27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

115. mál, Blönduvirkjun

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það væri freistandi núna að tala svolítið um íhaldssemi að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Reykv. Af því að ég er mikill sáttasemjari þótti mér vænt um það þegar hann taldi þó besta þá íhaldssemi sem væri tengd frjálslyndi, en það hefur alltaf fyrir mér verið sú lífsskoðun sem hæstv. forsrh. fylgir. Og líklega eru Heródes og Pílatus að verða vinir hans aftur.

En þar sem ég nefndi delluverksmiðju á Grundartanga, þá vísa ég til þess sem ég sagði þegar það mál var hér til umræðu tvisvar á undanförnum árum. Og hvað hafa menn svo hagnast á þessari verksmiðju? Áætlanir voru uppi um að tapa 4.8 milljörðum á rekstri hennar á þessu ári. Þetta er nú að verða nokkuð í líkingu við Kröflu.

Ég sagði áðan að ég væri ekki einn um að gera athugasemdir varðandi virkjun Blöndu. Íbúar úr þeim sveitarfélögum, kjörgengir íbúar, íbúar með kosningarrétt úr sveitarfélögum sem upprekstur eiga á Eyvindarstaða- eða Auðkúluheiðar, tóku fram í vetur með undirskriftum sínum að þeir gætu ekki fallist á fram komnar hugmyndir um Blönduvirkjun með stíflu við Reftjarnarbungu sem hefði í för með sér stórfellda eyðingu á gróðursælum afréttarlöndum. Undir þetta skrifuðu fjöldamargir íbúar þarna, á fjórða hundrað íbúar sem áttu heima á 111 bæjum. Ef menn vilja eða þegar menn vilja nýta vatn Blöndu til raforkuframleiðslu, þá verður að leysa það mál með sæmilegum friði, ekki berja niður með ofstopa réttmætar óskir landeigenda um siðferðilega meðferð á landinu. Og samkomulag felst í því, að menn mætist og taki tillit hver til annars, en ekki með því að ætla bara öðrum að láta undan og sletta svo í hann einhverjum aurum fyrir það.