefur komið mönnum mjög á óvart.

Ég tel að það sé fyllilega unnt að standa við það stefnumið sem ríkisstj. hefur sett sér um að virkja utan Suðurlands, utan eldvirkra svæða, án þess að teflt sé í tvísýnu að þessu leyti, enda verði gerðar ráðstafanir á veituvirkjunarsvæði Landsvirkjunar á Suðurlandi til að bæta vatnsbúskapinn þar og bæta úr ísvandamálum sem hafa tekið til sín verulegt af því vatni sem Búrfellsvirkjun er ætlað og orðið hefur að nýta til að skola ís fram hjá virkjuninni að undanförnu, eins og komið hefur í ljós. Þetta eru framkvæmdir sem kosta fjármagn, en það er sjálfsagt að gera ráð fyrir því að standa að slíkum framkvæmdum á næstu árum áður en næsta stórvirkjun á eftir Hrauneyjafossvirkjun kemst í gagnið.

Auk þess er svo unnið að því, sem hv. þm. þekkja, að reyna að koma fjárfestingunni við Kröflu í gagnið. Við skulum vona að þar lægi jarðeld og takist að afla gufu fyrir þá virkjun þannig að hún verði einnig stór þáttur í orkuöflunarkerfi okkar.