28.01.1981
Efri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og kunnugt er voru samþ. ný skattalög á s.l. vetri sem munu hafa í för með sér verulegar breytingar á fyrirkomulagi skattaálagningar frá því sem áður var. Eftir að álagning hefur farið fram í fyrsta sinn eftir þessum nýju lögum er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að ýmsar lagfæringar verði gerðar á lögunum í ljósi fenginnar reynslu.

Hins vegar er því miður ekki komið að því að unnt sé að taka afstöðu til ýmissa atriða sem varða álagningu tekjuskatts enn þá þar sem enn liggja ekki fyrir upplýsingar á grundvelli tölvuútskrifta um ýmis atriði sem athugunar þurfa við. Ríkisstj. er því ekki reiðubúin að leggja fram tillögur sínar um hvaða breytingar verði gerðar á tekjuskattslögum.

Eins og kunnugt er hafa nefndir unnið að þessum málum. Ein nefnd hefur sérstaklega fjallað um skattamál bænda, önnur nefnd hafði sérstaklega til athugunar skattamál einstæðra foreldra, og auk þess var skipuð sérstök nefnd með einum fulltrúa frá hverjum þingflokkanna til að þingflokkarnir allir ættu aðgang að upplýsingum og gætu rætt um reynslu af álagningu seinasta árs. En því miður verður að segja það sama um allar þessar þrjár nefndir, að þær hafa ekki starfað sem skyldi og ákaflega sjaldan komið saman vegna þess að fram að þessu hefur vantað þær grundvallarupplýsingar sem beðið hefur verið eftir og hafa verið til vinnslu hjá Skýrsluvélum ríkisins. Er það raunar með ólíkindum hversu lengi hefur dregist að þessar upplýsingar yrðu tiltækar, því að æðimargir mánuðir eru liðnir síðan um þær var beðið. En mér er sagt að biðlistinn hjá Skýrsluvélum ríkisins sé ákaflega langur og að það hafi hreinlega ekki unnist tími til þess að vinna þetta verk. Hins vegar eru þessar upplýsingar að berast þessa dagana, og ég á von á að góður skriður komist á athugun þessara mála á næstu dögum.

Tvö atriði í sambandi við hugsanlegar eða áformaðar breytingar á tekjuskattslögum þola aftur á móti enga frekari bið vegna þess að þau atriði tengjast beinlínis framtölum einstaklinga, en eins og kunnugt er lýkur framtalsfresti einstaklinga til tekjuskatts 10. febr. n.k. Þessi atriði verður að taka út úr og afgreiða sérstaklega. Frv. þessa efnis var því lagt fram daginn áður en þm. fóru í jólaleyfi, en það er frv. til l. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, sem er 189. mál þingsins, á þskj. 358. Þessi ákvæði varða annars vegar svokallaða verkfærapeninga iðnaðarmanna og hins vegar frádrátt einstaklinga frá tekjuskatti, áður en hann er á lagður, vegna vaxtaútgjalda.

Með lögum nr. 40/1978 voru gerðar róttækar breytingar á frádráttarheimildum. M.a. fólu þær í sér að launþegum var veitt heimild til frádráttar á 10% af launatekjum, en jafnframt voru felldir niður möguleikar til frádráttar vegna ýmissa kostnaðarliða launþega, og verkfærakostnaður iðnaðarmanna var þar á meðal. Í tengslum við kjarasamninga í okt. s.l. gaf ríkisstj. út yfirlýsingu um ýmiss konar ráðstafanir sem áttu að auðvelda lausn deilunnar. Í þessari yfirlýsingu var því m.a. heitið, að fjmrh. beitti sér fyrir breytingum á tekjuskattslögum á þá lund að kostnaður launþega í löggiltum iðngreinum vegna kaupa á handverkfærum yrði frádráttarbær frá tekjum.

1. gr. frv. er í fullu samræmi við þessa yfirlýsingu. Þar er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri setji nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis og geti hann ákveðið hámark árlegs frádráttar mismunandi eftir iðngreinum. Jafnframt, og í fullu samræmi við það samkomulag sem gert var á s.l. hausti um þetta atriði, er gert ráð fyrir að hljóðfæraleikarar megi draga frá ákveðna upphæð upp að vissu marki í sama tilgangi.

Í E-lið 30. gr. tekjuskattslaga, 1. tölul., eru ákvæði um vaxtaútgjöld. Þar segir, með leyfi forseta: „Vaxtagjöld, afföll og gengistöp samkv. 2. málsgr. 51. gr., enda séu gjöld þessi vegna fasteignaveðskulda til þriggja ára eða lengri tíma sem sannanlega eru notaðar til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.“

Þessi málsliður verður nú varta skilinn öðruvísi en að upphaf greinarinnar sé lesið, en þar stendur:

Frá tekjum manna samkv. II. kafla laga þessara, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má sem sagt draga gjöldin sem ég nú nefndi. Það eru vaxtagjöld, afföll og gengistöp. — „Sama gildir um vaxtagjöld vegna annarra skulda sem sannanlega er stofnað til vegna kaupa eða nýbyggingar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, en slík vaxtagjöld er þó aðeins heimilt að draga frá tekjum á næstu tveimur skattárum, talið frá og með kaupári eða á næstu fjórum árum talið frá og með því skattári sem bygging er hafin á.

Frádráttur samkv. þessum tölulið má aldrei vera hærri en nemur þeirri fjárhæð sem þau vaxtagjöld, er um ræðir í 1. málsgr. þessa tölul., eru umfram vaxtatekjur samkv. 3.–5. tölulið 1. málsgr. 8. gr., og aldrei má frádráttur þessi nema hærri fjárhæð en 1 millj. og 500 þús. kr. Hjá hjónum skal þetta hámark vera helmingi hærra.“

Síðan segir í viðbótargrein að þetta ákvæði komi ekki til framkvæmda fyrr en við álagningu skatta á árinu 1981 vegna tekna ársins 1980.

Rétt er að vekja á því athygli, að þessi frádráttarheimild er tengd skattvísitölu og hækkar því þessi tala sem nemur hækkun skattvísitölu hverju sinni. Nú hefur skattvísitala verið ákveðin í fjárlagafrv. 145, miðað við 100 á seinasta ári, hækkar sem sagt um 45%, og lágmarksfjárhæðin 1.5 milljónir hækkar því að sama skapi. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að-lágmarkið, sem hér er miðað við, 1.5 milljónir, verði hækkað í 2.5 milljónir. Miðað við skattvísitölu 145 verður þá hámark vaxtafrádráttar einhleypings 3 millj. 625 þús. gkr., en hámark vaxtafrádráttar hjóna verður 7 millj. 250 þús. kr. við álagningu á næsta ári. Áætlanir gefa til kynna að þessi breyting kosti ríkissjóð um nærfellt 250 millj. kr. við álagningu skatts á þessu ári.

Rétt er að taka það fram, að hugmyndir hafa verið uppi um fleiri breytingar á þessu ákvæði en hér er gerð tillaga um.

Í fyrsta lagi þykja ákvæðin, sem binda frádrátt vaxtagjalda við tvö og fjögur ár, samkvæmt þeim texta sem ég las áðan, nokkuð þröng og hugmyndir hafa komið fram um að þar verði gerð einhver tilhliðrun, t.d. bætt einu ári við.

Í öðru lagi hafa heyrst þær raddir, að óeðlilega mikið áfall verði fyrir þá, sem miklar skuldir hafa, að fá þær ekki dregnar frá, eins og verið hefur um langt skeið, nema þær tengist öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Menn hafa verið að nefna þann möguleika að draga mætti frá einhvern hluta vaxtagreiðslna vegna annarra skulda.

Bæði þessi atriði, sem ég nú hef nefnt, hafa verið rædd í viðræðum ríkisstj. við fulltrúa Alþýðusambands Íslands, en engar ákvarðanir hafa verið teknar af hálfu ríkisstj. — um breytingar eða tillögur til breytinga í þessa átt. Ég get því ekkert um það sagt á þessu stigi, hvort tillögur verða gerðar sem ganga lengra en hér er gert ráð fyrir, og tel eðlilegast að það verði nánar rætt bæði í viðræðum ríkisstj. og Alþýðusambands Íslands og í þeim þingnefndum efri og neðri deildar sem fá málið til meðferðar.

Ég vek athygli á að hafa verður nokkuð hröð tök við afgreiðslu þessa máls. Það má ekki dragast öllu lengur en fram í miðja næstu viku að endanlega sé frá gengið hvernig þessum atriðum verður háttað þannig að hægt sé að afgreiða lögin frá Alþingi ekki síðar en á fimmtudag í næstu viku og birta þau á föstudegi því að þá verða aðeins fimm dagar eftir af framtalsfresti.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., sem er mjög aðkallandi og verður að fá nokkuð hraða afgreiðslu hér í þinginu, en ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.