28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

151. mál, þingsköp Alþingis

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það kemur fyrir í hinum merkilegustu málum, sem hér eru til umræðu, að farið er nokkuð út fyrir málið sjálft, og það er engin ný bóla. Menn hafa sumir verið að finna að því nú í þessari umræðu, þó að nokkur gamanmál hafi verið á lofti um leið. En mér finnst það ekki rétt af þeim og vil benda á það, að í kjölfar framsöguræðu hv. flm. stóð hér upp hv. 4. þm. Reykv., Benedikt Gröndal, einn reyndasti og þingvanasti þm. okkar, a.m.k. hér í deildinni, og skýrði lauslega frá hugmyndum sínum um brtt. — ef ég hef skilið það rétt — sem hann hyggst flytja við þetta frv., ef það verður þá ekki flutt sem sérstakt frv. Það er því eðlilegt að farið sé út fyrir það frv., sem hér er á dagskránni, og rætt um einn og annan agnúa sem er á þingsköpum Alþingis og okkar starfstilhögun.

Það má m.a. nefna vinnutímann. Ég benti á að það hefði mátt ná a.m.k. 18 virkum dögum til vinnu hér á Alþingi ef hv. þm. Páll Pétursson og hans félagar hefðu ekki algerlega staðið gegn því og heimtað að fá okkur heim, burt héðan úr þingsölum, væntanlega til þess að við gerðum engan skaða hér. En þá hefur hann líka búist við að áhrif okkar mundu eitthvað aukast í janúarmánuði. En að sjálfsögðu má líka — án þess að gengið sé út frá lengingu þingtímans á vorin — lengja vinnutímann á dag og fjölga fundadögum. Það eru ekki þingfundir á föstudögum, en auðvitað mega þingfundir vera á föstudögum. Margar stéttir þjóðfélagsins vinna alla daga vikunnar, og margar stéttir þjóðfélagsins vinna 14 og upp í 18 tíma á sólarhring. Og hér eru þm. og ráðh. sem öfundast út í laun manna sem greidd eru fyrir slíkan vinnutíma. En af því að það var líka að því vikið af einum þm., að það hefðu orðið verulegar launahækkanir hjá þm., þá mótmæli ég þessu. Að vísu mun það hafa orðið hjá honum og öðrum utanbæjarþm. — sem eðlilegt er því að verklýðsforusta þm. er í höndum forseta sem allir eru þm. fyrir kjördæmi þar sem þeir fá sín laun greidd í öfugu hlutfalli við atkvæðamagn.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Mér finnst eðlilegt að drepið sé á eitt og annað í sambandi við störf þingsins þegar svona mál er flutt. Það er eðlilegt að þm. bendi á fleiri atriði en komu fram hjá flm. þessa frv., því að sjálfsögðu mun þetta mál og þær athugasemdir, sem hér hafa komið fram, koma til umræðu í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar. Og fyrst verið er að hrófla við þessum lögum á annað borð, þá tel ég sjálfsagt að það sé haft áhrif á fleira en þetta eina atriði, sem ég er hjartanlega sammála hv. flm. um að þurfi að breyta. Ég er sammála efni þessa frv., en það er bara margt annað til viðbótar, eins og hv. þm. Benedikt Gröndal hefur minnst á.