27.01.1981
Sameinað þing: 42. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

32. mál, rafknúin járnbraut

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Hv. 1. flm., 1. þm. Suðurl., hefur gert þessu máli það góð skil, að ég þarf ekki að fara mörgum orðum um till. almennt. Ég vil þó leggja áherslu á nokkur atriði, sem ég tel að styðji það að þessi könnun verði gerð, þ.e. hvort hagkvæmt sé að upp verði komið rafknúinni járnbraut á mestu þéttbýlissvæðum suðvestanlands og austur fyrir fjall. Þau atriði, sem ég mun nefna, varða fyrst og fremst Suðurnes, þar sem ég er kunnugastur aðstæðum, enda hefur hv. 1. flm. till. rætt ítarlega um málið almennt og um möguleika og gildi þess að leggja járnbrautarlínu austur fyrir fjall.

Landfræðilega er leiðin til Keflavíkur hagkvæm fyrir lagningu járnbrautarlínu þannig að ekkert ætti að verða því tæknilega til fyrirstöðu, og varla verður ætlað að veðurfar mundi hamla slíkum ferðamáta sem hér er verið að ræða. Sá mannfjöldi, sem þarf að vera svo að hagkvæmt sé að setja á stofn járnbraut, er sennilega hvergi annars staðar fyrir hendi hér á landi. Íbúafjöldi Suðurnesja er um 13 þús. manns. Allnokkur fjöldi starfar á Keflavíkurflugvelli og frá Keflavíkurflugvelli fara nær allir farþegaflutningar til og frá landinu þannig að ef ekki reynist unnt að reka járnbraut til mannflutninga til og frá Suðurnesjum með tilliti til farþegafjölda og ferðatíðni, þá er það sennilega hvergi hagkvæmt hér á landi. Þar að auki má ekki gleyma því, að til umræðu hefur komið að leggja Reykjavíkurflugvöll niður og jafnvel að byggja nýjan flugvöll fyrir innanlandsflugið einhvers staðar í nágrenni Reykjavíkur. Að mínu viti væri réttara að nýta frekar Keflavíkurflugvöll fyrir innanlandsflugið, a.m.k. að verulegu leyti, svo sem raddir hafa komið fram um. En til þess að svo megi verða þarf tvennt að koma til. Í fyrsta lagi þarf að stytta ferðatímann milli höfuðborgarinnar og Keflavíkurflugvallar svo sem nokkur kostur er, t.d. með lagningu járnbrautar, og í öðru lagi þarf að byggja nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli, svo sem verið hefur til umræðu nú síðustu árin. Þá mundi flugstöðin verða endastöð járnbrautar. Sérleyfisbifreiðar Keflavíkur mundu þá hætta akstri til Reykjavíkur, en hefja akstur frá endastöð járnbrautar til allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Ég hef hér að framan eingöngu rætt um farþegaflutninga. En ekki má gleyma vöruflutningum. Nú þegar fara allmiklir vöruflutningar fram með bifreiðum milli Reykjavíkur og Suðurnesja, og ekki má gleyma því, eins og tekið hefur verið fram, að Keflavíkurflugvöllur er eini millilandaflugvöllur okkar Íslendinga. Mjög hafa aukist og munu trúlega aukast enn frekar á næstu árum flutningar með flugvélum til og frá landinu, en slíkir flutningar munu enn auka möguleika til hagkvæms rekstrar járnbrautar á þessari leið.

Þó ég hafi ekki sérstaklega tekið það fram, þá held ég að allir hv. þm. hafi áttað sig á því, að þegar ég ræði um járnbraut, þá á ég við — eins og þáltill. fjallar um — rafknúna járnbraut. Slík farartæki mundu draga verulega úr innflutningi á orkugjöfum og eru því gjaldeyrissparandi og enn fremur mundu þau draga verulega úr mengunarhættu og skapa aukið öryggi í fólksflutningum á þessu landsvæði, enda orðið örðugra að fá bensín og olíu keypt þó vilji og geta sé til að greiða hátt verð fyrir. Og ekki má gleyma því, að möguleiki til aukinnar rafmagnsframleiðslu á Suðurnesjum er verulegur umfram það sem þegar er í dag, svo að ekki ætti rafmagnsskortur að verða málinu til trafala.

Ég hef ekki hér handbærar tölur yfir umferð bíla á Reykjanesbraut, en úr henni mundi verulega draga og slysahættan minnka mjög, en vegurinn í núverandi ásigkomulagi er beinlínis hættulegur í rigningu og bleytu, svo ekki sé minnst á hálkuna.

Að lokum vil ég eindregið mæla með því, að ríkisstj. verði falið að láta þessa könnun fara fram, en tel rétt að henni verði skipt í áfanga þannig að unnt sé að meta stöðuna og taka ákvörðun um framhald hennar miðað við niðurstöður á hverjum tíma. Þá legg ég og áherslu á að innlendum aðilum verði falið að vinna eins mikið að verkinu og unnt er í samráði við hæfa erlenda aðila. En með tilvísun til þeirra orða, sem fram komu hjá hæstv. ráðh. áðan um þá álitsgerð sem komið hefur frá Orkustofnun, þá tel ég það álit varla fullnægjandi í þessu máli, með fullri virðingu fyrir þeim starfsmönnum Orkustofnunar sem unnið hafa þetta verk. Ég tel að til þess þurfi miklu meiri athugun og könnun en þegar hefur farið fram, og legg því til að till. verði samþykkt.