28.01.1981
Efri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. er hér um að ræða nánast leiðréttingu á skattalögunum að því er varðar tvö atriði. Hið síðara er um vaxtafrádráttinn og er sjálfsagt ekki vanþörf á því að hann sé rýmkaður nokkuð frá gildandi lögum, en eins og kom fram í máli hans verður hann samt sem áður verulega þrengdur á þessu ári hjá hinum almenna borgara sem skuldar lausaskuldir sem ekki eru tryggðar með veði í fasteign. Um þessa grein er ekki nema gott eitt að segja. Ég held að þetta sé sanngirnismál. Það var alltaf gert ráð fyrir því, þegar þessi lög voru sett, að athuga þyrfti þau nánar. Sjálfsagt þarf að skoða betur ýmis atriði að því er lagasetninguna í heild varðar, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh.

En um 1. gr. er það að segja, að þarna er verið að fjölga frádráttarliðum. Út af fyrir sig er þarna verið að fara inn á öfuga braut við þá sem stefnt var að með lagasetningunni á sínum tíma og menn voru sammála um hér á hinu háa Alþingi, þ.e. að draga úr frádráttarliðum, reyna að draga eins mikið úr fjölda frádráttarliða og mögulegt væri.

Hæstv. ráðh. talaði hér um skattvísitöluna. Það ætlaði ég að gera að umtalsefni og eins það sem hann ræddi hér almennt um skattamál að því er varðar tekju- og eignarskatta.

Skattvísitalan var ákveðin í fjárlögum 145 stig, en upplýst er af hálfu Þjóðhagsstofnunar, — það eru bestu upplýsingar sem fyrir liggja um tekjubreytingar manna milli ára 1979 og 1980, — að laun launþega hafi hækkað a.m.k. 51% á þessu tímabili. Nú er það svo, að skattvísitala sem aðeins hækkar um 45% á sama tíma sem tekjur launþega hækka a.m.k. 51%, íþyngir stórkostlega skattgreiðendum almennt, greiðendum tekju- og eignarskatts og sjúkratryggingagjalds. Er talið að 1% í vísitölu íþyngi mönnum um 1200 millj. gamalla króna. Ef við setjum sem svo, að rétt hafi verið reiknaðar út tekjubreytingar milli ára og skattvísitalan yrði að vera eitthvað í kringum 152 eða 153 til þess að menn hefðu sömu skattbyrði af tekjum sínum á þessu ári og í fyrra, þá er hér hvorki meira né minna um að ræða en 10 milljarða gamalla króna. Að óbreyttum lögum, þrátt fyrir að þetta frv. verði samþykkt, er stefnt að því að íþyngja mönnum frá því í fyrra sem því nemur að raungildi í tekju- og eignarsköttum.

Eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. eru nokkrir starfshópar eða nefndir að starfa að því að athuga skattalögin að ýmsu leyti. Hann nefndi hér fulltrúa þingflokka. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðh. hvað þessi nefnd hafi starfað mikið, hvað hún hafi komið oft saman og hvað hún hafi í rauninni athugað þessi mál mikið.

En það, sem mér leikur mest forvitni á að vita, það, sem skattgreiðendum í voru landi liggur mest á að vita, er hvað hæstv. ríkisstj. ætlar sér að gera í þessum málum. Hæstv. ríkisstj. lætur að því liggja í svonefndri efnahagsáætlun sinni, að til greina komi alla vega að lækka skatta þannig að láglaunafólk fái kaupmáttaraukningu sem nemi 1.5%. Á sama tíma eru gildandi lög í landinu, sem sannarlega má túlka þannig og er í rauninni staðreynd, að stefna að þeirri skattahækkun, sem ég nefndi áðan, á sviði tekju- og eignarskatta, fyrir svo utan hækkanir á óbeinum sköttum sem stefnt er að og ég hef gert ítarlega grein fyrir í umr. á Alþingi. Heildarskattahækkunin á þessu ári nemur í óbeinum og beinum sköttum og með þessum 10 milljörðum, sem ég nefndi áðan, sem óbreytt skattvísitala og óbreytt lög mundu íþyngja mönnum um, 23–24 milljörðum. (Gripið fram í.) Já, svo miklir skattar mundu íþyngja mönnum ef lögum verður ekki breytt.

Þetta horfast menn í augu við eins og sakir standa að þurfa að greiða að raungildi í ríkissjóð í beinum og óbeinum sköttum fram yfir það sem þeir greiddu á yfirstandandi ári. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh.: Hvenær heldur hann að Alþingi fái að fjalla um þessa stefnu ríkisstj.? Ég skal einskorða mig við tekju- og eignarskatta. Hvenær heldur hann að Alþingi fái um þá að fjalla og skattgreiðendur í landinu fái um það fulla vitneskju hve mikla skatta þeir eigi að greiða á þessu ári? Ég endurtek að skattvísitala 145 hefur þessa íþyngingu. Hún þýðir 10 milljarða þyngingu eignar- og tekjuskatta á þessu ári frá því sem var í fyrra. Og spurning mín er þessi: Hvenær fá menn að sjá það svart á hvítu hvort ríkisstj. hugsar sér að framfylgja því loforði við launþega sem hún hefur sett á blað í efnahagsáætlun sinni?