28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

151. mál, þingsköp Alþingis

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Þær umræður, sem hér fara fram, eru hinar merkustu og mjög tímabærar. Það er enginn vafi á að það er orðin mikil þörf á breytingu á þingsköpum. Við urðum vitni að því í gær hvernig umræður utan dagskrár lengdust talsvert mikið „í annan endann.“

Á borðum okkar liggur ótalinn fjöldi mála sem ekki fæst útræddur á þessu þingi, það er alveg ljóst. Og vegna orða síðasta ræðumanns, hv. þm. Páls Péturssonar, um ama hans af því að takmarka ræðutíma hér á þingi, gæti ég svo sem látið mér detta í hug að þann vanda gætum við leyst með því að lengja þingtímann. Í sjálfu sér er þingið í fríi hálft árið, og það atriði í þingsköpum er mál sem er fullkomlega vert að taka upp og ræða, hvort ekki mætti lengja sjálfan þingtímann sem hefur nokkuð verið bundinn, a.m.k. fram á síðustu ár, við nauðsynleg störf bænda í sveitum.

Ég tek algjörlega undir það að fyllsta þörf er á því að breyta þingsköpum, að stytta ræðutíma í umræðum utan dagskrár og reyna að draga úr þeim mikla tíma sem fer hér í fsp. á kostnað mikilvægra máta sem liggja á borðum okkar og eru ekki útrædd og verða ekki útrædd á þessu þingi. Hver sá þm. sem þau flytur verður að endurflytja þau mál á næsta þingi fái þau ekki afgreiðslu nú.

Ég vil endurtaka að þessi mál eru orðin mjög tímabær til umræðu hér í þinginu og tímabært að breyta þingsköpum í þá veru sem hér hefur verið um rætt. Og ég vil bæta því við, að ég tel fullkomlega tímabært að kanna hvort ekki sé hugsanlegt að lengja setu sjálfs þingsins.