28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

151. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. á þskj. 189 um breyt. á 2. mgr. 36. gr. laga um þingsköp. Að því er flm. leggja til er gert ráð fyrir að 2. mgr. þessarar greinar laganna orðist svo:

„Ráðherrar mega taka til máls svo oft sem þeim þykir þurfa, til jafns við aðra þingmenn. Ráðherrar skulu njóta forgangs til að svara spurningum eða bera af sér ámæti, en þó aðeins í þrjár mínútur eða skemur hvert sinn.“

Í grg. fyrir frv. er þess getið og það nánar útskýrt, hvaða breytingar þetta mundi hafa í för með sér. Hér er aðeins um það að ræða að breyta þingsköpum í þá veru að við umr. hér á Alþingi hafi ráðherrar nákvæmlega jafnan rétt á við aðra þingmenn til að ganga inn í umræðu, en þó þannig að á hverjum tíma, þá svo sem nú er, geti ráðherrar gengið inn í umræður og rofið þannig röð ræðumanna, en þá aðeins í þrjár mínútur eða skemur í hvert sinn. Það skal undirstrikað að hér er um að ræða minni háttar breytingu, en hún miðar að því að réttur ráðh. sé nokkuð til jafns við rétt annarra þingmanna. Í grg. með frv. segir svo:

„Þetta frv. er sett fram til þess að tryggja jafnrétti þingmanna í ríkari mæli en nú er. Gert er ráð fyrir því, að þó svo þingmenn séu ráðherrar skuli þeir ekki njóta eins mikilla forréttinda að því er ræðutíma varðar og þeir nú gera. Þó er gert ráð fyrir því, að ráðherrar njóti þeirra forréttinda að geta hvenær sem er kvatt sér hljóðs og vera þá næstir á dagskrá til þess að svara spurningum eða bera af sér ámæli.

Flm. telja, að bæði samkvæmt þingsköpum og samkvæmt hefð njóti ráðherrar nú of mikilla forréttinda. Slík forréttindi séu til þess fallin að auka mjög hlut framkvæmdavaldsins á kostnað löggjafarvaldsins. Þessari þróun er reynt að snúa við að nokkru með flutningi þessa frv.

Á það skal lögð áhersla, að réttur ráðh. er hvergi meiri en annarra þingmanna, t.d. við útvarpsumræður. Þar er réttur þeirra sem hvers annars þingmanns, en ekki meiri.

Frá sjónarhorni þingræðis og þingsögu er óeðlilegt, að einn hópur þingmanna hafi meiri ræðutíma og rýmri heldur en annar á Alþingi. Ráðh. eru fyrst og fremst sveit manna og kvenna, sem löggjafarvaldið hefur kosið til að framkvæma þær lagareglur, sem Alþingi kann að setja hverju sinni.

Eins má gera ráð fyrir, að þessi breyting flýti umræðum og geri þær efnismeiri en þær hafa verið nú um nokkurt skeið.“

Það skal undirstrikað, að hér er auðvitað aðeins um að ræða minni háttar efnisbreytingu á þingsköpum. Aðalatriðið er það, sem síðast er getið um í grg., að ætlast er til þess að þetta jafni í fyrsta lagi rétt þingmanna og í öðru lagi verði þessi breyting til að flýta umræðum og gera þær efnismeiri en þær hafa verið nú um nokkurt skeið.