27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

115. mál, Blönduvirkjun

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég skildi hv. 5. þm. Suðurl. frá upphafi alveg rétt. Hann átti við að það væri enginn gígur á Sultartanga. En að eldvirknin hér sunnanlands hafi ekki áhrif á vatnið, sem rennur þar fram hjá, þarf enginn maður mér að segja, eða hafi ekki gert á umliðnum öldum.

Ég verð að minna hæstv. forseta vorn á það, að þegar ráðh. er búinn að tala tvisvar í svari við fsp. á hann engan meiri rétt á ræðutíma heldur en hver annar hv. þm., og það er líka greiði við hæstv. iðnrh. að aðgæta vel hans tíma. En hver verður næst, eins og fram kom hjá hv. 1. þm. Reykv., hver verður næst? Hæstv. iðnrh. hefur lýst því yfir, að það væri mikið og gott ráð að loka átverinu og stöðva það. Einn höfuðforustumaður Framsfl., formaður þingflokks flokksins, hv. þm. Páll Pétursson, kallar Grundartangaverksmiðjuna delluverksmiðju. Hver er svo næst? Hver ætlar að taka að sér áburðarverksmiðjuna til að mynda? Einhver úr flokksbrotabroti Gunnars Thoroddsen kannske? Það er þokkalegt upplit á þessum landsstjórnarmönnum vorum, ég segi ekki fleira.

Nei, hæstv. iðnrh. ber ekki Fljótsdalsvirkjun fyrir brjósti, hún stendur í honum. Það er ekki að bera fyrir brjósti, að kortéri fyrir andlátsstund ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar gaf hann í fáti út tilskipun um að nota heimildarlögin um Bessastaðaárvirkjun, rakvatnsvirkjunina frægu. Alþýðuflokksmaður, sem að vísu var líka í pólitískum andarslitum, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. minnist, stöðvaði þetta. En hæstv. núv. iðnrh. hefur enga tilraun gert til þess að fitja upp á þessu hugarfóstri sínu á nýjan leik. Það liggur alveg ljóst fyrir, að ef á að halda hér uppi velferðarríki, þá er þetta brýnasta verkefnið í dag, að virkja og leggja stórt undir. Við ráðum ekki við hinn háskalega húshitunarvanda nema með því að selja meginorkuna til stóriðju í eigu útlendinga og selja afgangsorkuna ódýrt — (Forseti hringir.) Ég er ekki búinn að tala hálfan tíma á borð við hæstv. iðnrh., en ég ætla samt að hætta. — Við erum með dragbíta í forustu í þessum málum, því miður.