28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

151. mál, þingsköp Alþingis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er ekki á hverjum degi sem við horfum upp á það, að Alþfl.-þm. drepi frv. fyrir sjálfum sér. En við höfum fengið að horfa á það sjónarspil nú. Hér er á dagskrá ákveðið málefni. Flm. eru Vilmundur Gylfason, Jóhanna Sigurðardóttir, Ágúst Einarsson og Sighvatur Björgvinsson. Svo bregður svo merkilega við, að sá síðast nefndi hefur hér upp langar tölur um allt annað en það sem er á dagskrá. Hann varðar ekkert um það þó að forseti segi að það eigi að ræða þessi mál, hann er stór maður og vill ræða allt annað. Hann vill ræða um hrútana á Höllustöðum. Og hver ætlar að fara að taka málfrelsi af þessum hv. þm. þegar hann hefur áhuga á að ræða önnur mál en þau sem forseti leggur til að rædd séu í deildinni? Það væri nú aldeilis hroki ef forsetinn tæki upp á slíku. Þvílík ósvífni! Það er kannske rétt að ræða þessi mál út frá því sjónarhorni sem hv. flm. vildu leggja til, þ.e. að auka jafnræði á milli þm. Væri þá ekki rétt að setja kvótakerfi á þann tíma sem þm. töluðu hver og einn hér í sölum þingsins, er það ekki jafnræði? Þá fengju menn það upp gefið á haustdegi, hversu mikið þeir mættu taka af tíma þingsins hver og einn. Ég er ekki viss um að það halli svo svakalega á það lið sem hér er efst á blaði. Væri ekki ráð að skoða það í þingtíðindum hvort þeir hefðu þagað að undanförnu? Nei, þetta frv. er dæmigert stjórnarandstöðufrv., þetta hefði starfsstjórninni aldrei dottið í hug að leggja til. Þá hefði ekki komið til mála af hálfu þeirra, sem hér skrifa á nöfn sín, að stytta ræðutíma ráðh. Nei, það hefði ekki verið vit í slíku frv. Samt sem áður hefðu þeir trúlega undir þeim kringumstæðum átt miklu meiri möguleika á því að fá þm. til að taka þá alvarlega heldur en með því að flytja þetta nú.

Engu að síður, þó að umræður hafi nú snúist á þennan veg, þá langar mig að ræða hér efnislega um þá hluti sem ég tel þinginu til vansa, mikils vansa, gagnvart þingsköpum. Ég á hér við þá áráttu þm. þegar þeir biðja um orðið út af þingsköpum. Ef menn fá ekki orðið um það málefni, sem þeir vilja tala um, hefur það verið tískufyrirbrigði að biðja um orðið út af þingsköpum. Í mínum huga þýðir það, að þeir vilji gera athugasemd við ákvörðun forseta um röðun mála á dagskrá. En í reynd eru þessar umræður flestar um málefni, ekki um störf forseta eða röðun mála á dagskrá. Það er þessi misnotkun á frelsi til umræðna um þingsköp sem mjög oft verður til þess að eyðileggja eðlilegar umræður hér á Alþingi. Þess vegna held ég að eðlilegt væri að forseti fengi mun meira vald til þess að stöðva umræður um þingsköp. Þannig mætti stöðva þær umræður sem eru þinginu til lítils sóma. Það er líka rétt að hugleiða það í þessu sambandi, hvort forseti eigi ekki mun oftar að grípa inn í og gera athugasemdir við mál manna þegar þeir steinhætta að ræða það málefni sem er á dagskrá. Ef forseti líður mönnum ótakmarkað að tala um það sem þeim dettur í hug hér í ræðustólnum, þá er náttúrlega tómt mál að vera að leggja fram einhverja ákveðna dagskrá í byrjun þingfundar og svo snúist umræður um allt annað, hver eldhúsdagurinn eftir annan kemur í Sþ. eða í deildum.

En af því að ég er farinn að fara í taugarnar á einum ágætum vestfirskum þm. sem telur sennilega að það hafi verið hallað á félaga sinn — (Gripið fram í: Ekkert frekar en venjulega.) — þá vil ég geta þess, að ég trúi ekki öðru en að forseti muni gefa honum orðið hér á eftir. Það væri e.t.v. rétt að hann spyrði að því, hvers vegna það er tekið fram hér, að „ráðherrar eru fyrst og fremst sveit manna og kvenna“, og hvort hann mundi vilja vera mér sammála nm svo lítilfjörlega breytingu að strika út orðið „kvenna“. (Gripið fram í: Mega ekki konur vera ráðherrar?) Ég lít svo á að þær séu menn, en það getur vel verið að þarna sé líka deiluefni.

Eitt þótt mér merkilegt í ræðu hv. 3. þm. Vestf. Það var það — af því að ég hélt að hann væri sæmilega fróður um sauðfé — hvaða erindi hann telur Pál sérstaklega eiga í fjárhúsin um fengitímann. Mér er ekki alveg ljóst hvort þarna er um vanþekkingu hjá hv. þm. að ræða, en það eru svo furðulegir hlutir sem koma upp á að ég minnist þess, að það var prestur í Dalasýslu sem færði það í tal við fjármann sinn, hvort ekki væri hægt að ljúka tilhleypingunni af á einum eða tveimur dögum ef þeir færu allir í það, eins og hann orðaði það. Það má vel vera að það sé þessi hugsun, sem vaki á bak við hjá hv. 3. þm. Vestfjarða.