27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

115. mál, Blönduvirkjun

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hef ekki tíma til eða nenningu á þessu stigi að efna til kappræðna við vin minn Eyjólf Konráð Jónsson, hv. landsk. þm., en hann er ákafamaður mikill og þolinmæðin ekki hans sterka hlið. Þó hefur hann í þessu máli, og það er mér ánægja að taka fram, ekki verið sá ákafasti. Hann hefur nefnilega alltaf, af því að hann er skynsamur að sumu leyti a.m.k., verið tilbúinn að gera nokkuð til þess að leysa þetta mál, en málinu hefur verið klúðrað vegna ákaflyndis þeirra manna sem vildu drífa upp virkjun með ólátum, hvað sem það kostaði, og ekki kanna aðra tilhögunarkosti. Þannig hefur tíminn liðið. Í staðinn fyrir að reyna að finna flöt, sem menn yrðu sæmilega sáttir á, hafa menn bitið sig í þann kost sem þeir litu á í fljótu bragði að mundi verða peningalega hagkvæmastur. Raunar hefur hann breyst heilmikið á þeim árum sem málið hefur verið til umræðu, en ekki þó kjarni málsins samt sem áður, þ.e. sú mikla landeyðing sem þarna verður, 56 ferkm. gróins lands og nokkrir ferkm af ógrónu. — En það hefði verið hægt að mynda um þetta samkomulag og er kannske hægt enn ef menn kæra sig um. Laxárdeilan, sem hér var minnst á, var búin til vegna ákaflyndis þeirra sem endilega vildu byggja hana sem stærsta, og þar réð allt of mikil stífni þeirra sem ætluðu að koma virkjun upp í stærsta formi.

Eyjólfur Konráð Jónsson tekur það réttilega fram, að kannske þurfi ekki endilega að byggja upp stóriðju í sambandi við Blönduvirkjun. Það er rétt, því að það er búið að byggja upp stóriðjuna á undan virkjununum. Nú seinast í gær var verið að slökkva á þessari delluverksmiðju sem þeir byggðu hérna um árið uppi á Grundartanga. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er alveg að verða búinn.

Það er sáttanefnd að störfum sem á að tala við hreppsnefndir fyrir norðan eða fulltrúa hreppsnefnda. Ég vona að þar verði skoðanaskipti skynsamleg. Það er ekki góðs viti að nefndin vildi ekki ræða við fulltrúa frá veiðifélögum Blöndu og Svartár á þeim fundi.

Menn hafa verið að draga mitt nafn inn í þessa umr. lítillega. Ég get sagt mönnum það, að ég er ekki sá eini sem hef aths. fram að færa við þessar ráðagerðir.