28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

180. mál, meðferð mála vegna rangrar notkunar stöðureita

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. um sérstaka meðferð mála vegna rangrar notkunar stöðureita fyrir ökutæki o.fl., er nú lagt fram í þriðja sinn. Var frv. upphaflega flutt undir þinglok veturinn 1977–1978 og einnig á síðasta þingi. Í bæði skiptin var frv. vísað til nefndar, en kom ekki til frekari meðferðar á Alþingi.

Frv. þetta er, eins og segir í aths., samið af réttarfarsnefnd að ósk dómsmrn. Það fjallar um umfangsmikinn þátt mála, er lögregla og dómstólar fást við, og miðar að einföldun og hraðari meðferð þeirra. Fjöldi þessara mála er mjög mikill og má nefna sem dæmi að miðar festir á bifreiðar í Reykjavík vegna vanskila á greiðslu í stöðumæli voru 77 594 á síðasta ári. Er ökumanni þá boðið að ljúka máli með greiðslu svokallaðs aukaleigugjalds. Nú lýkur ekki öllum málum með því og voru í Reykjavík gefin út 34 166 sektarboð á síðasta ári af hálfu lögreglustjóra í þeim tilvikum. Ef sektarboði er ekki tekið er máli svo vísað til dómara.

Ljóst er að miklu varðar ef unnt er að einfalda meðferð þessara mála. Frv. þetta miðar að slíku. Er lagt til að hætt verði að meðhöndla mál þessi sem refsimál, málin eru .,afkriminaliseruð“, eins og það er kallað, og meðhöndluð sem einkamál. Hefur það verið gert í nágrannalöndum okkar og gefið góða raun. Frv. fjallar nánar um meðferð þessara mála, sem ég tel ekki ástæðu til að rekja hér frekar, en vísa til grg.

Rétt er að geta þess, að frv. er flutt óbreytt eins og það var lagt fram í upphafi. Frv. hafði þá verið sent Umferðarráði til umsagnar og komu ýmsar ábendingar fram í umsögn þess um atriði sem talið var að koma mætti fyrir með öðrum hætti þótt meginhugsun frv. sé í rétta átt. Ábendingar Umferðarráðs voru sendar þingnefnd þeirri sem málið fékk til meðferðar. Þá mun hv. allshn., sem fékk frv. þetta til skoðunar á síðasta þingi, hafa borist umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar Reykjavíkur um frv. Er rétt að þingnefnd sú, sem nú fær málið til meðferðar, kynni sér ábendingar Umferðarráðs og viðhorf borgaryfirvalda, en hér er um að ræða mál sem snertir mjög hagsmuni sveitarfélaga og þá sér í lagi Reykjavíkurborgar.

Herra forseti. Ég tel eigi ástæðu til að lengja mál mitt frekar og legg til að frv. verði að umr. þessari lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.