28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

151. mál, þingsköp Alþingis

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel út af fyrir sig að það frv., sem hér er flutt, sé góðra gjalda vert á marga lund og ég tel enga ástæðu til þess, að ráðherrar njóti neinna forréttinda hér í þingsölum. Ég kveð mér ekki hljóðs út af því, heldur út af þingsköpum almennt, úr því að farið er að hreyfa þeim málum hér.

Ég held að reynsla okkar undanfarin ár, a.m.k. þann tíma sem ég hef verið hér, sem er ekki ýkjalangur, sýni að margt má betur fara í þingsköpum Alþingis yfirleitt. Ég held að það eigi bæði við um ræðutíma ráðherra og þingmanna, fjölda af ræðum hvers manns við hverja umræðu mála, um nefndarstörf og fjölmarga aðra slíka þætti. Ég held að þessi mál séu í rauninni ákaflega þýðingarmikil varðandi þann svip sem Alþingi hefur gagnvart landsmönnum og það sé nauðsynlegt að koma hér á reglum sem séu þannig að Alþingi haldi sem best þeirri reisn og þeim svip sem það á að hafa.

Þess vegna kveð ég mér hér hljóðs að hreyfa þeirri hugmynd að formenn þingflokka og forsetar þingsins velti því fyrir sér nú á þessum vetri, hvaða lagfæringar það eru á þingsköpum sem samstaða gæti náðst um þannig að það mætti líta á þau mál á nýju þingi með haustinu. Auðvitað þýðir ekki að fara að knýja fram breytingar í þessum efnum með knöppum meiri hl. hér í þinginu. Þessi mál eru ekki þess eðlis. En ég er sannfærður um að margt í þingsköpum Alþingis er þannig að það gæti náðst samstaða um breytingar, og ég kveð mér hér hljóðs til að vekja athygli á nauðsyn þess í tengslum við það frv. sem hv. 9. þm. Reykv. var að mæla fyrir.