27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

115. mál, Blönduvirkjun

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það var sannarlega tími til kominn að það yrði aðeins skrúfað upp í talsmönnum Alþfl. Fagna ég því að það heyrðist núna úr þeirri átt, með nokkuð svipuðum hætti að vísu og við höfðum heyrt hér stundum áður. Það er dálítið merkilegt að þeir skuli velja sér afstöðu sína til Kröfluvirkjunar í því samhengi, sem hér er til umræðu, og þá afstöðu, sem sá flokkur hafði meðan hann var nálægt stjórnvelinum fyrir fáum árum, að standa gegn framlögum til orkumála.

Ég vil hins vegar nota þann tíma til stuttrar athugasemdar, sem mér er veittur, til þess að víkja að því, þó að það felist ekki í þeirri fsp. sem hér var að vikið, sem snertir þann kostnað sem raforkufyrirtæki eins og Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða eiga fyrirsjáanlega við að glíma fram undan vegna raforkuvinnslu með olíu. Komið hefur fram fyrr í máli mínu, að það mál þurfi athugunar við. Við sjáum ekki fram úr því, hversu stór vandi þetta verður. Ég nefndi hér tölur sem snerta Rafmagnsveitur ríkisins og gætu hlaupið á 11–12 millj. nýkr. á þessum vetri, ef þyrfti að framleiða þau 22 mw. með olíu í 21/2 mánuð sem nú er gert. Svipaður kostnaður fellur til — ekki hvað upphæð snertir, ég vil ekki nefna það hér, því að ég hef það ekki handbært frá Orkubúi Vestfjarða, en til viðbótar hafa verið bornar fram óskir af hálfu Orkubúsins um að fá orku frá landskerfinu með öðrum kjörum og lægri en samningar hafa tekist um. Þau mál eru nú til athugunar og forstöðumönnum Orkubúsins hefur verið svarað bréflega um þau erindi sem þeir hafa fram borið að þessu leyti.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég sé að hæstv. forseti hefur fengið hér liðsmann til þess að stjórna fundi, og ég ætla ekki að ganga hér frekar á tíma þingsins þó að full ástæða væri til að ræða þessi mál enn frekar.