27.01.1981
Sameinað þing: 42. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

78. mál, framtíðarskipan lífeyrismála

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég harma það, að svo fáir þm. sjá ástæðu til að sitja hér í þingsölum og ræða það mál sem hér er á dagskrá, lífeyrismálið, vegna þess að ég tel að það mál sé þess eðlis að það þurfi að fá rækilega umfjöllun hér í þingsölum.

Ég hef leyft mér ásamt nokkrum þm. Alþfl. að flytja þáltill. um framtíðarskipan lífeyrismála, á þskj. 84. Varla fer á milli mála að eitt mesta þjóðfélagslega ranglæti, sem við stöndum frammi fyrir í dag, er misréttið í lífeyrismálum. Um 60 ár eru nú liðin síðan fyrstu lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir hér á landi, voru það sjóðir á vegum ríkis og bæja, og fylgdi síðan í kjölfarið stofnun sjóða á vegum stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda. Árið 1970 var stórt skref stigið í lífeyrisréttindamálum með stofnun hinna almennu lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna og skylduaðild launþega að lífeyrissjóðum 1974. Og enn náðist stór áfangi með samþykkt frv. um eftirlaun til aldraðra á síðasta ári, sem færði mörgum réttindi sem staðið höfðu utan við lífeyriskerfið og höfðu ekki notið annarra réttinda en lífeyrisgreiðslu almannatrygginga. Enn er langt í land að uppræta það misrétti sem hér ríkir, og verður það að teljast skylda stjórnmálamanna að sameinast um að finna leiðir til þess að allir sitji við sama borð í þessu efni.

þáltill., sem hér liggur fyrir til umræðu, var lögð fram í nóvemberbyrjun, en síðar á þessu þingi var svo lagt fram endurflutt frv. sjálfstæðismanna um Lífeyrissjóð Íslands. Þótt í báðum þessum málum sé stefnt að sama marki: að koma á gegnumstreymiskerfi lífeyrissjóðsmálum sem tryggi öllum verðtryggðan lífeyri, er þó um veigamikinn mismun að ræða í mörgum atriðum að því er varðar leiðir að settu marki. Mun ég koma að því síðar í mínu máli. Engu að síður lít ég á það sem veigamikið atriði að stjórnmálaflokkarnir setji fram sjónarmið sín í lífeyrismálum og kynni hvaða leiðir þeir vilja fara. Síðan er nauðsynlegt að úr þeim till. verði unnið og reynt að samræma hin ýmsu sjónarmið í samráði við aðila vinnumarkaðarins þannig að hægt sé að finna leiðir til þess að allir sitji við sama borð í lífeyrisréttindamálum.

Þegar lítið er til lífeyrissjóðsmálanna, þá hefur þróunin með vaxandi verðbólgu orðið sú, að þeir hafa fjarlægst mjög sitt upprunalega markmið: að tryggja öllum, sem eru komnir á ellilífeyrisaldur, viðunandi lífskjör að lokinni starfsævi. Það er orðinn veigameiri þáttur í starfsemi sumra sjóðanna að vera lánasjóðir en að sinna sínu upprunalega hlutverki: að tryggja öldruðum fjárhagslegt öryggi þegar þeir hafa skilað sínu dagsverki. Þetta á sér ugglaust margar skýringar. Lítil eða engin samræming er á milli þessara mörgu lífeyrissjóða, og búa sjóðsfélagar hinna ýmsu sjóða við mjög mismunandi lífeyriskjör. Þeir, sem hafa undanfarin ár búið við best kjör að þessu leyti, eru, eins og vitað er, opinberir starfsmenn, bankamenn og nokkrir aðrir starfshópar. Hafa þeir búið við fullan verðtryggðan lífeyri. Hefur því verið um að ræða gífurlegan aðstöðumun á milli lífeyrisþega. Og eftir því sem verðbólgan er meiri eykst þessi munur á lífeyrisgreiðslum. Segja má að óréttlætið hafi vegið þyngra en ella þar sem það gefur auga leið að verðtrygging á lífeyri opinberra starfsmanna hlýtur að vera á kostnað allra skattborgara í landinu, þótt einungis lítill hluti þeirra hafi notið fullrar verðtryggingar.

Eftir því sem árin hafa liðið hefur komið æ skýrar í ljós hvað óréttlætið er mikið og hvað lífeyrissjóðirnir almennt eru vanbúnir til að standa við skuldbindingar sínar, sem hefur grundvallast á þeirri meginreglu, að uppsöfnun og ávöxtun — yfirleitt til 30 ára — eigi að standa undir lífeyrisgreiðslum sjóðsfélaga.

Útreikningar sýna að við 67 ára aldur hafa sjóðfélagar almennt greitt sem svarar þrennum árslaunum í iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóða, en þá er talið að ólifuð meðalævi sé um 14 ár. Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga eru þó taldar nægja til að greiða lífeyri hans í nokkra mánuði. Eftir því sem sjóðurinn er eldri og ellilífeyrisþegum fjölgar í viðkomandi lífeyrissjóði verður sífellt erfiðara fyrir sjóðinn að standa við skuldbindingar sínar, og nú er svo komið að það er tímaspursmál með marga sjóði hvenær þeir verða hreinlega gjaldþrota. Og þó að lagfæringar hafi verið gerðar hjá þeim sem tóku óverðtryggðan lífeyri og hafa þurft að búa við mjög ófullnægjandi ellilífeyrisgreiðslur, þá eru þær mjög óverulegar og vantar mikið á að um fulla verðtryggingu sé að ræða, auk þess sem lífeyriskerfið felur tíka í sér mikið ósamræmi sem gerir mörgum kleift að taka ellilífeyri úr fleiri en einum sjóði samtímis.

Sú staðreynd, að lífeyrissjóðirnir og atmannatryggingakerfið vinna bæði að sama markmiði án þess að taka tillit hvort til annars, veldur því, að t.d. lífeyrir ellilífeyrisþega í verðtryggðum lífeyrissjóði getur orðið hærri en laun hans voru ef ellilífeyrir almannatrygginga er talinn með. Annar lífeyrisþegi í óverðtryggðum lífeyrissjóði fær aftur á móti lífeyri sem er kannske lítið hærri en ellilífeyrir almannatrygginga þrátt fyrir langan réttindatíma. Þannig er misræmið víða. Og eitt er víst, að þetta kerfi stenst ekki til lengdar og tími til kominn að þetta mál verði tekið föstum tökum og það fljótt, áður en við stöndum frammi fyrir þeim vanda að lífeyrissjóðirnir verði gjaldþrota hver á fætur öðrum. Því hlýtur það að vera gegnumstreymiskerfið sem við tekur, þar sem miðað er við að iðgjöld allra greiðenda mæti jafnóðum uppsöfnuðum réttindum lífeyrisþega og allir hafi sama rétt til fullnægjandi ellilífeyrisgreiðslna á grundvelli ævitekna, jafnframt því sem tryggt sé að allir njóti ákveðins lágmarkslífeyris. Með því yrði kastað fyrir róða því sem lífeyrissjóðirnir hafa byggst á og staðreynd er að þeir standa ekki undir til lengdar, en það er uppsöfnunarkerfið, að sérhver sjóðfélagi standi að meðaltali undir lífeyri sínum með sínum iðgjaldagreiðslum, en eins og ég nefndi áðan geta iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga ekki í raun staðið undir lífeyrisgreiðslum til þeirra nema í nokkra mánuði.

Samræming og sameining í eitt heildarkerfi er auðvitað viðamikið, flókið og vandmeðfarið verkefni. Nefndir hafa verið skipaðar til að finna sameiginlegan flöt og leiðir að því marki sem allir gætu fallist á og staðið að. En sjóðirnir eru, eins og ég hef sagt, með mjög mismunandi reglur og hafa vitaskuld yfir mismunandi miklu fjármagni að ráða og staða þeirra því mjög misjöfn. Og þó að allir séu sammála um að samræming og verðtryggð sambærileg réttindi til allra landsmanna séu það sem koma skal, þá eru enn skiptar skoðanir um leiðir að settu marki. Ágreiningurinn er ekki hvað síst um það, hvað eigi að verða um það fjármagn sem fyrir er í núverandi lífeyrissjóðum. Eiga þær greiðslur, sem greiddar hafa verið í núverandi sjóði, að flytjast með sjóðfélaganum þegar hann gengur í hinn nýja sameiginlega sjóð og umbreytast þar strax í stig og áunnin réttindi við inngöngu í sjóðinn, og iðgjöld, sem hann hefur greitt í sinn fyrri lífeyrissjóð — hvort sem um er að ræða hluta launþega eða atvinnuveitanda — og önnur uppsöfnun í sjóðnum, svo sem vaxtatekjur og aðrar eignir, að skoðast sem hluti af launum viðkomandi launþega og þar af leiðandi ótvíræð eign hans, en það er sú leið sem valin er í þessari þáltill., — eða er hin leiðin æskilegri, sem sjálfstæðismenn leggja til, að t.d. lífeyrissjóður, sem flytur lífeyrisgreiðslur félaga sinna yfir í hinn sameiginlega lífeyrissjóð, greiði aðeins að hluta til sem svarar iðgjaldagreiðslum sem sjóðfélagi hefur greitt í sjóðinn, óháð því hvað hver og einn hefur greitt lengi í sjóðinn, en það gefur auga leið að um mjög mismikla uppsöfnun er að ræða hjá hverjum sjóðfélaga um sig?

Annað ágreiningsefni er kannske einnig þetta: Á að stefna að skylduaðild í þessum almenna lífeyrissjóði, eða er lífeyrissjóðunum, ef þeir geta boðið sambærileg verðtryggð réttindi og þessi sameiginlegi lífeyrissjóður, heimilt að starfa áfram? Þetta er einnig mikilvægt atriði sem taka verður afstöðu til. Ekki síður er mikilvægt að taka afstöðu til og ná samstöðu um hvor leiðin skuli valin: að hér verði um sjóð að ræða sem hefði eingöngu á hendi ellilífeyrisgreiðslur, eins og þessi þáltill. gerir ráð fyrir, en aðrar bætur, svo sem örorkulífeyrir og barnalífeyrir, verði alfarið í umsjá Tryggingastofnunarinnar — sem ætti þá að vera á færi Tryggingastofnunarinnar að hlúa betur að ef greiðslum ellilífeyris yrði létt af stofnuninni, — eða er sú leið æskilegri, sem sjálfstæðismenn leggja til, að fleiri bóta- og tryggingagreiðslur verði einnig á hendi þessa sameiginlega sjóðs? Að þessu atriði ber að huga vel, því að það hefur vitaskuld veruleg áhrif á hvor leiðin verður farin hver iðgjaldaprósenta verður sem launþegar þurfa að greiða af sínum launum, og verður því að skoða það í ljósi þess. En það gefur auga leið, að ef sjóðurinn ætti að standa undir fleiri lífeyrisgreiðslum en eingöngu ellilífeyri mundu iðgjaldagreiðslur þurfa að hækka verulega.

Ein spurning er einnig: Hver á að vera lágmarkslífeyrir eða grunnlífeyrir? Í þessari þáltill. er um ræða verulega hærri lágmarkslífeyri en í frv. sjálfstæðismanna.

Fleiri atriði eru einnig í þessari þáltill., sem ekki er gert ráð fyrir í frv. sjálfstæðismanna, sem ég mun gera grein fyrir hér á eftir. Mikilvægt er þó að hafa í huga, þegar allir virðast vera sammála um að koma á samfelldu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn sem tryggi öllum verðtryggðan lífeyri, að leitað verið sameiginlegra leiða til að samræma þau misjöfnu sjónarmið sem uppi eru í einstökum atriðum, en við látum þau ekki verða til þess að tefja það enn frekar en orðið er að slíku kerfi verði komið á. Og þó ég hafi í stuttu máli gert grein fyrir mismun á tveim till., sem hér liggja fyrir Alþingi nú um þetta efni, þá er í veigamiklum atriðum um svipaðar leiðir að ræða í þeim til að ná því marki sem að er stefnt. Till. um hvernig ná skuli settu marki hafa ekki komið fram frá öðrum flokkum svo að ekki er unnt að gera samanburð á þeim.

Ef tekið verður upp gegnumstreymiskerfi og sjóðfélögum starfandi lífeyrissjóða verður gert kleift að yfirfæra gjörvallan eignarhluta sinn í sínum fyrri lífeyrissjóði yfir í hinn sameiginlega sjóð skapast viss vandi sem jafnframt verður að leysa, en það er sá stóri þáttur sem sumir lífeyrissjóðirnir hafa haft á hendi og fólginn er í lánastarfsemi til húsbyggjenda. Það er staðreynd, að lánastarfsemi lífeyrissjóða hefur hjálpað fjölmörgum ungum fjölskyldum til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. En það er engu að síður ljóst, að húsnæðismálakerfið og þeir lánamöguleikar, sem fyrir hendi hafa verið í lífeyrissjóðunum, hefur einkum hin síðari ár með vaxandi verðbólgu hvergi nærri uppfyllt það að standa undir lánsþörf húsbyggjenda. Verður að telja að á meðan sú lánastarfsemi hefur verið fyrir hendi, sem lífeyrissjóðirnir bjóða, hafi það vafalítið orðið til þess að slæva vitund og árvekni stjórnmálamanna til að koma á fót öflugu húsnæðislánakerfi.

Þegar litið er til þess, að lífeyrissjóðirnir eru flestir hverjir ungir að árum og heildargreiðslur lífeyris hafa því verið tiltölulega litlar, er engu að síður ljóst að slíku verður ekki að heilsa er fram líða stundir og greiðslubyrði leggst með fullum þunga á sjóðina. Þá verður útséð um það, að byggingarlán eða ríkisaðstoð mun ekki koma frá lífeyrissjóðunum, því þá munu þeir sjálfir eiga fullt í fangi með að standa undir útgjöldum sínum. Þegar kröfur um fullar verðbætur og lægri lífeyrisaldur koma til framkvæmda munu því flestir lífeyrissjóðir að óbreyttu kerfi stefna beint í gjaldþrot. Með núverandi fyrirkomulagi munu sjóðirnir því í framtíðinni ekki geta staðið að fjármögnun húsnæðislánakerfisins, fjárfestingarlánasjóða eða fjármögnunarvanda ríkissjóðs og reyndar ekki einu sinni geta risið undir greiðslu lífeyris. Því verður ekki undan vikist að finna lausn á þessum vanda, bæði að því er varðar lífeyrismálin og fjárþörf vegna byggingarlána sem lífeyrissjóðirnir hafa staðið undir hingað til.

Með framkvæmd hugmyndarinnar um hreinan lífeyrissjóð ber því samhliða brýn nauðsyn til að huga betur að húsnæðismálum, sérstaklega með lánaþörf ungs fólks í huga, og verður í því sambandi að gera ráðstafanir til að flýta því 80% lánahlutfalli sem að er stefnt í húsnæðislánakerfinu. Samhliða væri hægt að beina því fjármagni, sem ríkissjóður hefur greitt í verðtryggingu og greiðslur vegna ellilífeyris starfsmanna sinna, inn í húsnæðislánakerfið. Gæti það verulega flýtt fyrir að ná því markmiði, að hér væri komið á fót öflugu húsnæðislánakerfi sem gæti staðið að fullu undir lánaþörfinni. Á fjárlögum 1981 má lauslega áætla að ellilífeyrir og tekjutrygging og heimilisuppbót séu um 45–46 milljarðar gamalla kr. og uppbætur á lífeyri ríkisstarfsmanna 6.7 milljarðar, einnig gamalla kr. Það fjármagn mætti renna inn í húsnæðislánakerfið og einnig til að Tryggingastofnuninni yrði gert kleift að standa undir hærri bótagreiðslum, t.d. til örorkulífeyrisþega. Sú upphæð, sem til þessa gæti runnið á þessu ári, ef við tökum það sem dæmi miðað við að þetta kerfi kæmist á, væri því um 54 milljarðar gamalla kr.

Segja má að kröfur verkalýðshreyfingarinnar um fullar verðbætur líkt og opinberir starfsmenn hafa séu sjálfsagðar og eðlilegar. En þær eru hins vegar óframkvæmanlegar meðan ekki er gerð kerfisbreyting. Án kerfisbreytingar verður kröfunni ekki mætti nema með ríkisstyrk sem leiðir í reynd til þyngri skattbyrði.

Ef tekið er dæmi um mismunun og í hvaða óefni getur stefnt má benda á Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Til að sjóðurinn geti gegnt hlutverki sínu sem lánasjóður svo og greitt mun betri verðbætur ásamt lægri lífeyrisaldri en almennt gerist þarf aðstoð ríkisins að koma til, því sjóðurinn sem slíkur stendur ekki undir sér. Í heildarupphæðum reiknað þarf 18% iðgjald til að dæmið standist, en verðbætur ríkissjóðs munu nema sem svara 8% iðgjaldi. Núverandi kerfi annarra launþega gefur ekki slíka möguleika til verðbóta. Slíkt væri einungis mögulegt í gegnumstreymiskerfi allra iðgjaldagreiðslna, og vegna hagstæðrar aldursskiptingar þjóðarinnar er ólíklegt að hærra iðgjald en um 11% þurfi að koma til í slíku kerfi sem hér er lagt til til þess að veita öllum landsmönnum svipuð kjör hvað snertir upphæð lífeyris og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins veitir félögum sínum í dag.

Herra forseti. Ég vil að lokum geta nokkurra helstu efnisþátta sem fram koma í þáltill. þeirri sem hér liggur fyrir.

Í fyrsta lagi verði komið á samfelldu lífeyriskerfi sem tryggi öllum verðtryggðan lífeyri á sömu forsendum. Áhersla er lögð á sveigjanleika í töku lífeyris þannig að hann geti hafist fyrir 67 ára aldur ef ástæða þykir tit, og einnig gæti verið um hluta af lífeyri að ræða áður en 67 ára aldri er náð, ef menn af einhverjum ástæðum óska að stytta vinnutíma sinn, t.d. eftir að 60 ára aldri er náð.

Í öðru lagi er ein orsök þess, að ekki hefur enn tekist að koma á einum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn, sú, að í gegnum áranna rás eru tekjustofnar og eignir sumra sjóðanna orðnar gífurlegar og því eru stjórnir sumra sjóðanna ófúsar að sleppa hendi af þeim fjármunum og smákóngaveldi sem því fylgir. Engin samstaða hefur náðst um hvernig fara eigi með þá fjármuni og eignir sem safnast hafa upp í sjóðnum ef koma á einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Því er í þessum till. lögð áhersla á að ekki sé heppilegt að beita lögþvingun og lögbjóða þegar í stað að allir starfandi lífeyrissjóðir sameinist í einn sjóð. Sú leið þykir vænlegri til árangurs að fyrsta skrefið verði að koma á samfelldu lífeyriskerfi og samræmdum reglugerðarákvæðum fyrir þá sjóði, sem kjósa að starfa áfram, þannig að þeir verði að uppfylla ákveðin skilyrði um verðtryggingu lífeyris og iðgjaldagreiðslur og ávöxtun fjár auk ákveðinnar félagatölu sem tryggi raunhæfa lágmarksstærð sjóðanna.

Í till. er því lagt til að fyrst í stað verði það lögboðnu sjóðirnir sem sameinist í einn verðtryggðan sjóð. Aðrir lífeyrissjóðir eiga rétt á inngöngu í þennan sjóð, og með víðtæku samkomulagi við launþegasamtökin og viðkomandi aðila skal leitast við að sem flestir landsmenn gerist félagar sjóðsins. Í raun hlýtur þetta fyrirkomulag því að verða þannig, að lífeyrissjóðir, sem kjósa að starfa áfram, verða m.a. að uppfylla ákveðin skilyrði um verðtryggingu lífeyris og verða því að geta boðið sjóðfélögum sínum sömu kjör og þessi sjóður þar sem sjóðfélagi getur nú valið um að ganga inn í þennan sjóð ef hann veitir betri réttindi.

Þriðja mikilvæga atriðið er að þegar sjóðfélagi skiptir um sjóð, þá beri honum réttur til þess að yfirfæra gjörvallan eignarhluta sinn með sér, þ.e. bæði þann hluta, sem hann hefur lagt í sjóðinn með iðgjöldum sínum, og iðgjöld, sem atvinnurekendur greiða á móti, auk þess — sem er mjög mikilvægt einnig — að hann fái í hlutfalli við framlög sín hlutdeild í eignum og vaxtatekjum sjóðsins, sem óhjákvæmilega hlýtur að verða að skoðast sem eign launþeganna sjálfra. Sjóðfélaginn flytur því með sér allan eignarhluta sinn yfir í hinn nýja sjóð sem síðan myndar uppistöðuna að þeirri stigasöfnun hans í sjóðnum sem ákvarðar lífeyrisréttindi hans.

Í fjórða lagi er ljóst að það uppsöfnunarkerfi, sem lífeyrissjóðirnir byggja á í dag, er úrelt og getur ekki staðið undir verðtryggðum lífeyri. Sjóðirnir munu einn af öðrum, eins og ég hef sagt, verða gjaldþrota í næstu framtíð ef lífeyririnn væri verðtryggður. Koma verður því á gegnumstreymissjóði þar sem miðað er við að iðgjöld allra greiðandi mæti jafnóðum uppsöfnuðum réttindum lífeyrisþega. Gegnumstreymiskerfið mun tryggja fullar verðbætur án þess að fjárhagsgrundvöllur lífeyris sé í hættu.

Í fimmta lagi verði réttur til lífeyris í megindráttum þannig að tryggður verði lágmarkslífeyrir sem allir öðlist án tillits til iðgjalda, en síðan komi viðbótarlífeyrir sem ávinnst með iðgjaldagreiðslum. Meginhugmyndin er því að lífeyrir verði aldrei undir ákveðnu lágmarki sem viðunandi getur talist til afkomuöryggis, auk þess sem lífeyririnn verði að einhverju leyti í samræmi við fyrri kjör. Þar sem á skortir að lágmarksréttindi náist getur mismunurinn annaðhvort fjármagnast með hluta af iðgjöldum hátekjumanna eða gegnum almannatryggingakerfið.

Í þessum till. er gert ráð fyrir að lágmarkslífeyrir verði ekki lægri en sem nemur 350 þús. gamalla kr. á mánuði miðað við 1. des. s.l. Í reglugerð yrði síðan að kveða á um hámarkslífeyrisgreiðslur, og mætti hugsa sér t.a.m. að þegar iðgjöld og yfirfærð réttindi umreiknuðust í stig, þá yrði sett ákveðið hámark eða að í yfirfærðum réttindum kostuðu stigin meira, eftir ákveðnum reglum sem settar yrðu, eftir því sem greitt yrði af hærri tekjum. — Þannig skapaðist ákveðið jafnvægi milli lágmarks- og hámarkslífeyris. En hér er um útfærsluatriði að ræða sem setja yrði ákveðnar reglur um. Einnig er gerð till. um þann möguleika, að frjáls framlög, sem greidd eru í sjóðinn umfram skylduiðgjöld, gætu gefið hækkaðan lífeyri, og er þar um sparnaðarform að ræða ef menn kjósa að tryggja sig enn frekar í ellinni.

Í sjötta lagi er lagt til að sameiginleg stig, sem hjón eða sambúðarfólk ávinnur sér með iðgjaldagreiðslum, verði lögð saman og skipt til helminga á sinn hvorn sérreikning, þannig að samanlagðar tekjur hjóna eru lagðar til grundvallar og mynda jöfn réttindi til ellilífeyris. Er þetta ákvæði nauðsynlegt til að tryggja húsmæðrum t.a.m. fullan rétt til ellilífeyris á við fólk á vinnumarkaðnum.

Í sjöunda og síðasta lagi er lagt til að aðrar bætur tryggingakerfisins en ellilífeyrir verði í umsjá Tryggingastofnunar ríkisins, því ljóst er að ef lífeyrissjóðurinn yfirtæki aðra bótaflokka tryggingakerfisins einnig þyrftu iðgjöld að hækka svo verulega að launþegar mundu ekki standa undir þeim, einkum lágtekjufólk. Leggja verður því jafnframt áherslu á endurskoðun bótagreiðslna, t.a.m. örorkulífeyris, þannig að almannatryggingakerfinu verði gert kleift að greiða hann á sama grundvelli og lífeyrissjóðurinn ellilífeyri, þ.e. að afkomuöryggi sé tryggt þegar um varanlega örorku er að ræða. Einnig verður að athuga sérstaklega að aðrar bætur skerðist ekki frá því sem nú er við þessa breytingu, svo sem barnalífeyrir og örorkulífeyrir, eins og ég nefndi hér áðan.

Herra forseti. Hugmynd þeirri, sem hér er lögð fram, er ætlað að stuðla að auknu jafnrétti fyrir þá, sem nú búa við misjöfn skilyrði ólíkra lífeyrissjóða, svo og fyrir þá, sem ekki geta stundað störf á vinnumarkaði vegna heimilisstarfa. Hugmyndinni er enn fremur ætlað að stuðla að fjárhagslega traustu lífeyriskerfi sem einungis skal beitt í þágu lífeyrisþega sjálfra. Lífeyrismálin og lífeyrissjóða kerfið eru flókin mál og umfangsmikil, en meginmarkmiðið með þessum tillöguflutningi er sú heildarstefna, sem í till. felst, fremur en tilteknar tæknilega útfærslur í smáatriðum.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að till. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.