27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

359. mál, rekstur Skálholtsstaðar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég þóttist hafa svarað spurningum hv. fyrirspyrjanda mjög greinilega í löngu og ítarlegu máli, þó að þessi hv. þm. sjái ekki ástæðu til að þakka svörin. Er heldur óvenjulegt hér á Alþingi að svo sé tekið til orða.

Ef maður les spurningarnar og hefur jafnframt í huga þau svör sem ég gaf, þá held ég að flestir hv. alþm. hljóti að sjá að þeim spurningum, sem þar var beint til mín, var svarað. Fyrsta spurningin var: Hvernig er rekstri Skálholtsstaðar háttað og hvernig starfsemi fer þar fram? Í öðru lagi: Hvernig er ástatt um hið mikla bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns, sem geymt er í Skálholti? Hvernig er nýting þess og hvaða aðili hefur umsjón þess með höndum? Og loks: Hefur verið mörkuð stefna um framtíðarrekstur Skálholtsstaðar og hlutverk hans?

Ég gat þess m.a., að það er kirkjuráð, sem hefur umsjón og yfirráð staðarins með höndum. Það má deila um það, hvað þarna eigi að gera, hvað þarna eigi að framkvæma á staðnum svo að honum sé vel við haldið og hægt sé að sýna hann útlendingum, erlendum gestum.

Hv. fyrirspyrjandi spyr hvað þýði að reisa þarna bókhlöðu, fyrir hvern. Ekki þurfti að hlýða lengi á orð hv. fyrirspyrjanda til þess að skilja að það, sem fyrir þessum hv. alþm. vakir, er ekki hvernig hlutum sé fyrir komið í Skálholti, heldur er látið í það skína og raunar sagt ljóslega: Það eru of margar bækur í Skálholti. Það er veitt of mikið fé til staðarins. Það á ekkert að gera fyrir Skálholt. Eða þannig skildi ég hv. fyrirspyrjanda.

Bókasafnið er í engum höndum, segir þessi háttvirta frú. Ég svaraði því áðan, að ég tel að bókasafnið sé í góðri geymslu, þó að ekki sé um það búið eins og bókasöfn eiga og þurfa að vera sem ætluð eru til notkunar. Ber að harma það.

Hv. fyrirspyrjandi sagðist ekki vera að spyrja um neina óra í sambandi við Skálholt. Ég get ekki gert þá kröfu til þessa hv. þm., að hún melti allt efni þeirra svara, sem gefið var við þessum spurningum, núna á nokkrum mínútum. En hún ætti að hugleiða þessar fsp. sínar áfram og einnig það, sem hún sagði um Skálholt og lét í skína og raunar sagði með skýru orðalagi, að það væri of miklu til staðarins kostað að ástæðulausu.

Ég vil aðeins að lokum vekja athygli á því, að það, sem gert hefur verið í Skálholti — og ég held að mjög margir Íslendingar séu sammála um það, hefur gerst að mjög miklu leyti fyrir samskot erlendis frá. Ég hygg að erlendir fræðimenn, Norðurlandamenn og aðrir, kunni jafnvel að meta staðinn enn þá betur en sumir Íslendingar og jafnvel sumir hv. alþm. Þess vegna, eins og ég sýndi fram á, hafa fjárveitingar til staðarins verið af skornum skammti og miklu minni en gert var ráð fyrir í upphafi. Þess vegna mætti segja við hv. fyrirspyrjanda og jafnvel fleiri alþm. þegar höfð eru í huga hin miklu framlög og gjafir erlendra manna til Skálholtsstaðar: Eftir er enn yðvarr hluti.