28.01.1981
Efri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Tilefni þess að ég kem hér í ræðustól eru þær upplýsingar sem hæstv. ráðh. gaf um starfshópa sem hafa verið að endurskoða eða skoða áhrif hinna nýju skattalaga. Hann upplýsti að þessar nefndir hefðu unnið illa, hefðu sjaldan komið saman og lítið gert. Mér skildist að ástæðan væri fyrst og fremst sú að það væri langur biðlisti hjá Skýrsluvélum ríkisins. Ég vil leyfa mér að skora á hæstv. fjmrh. að sjá til þess, að þessi mál hafi forgang. Ég lít svo á, að það sé ekki síður nauðsynlegt að þessar nefndir ljúki störfum en að koma þessu frv. í gegn. Hann benti réttilega á að það lægi á að afgreiða þetta mál, en ég hefði nú haldið að það væru ýmsir fleiri þættir í þessum skattalögum sem þyrftu að fá afgreiðslu eftir slíka endurskoðun. Ég leyfi mér því að skora á hæstv. ráðh, að ýta á störf þessara nefnda.